24.01.1944
Neðri deild: 5. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (5469)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. — Þingheimur hefur vafalaust veitt því athygli, að miklar umræður hafa orðið í blöðum í sambandi við hin hörmulegu sjóslys, er hér hafa orðið nú að undanförnu. Um það hefur verið rætt meðal annars, að nokkur hætta væri á því, að ekki væri gætt nægilegrar varfærni með hleðslu skipa, bæði hér við land og eins þeirra, er sigla til erlendra hafna. Það hefur verið talað um, að breytingar þær, sem gerðar hafa verið á fiskiskipunum, hafi orðið til þess að minnka öryggi þeirra og jafnvel gert það að verkum, að þau hafi verið ofhlaðin. Ég ætla nú, að öllum sé það ljóst, hversu mikið afhroð íslenzka þjóðin verður að gjalda, ef mörg sjóslys verða hér jafnægileg og undanfarið, og það er alvöruefni, þegar við íhugum, hve mikla þýðingu skipin hafa fyrir okkur.

Mér finnst full þörf á, að þessi mál séu athuguð. Ég vil því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. atvmrh. og ríkisstjórnar, hvoru hún hafi ekki séð ástæðu til að láta rannsókn fara fram um þessi efni. Ég vil þó ekki leggja neinn dóm á þessi ummæli að svo komnu máli. Það mundi þó sennilega koma í ljós við slíka rannsókn, hvort það er rétt, sem sumir sjómenn halda fram, að ofhleðsla gæti orsakað slík stórslys.

Ég vænti að heyra frá hæstv. atvmrh., hvort ríkisstj. hafi nokkuð látið rannsaka þessi mál.