14.02.1944
Neðri deild: 12. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1979 í B-deild Alþingistíðinda. (5480)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Finnur Jónsson:

Það hefur komið í ljós, að allmikill veiðarfæraskortur er í landinu, nú þegar í byrjun vertíðar. Það hafa borizt kvartanir um, að nokkur skip muni verða að hætta veiðum eða muni, ekki geta tekið þátt í vertíðinni sökum veiðarfæraskorts.

Nú er vitað, að það, sem Ísland á að láta viðreisnar- og hjálparstofnuninni í té, er fiskur. Það mun vera talsverður áhugi fyrir því, að sú fiskframleiðsla geti orðið sem mest. Nú er séð, að ef ástandið er þannig í byrjun vertíðar, að veiðarfæri vantar, þá er hvorki hægt að hafa þá atvinnu í landinu, sem æskilegt er, né framleiða þann fisk, sem viðreisnar- og hjálparstofnunin óskar að fá.

Nú vil ég spyrja hæstv. viðskmrh., hverju þetta sætir. Það hefur verið venja að sjá um, að það væri til nægilegt efni til veiðarfæragerðar. Það virðist ekki hafa verið hugsað fyrir því. Enn fremur vil ég spyrja, hvaða ráð hann vill hafa til að bæta úr því ástandi, sem nú ríkir í þessum málum.

Skriflegar spurningar hafa borizt mþn. í sjávarútvegsmálum um þetta, en þar sem nauðsynlegt er að hefjast handa til bóta á þessu ástandi nú þegar, vildi ég ekki láta hjá líða að spyrja, hvað gert verður.