04.01.1945
Sameinað þing: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (5541)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Barð., að ekkert er endanlega ákveðið, enda hef ég ekki látið í það skína. Ég tók þetta skýrt fram í minni fyrstu svarræðu. En ég vil aðeins benda honum á það, að ég hef rætt nokkuð ýtarlega við Landssamband útvegsmanna og sjómenn þeirra. Ég mun ekki geta sætt mig við, að fyrst og fremst sé hugsað um hagsmuni kaupaskipanna. Þetta virðist fyrst og fremst samtök kaupaskipa, að þau þyrftu hvergi að bíða, keyptu á föstu verði, t.d. 45 aura verði. Þeir gáfu aldrei upp verðið. Hef ég heyrt því fleygt, en hef ekki rök fyrir því, að þeir hafi jafnvel látið sér detta í hug að lækka verðið frá 45 au. Ég fullyrði þetta því ekki. En mér er kunnugt, að ríkisstj. er sammála um að veita ekki Landssambandi útvegsmanna leyfi til að ráðstafa þessu máli eitt út af fyrir sig á þessum grundvelli, að kaupa fiskinn fyrir fast verð, en taka gróðann sjálfir. Þetta er vitanlega það, sem smáútvegsmenn geta ekki sætt sig við. Þeir vilja fá hærra verð og þurfa þess. Það er stór hætta á, að útgerðin dragist saman. Ef hugsanlegt er, að hraðfrystihúsin gætu ekki borgað 45 aura verð, sem ég vil alls ekki fullyrða, að sé útilokað, þá er þeim mun meiri nauðsyn á, að smáútvegurinn fái sem mest fyrir sinn ísaða fisk. Þessi fiskur hefur verið metinn mest. Og verðið hefur verið gott. Allur slíkur fiskur, sem hefur verið boðinn á hinum enska markaði, hefur selzt á hámarksverði, ef hann var óskemmdur. Þetta höfum við haft fast undir fótum. En að veita Landssambandinu að skipuleggja fiskkaupin, og smáútvegurinn hafi bara visst verð og ekki von um hækkun, þó að stórgróði verði á kaupunum, það er hlutur, sem ríkisstj. getur ekki gengið inn á. Hitt er annað mál, að það er ekki endanlega ráðið, hvað til bragðs verður tekið til að leysa þetta mál. Og það eru ekki hvað sízt vandamál í sambandi við hraðfrystihúsin og að tryggja rekstur þeirra, sem valda erfiðleikum.

Þessi uppástunga fiskimálan. er í raun og veru ekki annað en að n. segir við sjávarútvegsmenn við Faxaflóa: Við hjálpum ykkur til að skipuleggja sjálfir söluna á erlendum markaði á ykkar eigin fiski. Að vísu er tekið fram, að borgaðir séu 45 aurar. Áhættan er dálítil, en við nánari athugun er hún sáralítil. Það er þess vegna eingöngu að ræða um rétt smáútvegsins til að ráða sjálfur yfir veiði sinni. Það hefur aldrei verið uppi í fiskimálan. að þvinga einu eða neinu upp á fiskeigendur. En að n. gerði þessa uppástungu við útgerðina í Faxaflóa, var af því, að svo miklu meiri erfiðleikar eru á að koma þessu saman við Faxaflóa, verstöðvarnar eru margar, en þurfa að starfa saman að fiskútflutningnum, ef vel á að fara. Og Faxaflói er eitthvert allra þýðingarmesta fiskveiðasvæði landsins, en þar liggur allt í skipulagsleysi, til stórhnekkis fyrir þjóðina í heild sinni. En það var aldrei tilgangurinn að taka á nokkurn hátt fram fyrir hendur útvegsmanna við Faxaflóa, enda yrði allt, sem framkvæmt kynni að verða í þessu máli, gert í samráði við smáútveginn sjálfan, bátaeigendur og fiskimenn, sem fiskinn eiga. Og ef þetta ráð yrði upp tekið, sem fiskimálan. hefur stungið upp á við Faxaflóa, vona ég, að það verði aðeins í bili. Síðan taki þeir málið í sínar hendur, skipuleggi sjálfir og sjái um sölu á sínum fiski á erlendum markaði.