04.01.1945
Sameinað þing: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2008 í B-deild Alþingistíðinda. (5550)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Það má vel vera, að einhver nauðsyn hafi verið fyrir hv. þm. Str. að spyrja nú þessara spurninga á opnum þingfundi. En þær umr., sem síðan hafa farið fram um málið, hafa að mestu verið óþarfar. Við vitum, að allmikil vandamál eru fram undan. Hv. þm. Str. er kunnugt, að Bretar hafa neitað að kaupa ísaðan fisk föstu verði frá næstliðnum áramótum, og mikil vandkvæði eru á að tryggja fiskflutningana. Við höfum ekki hálfan þann skipakost, sem til þeirra þarf um vertíðina, 2–21/2 mánuð. Til þess þarf 10–12 þús. smál. skiprúm a.m.k., en fiskiskipafloti okkar er ekki nema 5 þús. smál. Hvaða skip við getum fengið í viðbót, vitum við ekki enn.

Verð á ísfiski er ekki fast í Bretlandi, heldur uppboðsverð. Þótt það muni ekki taka breytingum fyrr en í marz, höfum við enga trygging lengur fyrir því, hvað við fáum fyrir ísaðan fisk. Ef stríð helzt, mun verð halda áfram að vera nokkuð hátt. Hv. þm. Str. veit það gegnum fulltrúa Framsfl. í utanrmn., að Bretar hafa ekki viljað semja um að kaupa hraðfrystan fisk sama verði og siðasta ár. Það hefur ekki verið enn á valdi íslenzku stjórnarinnar að senda menn til samninga, því að þeir, sem semja eiga af Breta hálfu, hafa ekki talið sig tilbúna að taka móti samningamönnum. Þetta mun þessum hv. þm. vel kunnugt, þótt hann spyrji, hvers vegna ekki væri enn búið að senda menn til samninganna.

Þegar hv. þm. Str. er kunnugt, að örðugir samningar eru fyrir dyrum, furðar mig á aðferð hans að kasta nú fram þeirri fullyrðingu, að möguleikar séu á því, hvernig sem fer, að verðjafna hraðfrysta fiskinn og ísaða fiskinn. Mér fannst mjög óvarlegt að segja þetta.

Það má vel vera, að rétt hefði verið að gera þetta mál kunnugt nokkru fyrr. En þó mun enginn maður í utanrmn. hafa haft hug á því á þeim 2 fundum, sem ég hef setið þar. Það er ekki gott verk að draga svo viðkvæmt mál inn í pólitíska deilu. (HermJ: Að hverju leyti hefur þetta verið dregið inn í pólitíska deilu?) Ég vil ekki nefna atriðin, en ætlast til, að hv. þm. Str. viti, hvað hann var að segja. Þetta mun verða gert að umræðuefni á lokuðum fundi innan skamms.

Ríkisstj. er að athuga, hvað unnt er að gera í málunum. Hún mun leggja aðaláherzluna á að leysa flutningavandkvæðin og reyna að tryggja, að fiskimenn fái það verð, sem fáanlegt er, og þau kjör, sem bezt verða fengin.