18.02.1944
Sameinað þing: 18. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1987 í B-deild Alþingistíðinda. (5508)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. — Út af fyrirspurn hv. þm. S.-Þ. langar mig til að taka fram viðvíkjandi þessu liði, sem talað hefur verið um hér hjá Dagsbrún, að það er alveg rétt skilið hjá hæstv. dómsmrh., hvernig því er farið, að undantekningarlaust í hvert skipti, þegar búizt er við því að heyja verkfall, þá hefur viðkomandi verkalýðsfélag menn til þess að gæta að því, að verkfallið, ef til þess kemur, fari vel fram. Og ekki síður nú, þegar vinnulöggjöfin er komin, má búast við lögbrotum í sambandi við það, að atvinnurekendur vilji láta halda áfram vinnu, sem bannað er af verkalýðsfélagi að láta vinna, þó að verkfali sé komið, ef til slíks þarf að draga. Og þó að vinnulöggjöfin hafi nú verið svo lengi við lýði, þá hafa lögreglumenn alls ekki gert það, þó að þeir hafi verið beðnir, að taka verkfallsbrjóta, sem unnið hafa þvert ofan í löggjöfina. þegar verkbann hefur verið sett á. Og þess vegna þarf þetta Dagsbrúnarlið lögreglunni til aðstoðar. Og ég veit, að hv. þm. S.-Þ. veit, að öll þau ár, sem hann hefur verið í Rvík, hafa alltaf verið verkfallsverðir. Og það eina nýja í þessu efni nú er það, að lögreglustjóra er skrifað það, að þessir menn séu ábyrgir gagnvart verkalýðsfélaginu, þannig að það hafi falið þeim að starfa að þessu, en ekki eigi að láta Pétur og Pál starfa að þessu, sem koma hlaupandi einhvers staðar að. En okkur hefur alls ekki dottið í hug, að þetta lið gangi um bæinn og vinni þá skemmdarstarfsemi að skera á rafleiðslur eða gas- eða vatnsæðar bæjarins, heldur er því ætlað að halda á okkar rétti um okkar kröfur. Við ætlum ekki að ganga á rétt annarra og sízt með eyðileggingarstarfsemi, en við ætlum að reyna að halda svo á okkar rétti, að ekki verði brotin á okkur lög, þ.e. reyna að sjá um að vinnulöggjöfin verði ekki brotin. Þó að hún hafi ekki verið okkur til ánægju, ætlum við að fara eftir henni. En við höfum ekki lagt svona ágreiningsmál eða deilur inn í þingið fyrr en við megum til, því að við verkamenn finnum það, að hæstv. Alþ. hefur enn þá ekki tekið jafnmikið tillit til okkar og okkar krafna eins og annarra stétta þjóðfélagsins. Og við verkamenn munum ekki leggja kröfur okkar fyrir hæstv. Alþ. fyrr en við erum orðnir þar jafnréttháir og aðrir þegnar þjóðfélagsins. Því að hér á Alþ. hefur öðrum stéttum þjóðfélagsins verið tryggt, að þær fái viðunanlegan lífeyri.