20.10.1944
Sameinað þing: 59. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í D-deild Alþingistíðinda. (5450)

169. mál, kaup á efni í Reykjanesrafveituna

Eiríkur Einarsson:

Ég vil taka það fram, að brtt. á þskj. 459 var útbúin í gær og var þá send til prentunar, ef hægt er þá að nefna það því nafni, og að hv. samþm. minn, 1. þm. Árn., var þá fjarri, og veit ég því ekki um sérstaka afstöðu hans, þó að ég viti, að hann muni vilja leggja málinu allt það lið, er hann getur, sem og okkur ber að gera sameiginlega. En til að fyrirbyggja misskilning, vildi ég taka fram, að ég stend einn þm. Árn. að till. af tilgreindum ástæðum. Annars var það hv. l. flm. till., sem mælti fyrir henni, og þarf ég ekki að endurtaka það, er hann sagði, að öðru en því, að það má segja, að sagan endurtaki sig. Það var á þ. 1943 heilmikið rætt um efniskaup til ýmissa rafveitna. Þá komu fram ýmsar brtt., sem miðuðust við ákveðna staði, en þá var það Keflavík ein, sem skauzt fram fyrir og fékk forgang. Hins vegar varð samkomulag um að veita ríkisstj. sameiginlega heimild til kaupa á efni til annarra rafveitna. En sú ályktun var tímabundin. Hún gilti ekki lengur en þar til næsta Alþ. kæmi saman, og nú er það orðið, svo að heimildin er úr gildi fallin, og er þá annað tveggja að láta sitja við það, sem áður var, eða leita heimildar að nýju. Hv. l. flm. lét skína í, að það skipti íitlu máli, hvort staðirnir væru tilgreindir eða sameiginleg yfírlýsing fengist um ónafngreinda staði. Ég lít svo á, eftir því sem málinu er háttað um þessa heimild til að borga efnið, að það eigi að vera samfelld heimild án tilgreiningar staða. Ég álít það heilsteyptara, því að ef glíma á um staði, hvort t. d. Reykjanes eða einhverjir aðrir staðir eigi fyrst að fá þessu framgengt, þá yrðu það reiptog og glímubrögð fremur en það svaraði til réttmætrar faglegrar niðurstöðu í málinu. Ég spurði þann mann um málið, sem ég hygg, að beri sérstakt skynbragð á þetta, en það er forstöðumaður Rafmagnseftirlits ríkisins, og hann sagði, að verið hefði stöðug viðleitni á því að útvega efni til þeirra rafveitna, sem næst standa, eins og rafveitna til Eyrarbakka-, Stokkseyrar-, Reykjaness- og Þingeyjarsýslulínunnar, og heyrði ég á honum, að ekkert hefði fengizt enn, en viðleitnin væri fyrir hendi og henni haldið áfram af fullum áhuga. Hins vegar heyrðist mér ekki á honum, að um væri að ræða nokkurn aðstöðumun fyrir þessar ýmsu línur. Svo er það, að úr því að einn hv. þm. varð til að flytja till., sem er stíluð á þessa einu línu, þá freistast maður til að gera hið sama. Ég endurtek, að maður, sem hefur fagþekkingu í þessum málum, forstöðumaður Rafmagnseftirlits ríkisins, sagði þetta við mig í gær, að stöðug viðleitni væri höfð á þessu máli, án þess að einn staður væri látinn vera öðrum framar. Þess vegna óska ég þess, að jafnframt því að þessi till. fer til fjvn. verði athugað gaumgæfilega, hvaða aðferð sé heppilegust í þessu máli. Ég get að því leyti ekki verið samþ. því, sem kom fram hjá hv. þm. G.-K., þar sem hann mælist til, að till. á þskj. 431 verði samþ. og brtt. okkar kannske líka að athuguðu máli í fjvn. Ég álít, að það eigi að skipa þessum stöðum á sama stallinn án þess að gera upp á milli þeirra og óforsvaranlegt sé að láta ýmsa þm. vera að þumlunga sig áfram hvern með sinn stað. Ég álít það ekki rétt og ekki þinglegt. Ég vildi gjarnan óska þess, að Reykjanessrafveitan kæmi sem fyrst, en ekki á óeðlilegan og óþinglegan hátt og á kostnað annarra staða. Og það gæti farið svo eftir reynslu fyrr og nú, að það endaði með óheppilegu reiptogi. Það er álitamál, hvort ekki væri rétt fyrir n., sem fær þetta mál til athugunar, að skeyta við sínar niðurstöður samfelldri till. án tilgreiningar stöðva þess efnis, að framkvæmdir skuli unnar jafnóðum og efni fæst, eftir till. Rafmagnseftirlits ríkisins, því að það er um þetta eins og allar stórvægilegar framkvæmdir, að til þess eru fagmenn og trúnaðarmenn ríkisstj. og Alþ., að farið sé eftir þeirra till. Þá tekst mikið ómak af Alþ., og það losnar við freistingu til togstreitu. Þetta er ekki sagt til að mótmæla neinni af till., heldur er ég með orðum mínum að benda á það, sem krefjast verður til samræmis þessu máli.