14.02.1944
Neðri deild: 12. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1983 í B-deild Alþingistíðinda. (5498)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Hér hefur það enn einu sinni verið dregið inn í umr., hvílíkt vandamál veiðarfæraskortur útgerðarinnar er.

Ég hef áður lýst því, hvernig komið er vegna vöntunar ýmissa útgerðarnauðsynja. En mér virðist, að þær umr., sem fram hafa farið hér um þessi mál, hafi borið harla lítinn árangur. Veit ég því ekki, hvort þessar umr. hafa ýkja mikið að segja. En ég vildi þó rifja örlítið upp þessi mál, ef verða mætti til þess, að hæstv. ríkisstjórn reyndi meira en hún hefur gert fram að þessu til að ráða fram úr þessum vandræðum. Þrátt fyrir það, að hér hefur verið lýst yfir, að allt, sem unnt er, hafi verið gert, geta útgerðarmenn ekki sætta sig við það, og er það ekki að ástæðulausu.

Í byrjun stríðsins var svo ástatt, að vantaði króka, og var því ekki hægt að beita. Gekk svo um tíma, að bátarnir gátu ekki stundað veiðar. Alllangan tíma var notazt við nálega ónýta króka. Loks kom í ljós, að hér var um sinnuleysi að ræða frá hendi þeirra, sem áttu að útvega þetta efni.

Nú er svo ástatt, að í byrjun vertíðar er kominn skortur á veiðarfærum. Nú strax í vertíðarbyrjun eru svörin, sem útgerðarmenn fá, á þessa leið: Veiðarfærin eru ekki til, en allt, sem unnt er, verður gert til að útvega þau. Útgerðin er nú aðeins stunduð af hálfum krafti vegna veiðarfæraskorts. Það hefur verið horft á það árið 1943, að útgerðin er að ganga saman, og nú loks, þegar í óefni er komið, á að gripa til svo kallaðrar diplomatískrar leiðar til úrbóta. Ég verð að líta svo á, að hér sé um hreint sleifarlag að ræða. Nú um nokkur ár hefur verið frá því skýrt, að í verstöðvum landsins liggi skip óhreyfð vegna þess, að þau vantar vélar. Ár eftir ár hafa útgerðarmenn beðið eftir því að fá þær vélar, sem þeir þegar hafa fest kaup á, látnar af hendi. En þegar á þetta er minnzt, er svarað, að allt sé gert, sem unnt sé til að ráða bót á þessu. En á sama tíma og þessi svör eru gefin, gerist það undarlega, að þær sömu þjóðir, sem hér eiga hlut að máli, senda beiðni um meiri fisk. Þetta gerist á sama tíma og við fáum ekki nauðsynlegar vélar og veiðarfæri til framleiðslunnar og getum ekki flutt afurðirnar á erlendan markað.

Ég vil vænta þess, að þessar umr. verði til þess, að ríkisstjórnin sjái, í hvílíkt óefni við erum komnir og höfum verið í og að hún geri frekari ráðstafanir til þess að fá úr þessu bætt.