06.09.1944
Sameinað þing: 39. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (5521)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Bjarni Benediktsson:

Eins og öllum er kunnugt, hefur orðið slys með Ölfusárbrú, og vildi ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ríkisstjórnar, hvaða ráðstafanir hún hefur gert til þess að koma í veg fyrir, að flutningar stöðvist á þessari mikilvægu leið. Það er vitað mál, að t.d. mjólkurflutningur og margs konar annar nauðsynlegur flutningur, í náinni framtíð fjárrekstrar, kjötflutningur og dagleg umferð fer fram þessa leið. Ég vildi spyrjast fyrir um það, hvort hæstv. ríkisstjórn hafi gert ráðstafanir til þess að bæta úr þessu í bili, og hvort ekki mundi vera hægt að vinda að því mjög bráðan bug að koma upp framtíðarbrú, svo að þetta verði ekki til lengdar tilfinnanlegur farartálmi.