10.01.1945
Neðri deild: 101. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2010 í B-deild Alþingistíðinda. (5552)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Á öndverðum fundi ætlaði ég að beina fyrirspurnum til atvinnumálaráðherra. Hann var þá ekki viðstaddur, en nú sé ég, að forsætisráðherra er viðstaddur, og mun það gilda hið sama.

Þessar fyrirspurnir eru viðvíkjandi fisksölumálunum og þeim yfirlýsingum, sem gefnar hafa verið út þeim viðvíkjandi.

Ég hafði gert ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. mundi gera annaðhvort, að gefa þingmönnum skýrslu um, hvað hefði verið gert í þessum málum, eða flytja þá sérstakt frv. hér að lútandi.

Í auglýsingum er nú sagt, að fiskverð skuli hækka, en sú upphæð, er það hækkar um, skuli lögð í sérstakan verðjöfnunarsjóð til að verðjafna síðan með fisk á hinum ýmsu svæðum. Enn fremur skal Landssamband útvegsmanna ráða. hvar skipin kaupa fisk.

Enn fremur vildi ég spyrja um, hvort þetta verðjöfnunargjald eigi ekki einnig að heimta af þeim fiski, sem togararnir selja úr landi. Sagt er, að verja skuli þessu verðjöfnunargjaldi til að tryggja sama verð á hverju svæði. Nú langar mig til að fá upplýst, hvað hér er átt við með svæði.

Það er og tekið fram, að frystihúsin kaupi fisk við sama verði. En ég vil þá spyrja, hvort ríkisstjórnin veit til þess, að frystihúsin ætli að kaupa, eða hefur hún gert nokkuð til að tryggja það, að þau kaupi fisk?

Það sjá allir, að þegar að því kemur að ákveða afstöðu hraðfrystihúsanna til verðjöfnunarsjóðs, kemur upp sú spurning, hvað mikið hraðfrystihúsin megi taka af andvirði fisksins til sjálfra sín. Verður það mjög viðkvæmt atriði, sem þarf að athugast gaumgæfilega. Þess vegna spyr ég, hvort nokkuð hafi enn sem komið er verið ákveðið um þetta. Þá er það öllum kunnugt, að fyrir skömmu lét ríkisstj. fiskimálan. rita útvegsmönnum við Faxaflóa, og lét n. bjóða þeim upp á að taka þeirra fisk til flutnings með þeim kostum að greiða út 45 aura fast, meðan lágmarksákvæði í Bretlandi væri ekki breytt, og með þeim frekari skilmálum, að ekki væri neitt verðjöfnunargjald. Nú vil ég leyfa mér að spyrjast fyrir um það, hvort ríkisstj. ætli að láta fiskimálan. taka að sér fiskútflutning í landinu yfirleitt og þá með hvaða skilmálum, — hvort eigi að tryggja lágmarksverð, eins og upphaflega var gert ráð fyrir, og hvort verðjöfnunargjald skuli þá innheimt af þeim fiski, sem þannig er fluttur, enn fremur hvort þau nýju ákvæði um það, að kaupverð skuli ekki vera lægra en til er tekið, gildi um fisk, sem fiskimálan. tekur af útvegsmönnum.

Þá vildi ég spyrjast fyrir um það, hvort hæstv. ríkisstj. ætlar sér ekki að hafa nein afskipti af leigumála flutningaskipa, sem kunna að verða leigð til sölusamlaga útvegsmanna, né heldur að gefa samlögum útvegsmanna kost á, að ríkisstj. hafi milligöngu um leigunám, ef þyrfti að útvega slík skip fyrir sanngjarna leigu.

Þá vil ég í síðasta lagi spyrjast fyrir um það, hvernig ríkisstj., sem telur sig hafa vald á öllum þessum málum vegna l. um innflutningsverzlun landsmanna frá 1939, hugsar sér að ráðstafa því skiprúmi, sem Bretar kunna að láta í té í brezkum skipum, hvort og hvernig samtök útvegsmanna eiga að njóta þar af. — Það eru nú komin sex atriði, sem ég hef minnzt á, og öll þýðingarmikil. Vænti ég, að hæstv. ríkisstj. telji engan veginn eftir sér að láta þm. í té upplýsingar um þau, að svo miklu leyti sem teknar hafa verið ákvarðanir um þessi efni.

Að lokum vil ég láta í ljós þá skoðun mína, að það sé alveg nauðsynlegt fyrir ríkisstj. að leggja fyrir Alþ. sérstakt frv. um útflutning á fiski, eins og nú er komið málum. Við höfum l. frá 1939 um útflutning á íslenzkum afurðum. Í þeim l. mun standa, að heimilt sé stj. eða þeim, sem hún gefur umboð til þess, að áskilja, að menn hafi sérstakt útflutningsleyfi fyrir öllum afurðum, og að setja þau skilyrði fyrir þessum leyfum, sem talin eru nauðsynleg. Hér er því talsvert rúm heimild. Eins vegar vil ég benda hæstv. ríkisstj. og öllum á, að það hefur samt aldrei verið tilgangur löggjafans, að hægt væri að framkvæma samkvæmt þessum ákvæðum stórkostlegar fjármálalegar ráðstafanir í landinu sjálfu, svo sem stórfellda verðjöfnun á fiski og þess háttar. Í sambandi við það koma svo mörg viðkvæm vandamál, að mér finnst ekki geta komið til mála annað en að það verði að fjalla um þau í sérstakri löggjöf frá Alþ. Það sjá allir, hvílík gífurleg vandamál munu koma upp, ef nauðsyn rekur til að innheimta jafnvel milljónatugi af sumum útflytjendum í landinu og ráðstafa þeim yfir til annarra, sem mönnum finnst vera miður settir. Enn fremur þegar ætti að gera sér grein fyrir því, hvort þessi verðjöfnun skyldi vera alger eða eftir einstökum svæðum, sem landið skiptist í, þá sjá allir, að hér er svo stórkostlegt mál til meðferðar, að það hefur aldrei verið tilgangur Alþ., að nokkur ríkisstj. eða nokkurt opinbert vald gæti gert slíkar ráðstafanir í skjóli þessara l., sem nú gilda. Ég vænti þess því, að hæstv. ríkisstj. sjái svo um, að gert verði upp á Alþ. nú, hvernig því þyki heppilegast að ráða þessum vandamálum innanlands. Ég get í sjálfu sér skilið, að stj. hafi þótt nauðsynlegt að gera í skyndi bráðabirgðaráðstafanir og styðjast þá kannske nokkuð djarft við l. um útflutning frá 1939. En það er alveg augljóst mál, að þessum verðjöfnunaxmálum og öðrum stórfelldum fjárhagsmálum í sambandi við þau verður ekki ráðið til lykta á réttan hátt með því að setja öll ákvæði um þau sem „klausulu“ við önnur ákvæði um útflutningsleyfi. Vildi ég því gjarnan vita, hvort ekki væri von á frv. um þetta efni.