18.02.1944
Sameinað þing: 18. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (5509)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Jónas Jónsson:

Ég vildi, út af ræðu hæstv. atvmrh., óska eftir frekari skýringum, þar sem hér er um að ræða — þó að það sé ekki af hans hálfu —nokkuð breytt viðhorf hjá sáttasemjara frá því. er var 1942, og að því er ég álít mjög óhæfilegt viðhorf skapað, sem sé að gera ráð fyrir, að svo eða svo verulegum hluta þjóðarinnar, sem tilheyrir Framsfl., komi ekkert við vinnudeila eins og sú, sem hér er hafin og, eftir því sem tilkynnt er um kröfur, mundi gera það að verkum, að bæði mundu atvinnuvegir stoppast, ríkissjóður verða gjaldþrota og bæjarsjóður Reykjavíkur mundi komast í mjög svipaðar kringumstæður. Það er sem sé vitað, að þessi vinnudeila, ef henni verður haldið til streitu, getur ekki leitt til annars en þess, ef sigur á að verða í kaupdeilunni til handa verkamönnum, að ríkisstjórnin hafi veikari aðstöðu til þess að hamla á móti dýrtíðinni heldur en hún hefur haft nú um skeið til þess að hindra dýrtíðaraukningu vegna kapphlaups á milli verkkaups og verðlags í landinu. Því að, eins og menn vita, hefur það á stundum verið svo hjá okkur, að annan mánuðinn hefur kaupgjaldið hækkað, en hinn mánuðinn vöruverðið. Og ef á að greiða fyrir því kapphlaupi, endar það ekki fyrr en allt fjármálalíf þjóðarinnar er komið í rústir. — Þess vegna álít ég það mjög óvitlegt, ef því er svo farið, að sáttasemjari telji nú, einmitt í einu af hinum alvarlegustu málum, sem hafa komið fyrir hann, að Framsfl. muni spilla friði, ef hann taki þátt með fulltrúa frá sér í sáttaumleitunum í þessari deilu. Virðist mér, að hæstv. ráðh. ætti að fá skýrslur um það frá sáttasemjara, hvort Framsfl. hefur brotið svo af sér, að ekki sé ástæða til að óska eftir fulltrúa frá honum til sáttaumleitana.

Ég hygg, að hæstv. dómsmrh. eigi eftir að svara nokkru af því, sem hann var um spurður. Hann játaði að vísu, að það hafi ekki komið fyrir áður, að partur af þegnum landsins hafi tilkynnt, að þeir ætli að vera ríki í ríkinu með sinni eigin löggæzlu. Mig furðar á því, að einn af þekktustu lögfræðingum landsins skuli ekki veita því eftirtekt, að þetta er merkileg nýjung, ef einu félagi á að haldast uppi að skrifa lögreglustjóra og segja: Við ætlum að setja upp okkar varalið til þess að gæta laga og réttar. Ef slíkt ætti að haldast uppi, þá gætu þeir orðið margir hóparnir, sem slíkt krefðust að gera, líkt og á 13. öld, svo að mörg gæti spurningin orðið alvarleg. Og þess verður að krefjast af hæstv. ríkisstjórn, að hún athugi afleiðingarnar af því, að hér er komið upp varaliði eins og þessu. Þetta er í raun og veru ögrun til ríkisvaldsins. Og ég get ekki séð, að þjóðfélagið geti haldizt við, ef þessi aðferð er leyfð, eins og hér hefur komið fram, að aðilar, sem deila, geti komið til ríkisvaldsins og sagt: Nú ætla ég að leggja fram lögreglulið til aðstoðar í deilunni, og það kemur mín megin, — þið getið haft lögreglu ykkar megin. Og það veit hæstv. dómsmrh., að það er algerlega brot á allri löggjöf um lögreglu í landinu, sem hér er farið af stað með, að einstakir hópar deiluaðila geti komið með lögregluvald við hliðina á lögreglunni, sem skipuð er af því opinbera. Þetta gerðist í Þýzkalandi, þegar þýzka ríkið var að liðast í sundur.

Ég vildi spyrja formann Dagsbrúnar, hvort það sé rétt, að Dagsbrún hafi þjálfað menn til þess undanfarið að taka þátt í þessari „aðstoð við lögregluna“. Það hefur frétzt frá þessu félagi, að það hafi þjálfað menn til þessa starfs, —- eins og eðlilegt er, að það gerði, eftir fyrirmyndum frá Þýzkalandi. Og ég sé ekki annað en að það hefði verið forsjálni af formanni Dagsbrúnar, ef hann hefði undirbúið þetta lið á þann hátt.

Út af ræðu hæstv. forsrh. vil ég endurtaka það, að það er mjög nauðsynlegt, að maður í hans stöðu átti sig á þeirri hættu, sem hér steðjar að, vegna þess að ég sé ekki, að það sé kannske alveg eðlilegt, að hann bíði eftir því, að það sé komið hér á allsherjarverkfall, eins og nú eru horfur á, og að beðið sé eftir því, að komið sé ástand eins og var 1942, þegar Dagsbrún neitaði að skipa upp vörum og gerði ekki nægilegan greinarmun á því, sem átti að vera framleiðsluverkfall, og hinu, að skera á lífæðar þjóðarinnar. Og því fyrr, sem hæstv. ríkisstjórn athugar sinn gang í þessu efni, því betra. Því að eftir að annar aðilinn í þessari deilu hefur skipað sínar varðsveitir, og eftir að sami aðili hefur komið fram með fullkomnu ofbeldi, eins og 1942, og með svo mikilli óbilgirni, að þetta land fékk mjög alvarlegar áminningar frá því landi, sem lagði til meiri hlutann af okkar flutningaskipastól til að flytja nauðsynjavörur til landsins, þannig að við gátum jafnvel búizt við því, að öll skipin yrðu tekin af okkur, sem við leigðum, vegna þessarar framkomu annars aðilans þá, — þar sem þetta hefur komið fyrir áður, þá álít ég óheppilegt, ef hæstv. ríkisstjórn gerir ekki ráðstafanir til þess, að þjóðin átti sig á, að svo framarlega sem á að draga inn í þessa deilu þá hluti, að t.d. efni til rafmagnsveitu fyrir Reykjavík verði ekki skipað upp hér, nema kaup verði bætt upp um 30%, — þá er það illa farið.