04.01.1945
Sameinað þing: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2002 í B-deild Alþingistíðinda. (5542)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Ég vil vekja athygli á því, sem ekki kom fram í ræðu hæstv. atvmrh., en ég lagði sérstaka áherzlu á, að þetta er í raun og veru tilboð í þremur liðum til framleiðenda við Faxaflóa, gert af atvmrh. í nafni fiskimálan. Því er lýst hér yfir, að þetta er gert í nafni ráðh. og þess vegna bindandi tilboð, „vilji útvegsmenn sinna þessu boði.“ Og ég hef sérstaklega leitt athygli að því, að ef þeir taka þessu boði, munu fleiri fara fram á, að þeim sé gert sams konar tilboð. Enda er bersýnilegt, að ráðh. lítur þannig á málið.

En til þess að teygja ekki umr. meir en nauðsyn krefur, hef ég ekki farið inn á ýmis atriði, t.d. hvernig eigi að koma fyrir fisksölumálunum. Hv. þm. Barð. minntist á það og felldi þar sinn dóm, sem ég segi ekkert um. Mér er kunnugt um þær tilraunir til samtaka, sem hann minntist á hjá þessum aðilum, enda byrjun hafin á þeim fyrir talsvert löngu. Mér finnst eðlilegt, að þegar stefna verður mörkuð í þessu máli, verði það gert af þinginu. Það er auðsætt mál, að þarna er um tvær leiðir að ræða. Önnur sú, að ríkið taki að sér meiri og minni verðjöfnun, eða þá að samlögin hvert á sínum stað verði styrkt með aðstoð ríkisvaldsins. En með þessu bréfi virðist mér mörkuð stefna, án þess að þingið hafi haft þar nokkuð um að segja, og jafnvel án þess að ríkisstj. hafi haft nokkuð um að segja, nema viðkomandi ráðh.

Náttúrlega getur verið á takmörkunum, hvort þessi ábyrgð er heimil eða ekki, en inn á það fer ég ekki frekar.