04.01.1945
Sameinað þing: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (5544)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. — Mér þykir ástæða til að segja nokkur orð, einkum í tilefni af ræðu hv. þm. Str. um það örlagaríka spor, sem á að vera stigið með þessari víðtæku ábyrgð, sem fiskimálan. á að hafa heitið fiskimönnum varðandi útflutning á fiski. Mér fannst kenna verulegs misskilnings hjá honum, því að sú ábyrgð, sem hér er hægt að tala um, er verulega takmörkuð. Ég skil varla, ef menn athuga þessa ábyrgð vel, þá þurfi menn að óttast, að hún geti orðið útlátamikil fyrir þann, sem tekur hana að sér. Að því leyti sem hægt er að tala um ábyrgð, þá er hún eingöngu í sambandi við það, að fiskimálan. gengur inn á að greiða samsvarandi fast verð eins og hefur verið fram til þessa, meðan markaðsverð í Englandi helzt eins og það var á síðasta ári, fyrir þann fisk, sem n. kann að flytja út með leiguskipum, sem hún tekur. Fiskimálan. er ljóst, að þetta þýðir ekki, að tekin sé ábyrgð á verði fyrir þann fisk, sem fluttur er undir öðru skipulagsformi, heldur aðeins fyrir þann fisk, sem n. flytur með sínum leiguskipum, sem er 45 aurar fyrir kílógrammið, miðað við þorsk slægðan með haus. Hvernig hefur þessari ábyrgð verið fyrir komið til þessa? Allir, sem hafa keypt fisk að undanförnu, hafa tekið þetta á sínar herðar. Þeir hafa greitt 45 aura út og síðan sætt markaðsverði, haft þessa margumtöluðu ábyrgð og vitanlega allir stórgrætt á þessu, og ef fiskimálan. hefur sæmilegan skipakost til að flytja fiskinn út, þá má telja, að engin áhætta sé því samfara að taka á sig þessa ábyrgð og flytja fiskinn út undir þessu fyrirkomulagi. Hins vegar er það gefið mál, að búast má við, að talsvert verði flutt út af fiski undir öðru fyrirkomulagi, þar sem útgerðarmenn hafa haft ábyrgðina og annað útflutningsfyrirkomulag, þar sem þeir hafa alla tíma greitt út þetta samningsverð, 45 aura, fyrir fiskinn og síðan jafnað fiskimönnunum upp hagnaðinn, sem út hefur komið að lokum. Sem sagt, það, sem fiskimálan. býður, er það sama og það, sem fiskimenn t.d. á Norðfirði hafa gert heima hjá sér, og reynslan er sú, að áhættan er ekki kostnaðarsöm, því að þar hefur verið verulegur hagnaður.

Nú er hugsanlegt, að ýmsir aðrir útgerðarstaðir óski eftir sams konar samningum og hér er um að ræða. Vitanlega mundi þá fiskimálan. hafa með ráðstöfun slíkra skipa að gera, en ekki útgerðarmenn sjálfir, en þar, sem ég þekki bezt til, dreg ég í efa, að útgerðarmenn mundu vilja vinna til að fá þessa tryggingu fyrir verðinu gegn því, að þeir ættu að falla frá sínu útflutningsfyrirkomulagi og afhenda það fiskimálanefnd. Þeir hafa þegar reynt. að áhættan er engin, og ég hygg, að þeir muni treysta sér betur til þess en óviðkomandi aðilum og að þeir fari því alls ekki fram á, að óviðkomandi aðilar taki þar við. Fiskimálan. hefur líka tekið fram, að æskilegast sé, að þeir taki þetta upp sjálfir að öllu leyti án íhlutunar annarra, og hefur n. þá enga ábyrgð í þessu efni. Hins vegar er það, að vegna þess, hvað tíminn er naumur fyrir þá til að skipuleggja sig og þeir hafa ekki þannig samtök, að þeir eigi gott með að taka útflutninginn í sínar hendur, þá virðist ekki óeðlilegt að bjóða þeim upp á þetta, að fiskimálan. aðstoði þá við að koma slíku skipulagi á, en ef þeir treysta sér til að hafa sjálfir þessi mál með höndum, þá stendur þeim það til boða á hverjum tíma.

Hv. þm. Barð. segir, að ekki sé mikil hætta á, að samtök útgerðarmanna vilji líta við þessu tilboði. Þó er það svo, að allir útgerðarmenn við Faxaflóa, sem hafa fengið þetta bréf. hafa svarað játandi. Það er því komið endanlegt svar frá þeim um, að þeir óska eftir, að þetta form verði upp tekið hjá þeim. Það er auðvitað mikill misskilningur, að Landssamband útgerðarmanna, sem ekki svipað því allir útgerðarmenn eru í, sé aðili, sem geti á nokkurn hátt tekið fram fyrir hendurnar á eigendum þessa fisks, ef þeir vilja gera tilraun til að fá meira fyrir fiskinn en þeir hafa getað fengið til þessa. Hitt er rétt, að það hefur komið greinilega fram, að þeir, sem eiga það stór skip, að þeir geta flutt á þeim fisk á erlendan markað, þeir óska eftir að fá fiskinn keyptan föstu verði til að geta notið þess hagnaðar, sem af því er að verzla með hann á frjálsum markaði, en það rekst á hagsmuni fiskframleiðendanna. Ef bátaútvegsmenn við sunnanverðan Faxaflóa ættu að taka á leigu 10–20 skip til að flytja fisk, þá geta þeir ekki sætt sig við, að svo og svo mörg færeysk og íslenzk skip komi og heimti að fá að kaupa fisk í þeirri röð, sem þau komu til hafnar, en útgerðarmenn yrðu að liggja með flota af fiskflutningaskipum, heldur fara þeir fram á að fá að flytja sinn fisk sjálfir, en séu ekki skyldugir til að selja fiskinn föstu verði. Það, sem fyrst og fremst verður að krefjast, er, að útgerðarmenn séu frjálsir að að flytja sjálfir sinn eiginn fisk. Hitt getur komið fyrir, að þeir séu ekki einfærir um það, svo að nauðsyn sé, að hið opinbera aðstoði þá með að afla skipa til útflutningsins.

Ég vil, að það komi skýrt fram, að það tilboð, sem fiskimálan. hefur gert og ábyrgð um lágmarksverð, er eingöngu miðað við þann afla, sem n. kynni að flytja í samráði við fiskeigendurna sjálfa. En hvaða verð átti þá að greiða fyrir fiskinn í upphafi? Átti að greiða 35 eða 45 aura? Treysti n. sér til að greiða 45 aura og skylda þá sjómenn til að skila aftur, ef heildarútkoman sýndi ekki 45 aura? Það taldi fiskimálan. óframkvæmanlegt, en einhvers staðar varð að setja markið. Þá var ákveðið það verð, sem um langt skeið hefur verið hægt að fá fyrir fiskinn, og því var það mark sett, að borga skyldi 45 aura á kíló, sem væri óafturkræf greiðsla. Vitanlega þýðir þetta ekki það, að ríkið ábyrgist öllum mönnum lágmarksverð fyrir alian afla, hvernig sem hann er fluttur út. Hér er aðeins um þann hlutann að ræða, sem fiskimálan. kann að sjá um útflutning á, og enn fremur er það bundið því skilyrði, að verð í Englandi haldist eins og það var s.l. ár.