14.02.1944
Neðri deild: 12. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1980 í B-deild Alþingistíðinda. (5487)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Finnur Jónsson:

Það er gott að fá þessar upplýsingar. Hins vegar get ég ekki látið hjá líða að lýsa undrun minni yfir því, að það skuli nú, í byrjun vertíðar, vera verið að taka upp samninga, ef fyrir löngu hefur verið sýnilegt, að það mundi verða veiðarfæraskortur. Ég held, að þetta sé eindæma rekstur á þessu ári á þessu máli.

Það er sagt, að það skorti bæði lóðaefni og fiskinet, en nú á vertíð að vera komin á sitt hæsta stig. Það er undarlegt, að ríkisstjórnin skuli ekki hafa fylgzt með þessu og séð um að kippa þessu í lag. Það sýnist vera sama seinlætið með þetta og hitt, að láta Bandaríkin og Breta standa við þá samninga, sem þeir hafa gert um að útvega mótorvélar. Bandaríkin mundu ekki eiga erfitt með það. Það er eins og það vanti annaðhvort vilja Bandarikjanna eða nægan eftirrekstur af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það, sem tekur út yfir, er, að Bandaríkjamenn hafa sent vélar í byrjun stríðsins, en neita nú að selja varahluti til þeirra. Það liggur við borð, að þeir, sem hafa keypt vélarnar, verði að kaupa aðrar nýjar, ef þær bila. Það sýnist þurfa að sýna Bandaríkjunum fram á, að til þess að taka þátt í starfi viðreisnar- og hjálparstofnunarinnar, verður að hafa veiðarfæri. Það getur ekki verið hagsýni, jafnvel ekki fyrir Bandaríkjamenn, að það skuli vanta bæði veiðarfæri og vélahluti í vélar, sem þeir hafa selt.

Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði verið farið allar venjulegar leiðir. En hvað er langt síðan farið var inn á óvenjulegar leiðir, þ.e.a.s. stjórnmálalegar leiðir, til að fá bætt úr þessu ástandi?

Ég hygg, að reynslan sýni, að annaðhvort er erfitt að ná eyrum þeirra, sem stjórna, eða að stjórnin hefur ekki gert sér ljóst, hvað gera ber.