20.10.1944
Sameinað þing: 59. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í D-deild Alþingistíðinda. (5451)

169. mál, kaup á efni í Reykjanesrafveituna

Garðar Þorsteinsson:

Ég hefði talið réttast, að sú till., sem samþ. var í fyrra, yrði samþ. aftur að efninu. Ég tel, eins og till. á þskj. 431 er orðuð, að hún gangi í þá átt að láta Suðurnesin ganga fyrir, þótt vitað sé um aðra staði, þar sem þörf á raflögnum er eins mikil. Ég er á móti því. sem hv. þm. G.-K. sagði, að rétt væri að samþ. efnislega þessar tvær till. sérstaklega. Ef á að tiltaka einhverja staði, er rétt að tiltaka þá alla staði, sem vitað er um, að jafna kröfu hafi til að fá lagt til sín rafmagn. Nú hefur verið mælt með raflögn út til Dalvíkur í sambandi við lögn frá Akureyri, og mér hefur skilizt, að hana ætti að leggja næst á eftir Reykjanesslínunni. Ef á að tiltaka staði .fyrirfram, finnst mér eðlilegt, að þessi lögn komi þar með, og leyfi ég mér því að bera fram skrifl. brtt. við brtt. á þskj. 459, að niðurlag hennar orðist þannig: Húsavíkur, Reykjahverfis og út um Eyjafjörð vestanverðan til Dalvíkur. — Þessi till. kemur að líkindum til athugunar í fjvn., og ég teldi eðlilegt, að sú almenna heimild gilti, sem fólst í gömlu till., þar sem ríkisstj. var heimilað að verja fé til efniskaupa, og svo yrði leitað til fagmanna um ákvörðun lagnanna sjálfra. Svo langar mig til að spyrja hæstv. fjmrh. um það, að hve miklu leyti þessi heimild hefur verið notuð, á hve miklu efni hafa verið fest kaup í Ameríku og hvort eiga megi von á því, að efnið fáist hingað.