24.01.1944
Neðri deild: 5. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1978 í B-deild Alþingistíðinda. (5476)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Eins og hæstv. ríkisstjórn er kunnugt, þá var hér skipuð nefnd manna til að endurskoða launalögin. Það mun hafa verið lagt fyrir þessa n. að ljúka störfum fyrir síðasta framhaldsþing, sem lauk störfum sínum rétt fyrir jólin. En einhverra orsaka vegna gat þetta nú ekki orðið þá. Ég vil nú spyrja hæstv. ríkisstjórn, hvað líði störfum þessarar n., og hvort hún hyggist ekki að leggja álit hennar fyrir þetta þing.