18.09.1944
Sameinað þing: 44. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2020 í B-deild Alþingistíðinda. (5581)

Landbúnaðarvísitala og kjötverð

atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Ég tel eftir atvikum nauðsynlegt að gera Alþ. grein fyrir, hvernig komið er málum um sölumöguleika og verðlagningu á nýju kindakjöti. Það er almennt í dag byrjuð slátrun á Norðurlandi og Austur- og Vesturlandi. Og það er öllum ljósara en frá þurfi að greina, að það er gott að búa að sínu og borða sem mest af eigin framleiðslu. Það er því mjög óhagstætt, ef ekki er hægt að hefja sölu kjöts um leið og slátrun byrjar.

Ég hef því þann 15. september skrifað kjötverðlagsn. og beint því til hennar, að nauðsynlegt sé að ákveða kjötverð strax. Mér barst rétt í þessu svo hljóðandi bréf frá henni:

„Kjötverðlagsnefndin

Reykjavík, 18. september 1944.

Vér höfum móttekið bréf ráðuneytisins, dags. 15. þ. m., þar sem því er beint til nefndarinnar. að henni beri að verðleggja kindakjötið nú þegar, eins og lög standa til.

Út af því skal það tekið fram, að Kjötverðlagsnefndin hefur sent álit sitt um verð á kindakjöti. Önnur uppástungan byggist á því, að útflutningsverð sláturfjárafurða verði tryggt eins og s.l. ár. Með hinni uppástungunni er gert ráð fyrir, að innanlandsverðið beri uppi þann halla, sem kann að verða á útfluttum sláturfjárafurðum. Nefndin vill taka það fram, að hún telur síðari uppástunguna með öllu ófæra, meðal annars vegna þess, að lagaheimild vantar til slíkrar verðjöfnunar og álítur því, að rétt sé að byggja verðlagið á fyrri uppástungunni, enda sé útflutningurinn tryggður eins og áður.

Meðan slík trygging liggur ekki fyrir, getur nefndin undir engum kringumstæðum tekið á sig ábyrgðina um verðákvörðunina.

Virðingarfyllst

Kjötverðlagsnefndin

Ingólfur Jónsson

Til landbúnaðarráðuneytisins.“

Það. sem vísað er til, eru áætlanir kjötverðlagsn. frá 14. sept., en samkv. því telur hún, að ef ríkissjóður greiðir áfram uppbætur á kjöt, sem selt er á erlendum markaði, þurfi útsöluverð á innlendum markaði að vera í smásölu kr. 11,07 á kg., til þess að bændur geti fengið það verð, sem þeim er reiknað samkv. áliti 6 manna n. Ef slík trygging væri ekki fyrir hendi og engar uppbætur yrðu greiddar á útflutta kjötið, þyrfti útsöluverðið innanlands að vera kr. 18,87 pr. kg.

Eins og hv. þm. hafa heyrt af bréfi n., telur hún sig ekki geta ákveðið verðið, meðan engin ákvörðun er tekin á Alþ. um það, hvort tryggt sé, að bændur fái það verð fyrir útflutt kjöt, sem gert er ráð fyrir í áliti 6 manna nefndarinnar.

Varðandi nauðsyn þess, að sala kjöts geti byrjað strax, er líka þess að gæta, að frystihúsin eru öll minni en þyrfti að vera, og geta orðið vandræði af þeim orsökum, ef neytendum er ekki gefinn kostur á að kaupa kjöt nú þegar. Slíkt gæti leitt til alvarlegra árekstra, sem sé til stöðvunar á slátrun í miðri sláturstíð.

Af þessu tvennu virðist ófært að draga það nokkuð, að verð sé sett á kjötið til neytenda, og með hliðsjón af þáltill., sem samþ. var fyrir nokkrum kvöldum til þess að halda óbreyttu verðlagi til loka þessarar viku, mun ég, ef Alþ. gerir ekki aðrar ákvarðanir í dag, láta boð út ganga um, að dilkakjöt megi selja fyrir kr. 6,50 á kg. eins og hingað til.

Samkv. þeim tölum, sem ég las upp áðan, gætu kr. 6,50 verið röskum 12 kr. lægri en úrskurðað yrði bændum. Þetta vildi ég upplýsa í hv. Alþ.