15.12.1944
Sameinað þing: 76. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í D-deild Alþingistíðinda. (5518)

211. mál, rafveitulán fyrir Neskaupstað

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Ég vil reyna að hafa sem fæst orð um mál þetta, ef það gæti flýtt till. til n. til athugunar ásamt öðrum till. um sams konar efni, sem þegar liggja hjá fjvn. Þessi till. er flutt samkv. samþ. bæjarstj. Neskaupstaðar. Hún er flutt vegna þess, að það stendur fyrir dyrum í Neskaupstað að umbreyta og lagfæra mjög rafveitukerfi bæjarins. Rafmagn er framleitt þar með olíumótorsstöð. Er það lítið magn og óhagstæð framleiðsla á allan hátt. Hins vegar hefur þörf bæjarbúa fyrir rafmagn vaxið mjög undanfarin ár, og er nú ekki lengur hægt að víkjast undan því að auka nokkuð rafmagnsframleiðsluna. En til þess að það sé hægt, verður að breyta því rafveitukerfi, sem nú er í bænum. Það hefur verið jafnstraumskerfi, en ekki fæst að leiða um þetta kerfi meiri orku en nú er nema koma upp riðstraumskerfi, eins og er í öllum stærri kaupstöðum. Hins vegar kostar þetta talsvert, og er áætlunin um 750 þúsund kr., gerð af Rafmagnseftirliti ríkisins. Og þegar Neskaupstaður fer fram á ríkisábyrgð fyrir láni, er það gersamlega til samræmis við það, sem gert er fyrir aðra kaupstaði. Ég vil benda á, að þessi till. er að öllu leyti nákvæmlega eins og till., sem lá fyrir þinginu fyrir örfáum dögum, nema mun lægri. Sú till. var flutt af þm. Vestm. Ég vildi mælast til þess, að þessi till. fengi sams konar afgreiðslu og yrði vísað til fjvn.