14.02.1944
Neðri deild: 12. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (5494)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Það hefur verið á það bent, hve mikill voði er fyrir dyrum, ef ekki verður skjótlega bætt úr veiðarfæraskortinum. Í því sambandi hefur verið rætt um fyrirhyggju eða ekki fyrirhyggju, en ég skal ekki fara út í það. Þó virðist mér augljóst, að langt sé síðan þeir atburðir gerðust. sem gáfu til kynna, að alvarleg hætta væri á ferðum.

Normalt á veiðarfæragerðin að eiga birgðir af efni í veiðarfæri, en fyrir nokkru mun stjórnin hafa neitað um innflutning á nauðsynlegu efni til þessarar framleiðslu. Þetta er stórkostlegur galli, og þyrfti að koma í veg fyrir slíkt með löggjöf.

Þá vildi ég spyrja, hvort ekki hafa verið settar einhverjar reglur um afhendingu þeirra veiðarfæra, sem til eru í landinu, því að ég geng ekki út frá því. að um algeran skort sé að ræða þegar, og ættu þeir, sem verst eru settir, að geta fengið einhverja úrlausn. Nú má búast við, að fyrirhyggjumenn hafi reynt að birgja sig upp, ef þess hefur verið kostur, og er ég ekki að lasta slíkt.

Mér er ekki kunnugt, hvort miðlun á veiðarfærum hefur verið tekin upp, en það hefði verið nauðsynlegt, þegar útlit fór að verða á skorti á þeim. Hefði ekki átt að leyfa neinum að kaupa nema fyrir næstu mánuði. Má vera, að nú sé þetta um seinan og öll veiðarfæri uppsleikt. En ég vildi láta þetta koma fram hér.

Ég trúi ekki öðru en Bandamenn geti gert sér það ljóst, að ef þeir vilja fá fisk frá okkur, verði þeir að láta okkur fá efni í veiðarfæri.