21.11.1944
Neðri deild: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

183. mál, nýbyggingarráð

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Ég þarf ekki að hafa mörg orð til viðbótar um þetta. Hv. frsm. meiri hl. vill ekki láta samþykkja óþarfa brtt. Okkur greinir á, hvað sé þarft og hvað óþarft í þessu máli. Hann segir, að minni hl. beri ekki fram ákveðnar till. um fyrirkomulag atvinnurekstrarins. Það er rétt. Ég geri það ekki, enda er þetta frv. yfirleitt um rannsóknir og athuganir og að fundið sé það heppilegasta út úr þeim rannsóknum. Hann telur, að viðfangsefnið sé í þál. um mþn. til athugunar á atvinnuháttum eftir styrjöldina. Það er það að nokkru leyti, en ekki svipað því að öllu leyti, t.d. fyrri málsgrein í b-lið brtt. minnar um, hvaða aðrar ráðstafanir þurfi að gera en kaupa ný atvinnutæki, til þess að þjóðin geti í framtíðinni haft viðurværi sitt af atvinnuvegum, reknum á heilbrigðum grundvelli. Það atriði er ekki fram tekið í þessari ályktun um mþn. Þar er heldur ekkert minnzt á ákvæðisvinnu, sem ég tel rannsóknarefni, ekki þýðingarlítið. Hv. þm. segir að vísu, að það sé frjálst öllum landslýð að taka upp þetta fyrirkomulag, ákvæðisvinnuna. Það má á sama hátt segja: þetta allt er algerlega óþarft, því öllum er frjálst að kaupa ný framleiðslutæki, og hvað á ríkið að skipta sér af því?

Ég tel eðlilegt, að ríkið aðstoði félög og einstaklinga með því að láta fara fram rannsókn og ýtarlega athugun á, hvernig heppilegast sé að afla nýrra tækja og ekki síður, hvernig eigi að reka þau.

Nýbyggingarráð mun að sjálfsögðu athuga þetta eða hitt, segir hv. þm. V.-Ísf., þótt ekkert sé um það fram tekið í frv. — En fyrst á annað borð er fram tekið í frv., hvað ráðið eigi að gera, þá tel ég nauðsynlegt, að sú upptalning sé svo yfirgripsmikil, að hún nái yfir það verksvið, sem menn vilja láta n. starfa á. Um þetta er ágreiningurinn fyrst og fremst.

Það, sem hv. þm. sagði um kauplækkunina í sinni síðustu ræðu, hef ég ekki gefið tilefni til, hvorki í minni framsöguræðu né þeim till., sem ég ber fram. Í till. mínum er aðeins farið fram á vandlega athugun á þessu máli í heild.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta, þar sem ég geri ráð fyrir, að öllum þingdeildarmönnum sé ljóst, hvað um er að ræða og hvað á milli ber.