07.12.1944
Efri deild: 84. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

71. mál, Hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Frsm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. — Þetta frv., sem hér liggur fyrir um Hjúkrunarkvennaskóla Íslands, er flutt af fyrrv. hæstv. ríkisstj., en samið af landlækni. Og eins og segir í grg., þá hefur landlæknir samið það í samráði við það fólk, sem helzt hefur forustu í slíkum málum, þar á meðal formann félags íslenzkra hjúkrunarkvenna, forstöðukonu Landsspítalans, sem hefur jafnframt því starfi veitt hjúkrunarkvennaskólanum forstöðu, og enn fremur í samráði við aðstoðarlækna Landsspítalans. Og landlæknir segir í grg. sinni, að á milli sín og þessara aðila sé enginn ágreiningur um efni frv. eins og hann hefur flutt það. Sömuleiðis kveðst landlæknir hafa borið frv. undir yfirlækna Landsspítalans, og þeir hafa heldur ekki neitt við frumvarpið að athuga.

Í grg. frv. talar landlæknir um, sem einnig er alkunnugt mál, að það sé mjög mikill skortur á hjúkrunarkonum í landinu, og það svo, að til vandræða horfir með rekstur ýmissa sjúkrahúsa og annars staðar þar, sem þörf er á lærðum hjúkrunarkonum.

Í grg. frv. birtir landlæknir skýrslu, er sýnir, að af 196 hjúkrunarkonum, sem félagar eru í Félagi íslenzkra hjúkrunarkvenna, séu 93 hjúkrunarkonur, sem sinni ekki hjúkrunarstörfum hér á landi, þannig að það eru aðeins 103 af þessum 196 hjúkrunarkonum, sem eru í Félagi ísl. hjúkrunarkvenna, sem eru starfandi við hjúkrun hér á landi nú.

Enn fremur bendir landlæknir á, að samfara þessari fækkun á lærðum hjúkrunarkonum dragi til muna úr aðsókn að skólanum, sem starfræktur hefur verið. Það virðist þess vegna alveg vera augljóst mál, að það þurfi að gera einhverjar ráðstafanir til þess að fá aukið hjúkrunarlið í landinu. Og tilgangur þessa frv. á fyrst og fremst að vera sá að glæða aðsókn að hjúkrunarkvennaskólanum og efla þannig hjúkrunarkvennastéttina í landinu með því að treysta skipulag skólans og sjá honum fyrir forstöðu, er hafi það að aðalstarfi að sinna skólanum og þörfum hans. En eins og kunnugt er, hefur yfirhjúkrunarkona Landsspítalans haft forstöðu hans sem aukastarf og skólinn verið rekinn beinlínis í sambandi við Landsspítalann.

Viðkomandi skipulagi skólans, eins og gert er ráð fyrir í frv., er það atriði í fyrsta lagi, að þar er gert ráð fyrir forskóla í 8–12 vikur, og er ætlazt til þess, að á því tímabili komi þá í ljós, hvort þeir nemendur, sem þennan forskóla sækja, séu búnir þeim hæfileikum og áhuga fyrir hjúkrunarstarfinu, að ástæða sé fyrir þá að hefja hið reglulega hjúkrunarnám. Að þeim forskóla liðnum, hefst svo sjálfur skólinn, og þar er gert ráð fyrir, að hefjist hjúkrunarnámið. En í byrjun þess tíma skulu fyrstu 6 mánuðirnir verða taldir reynslutími, þannig að í síðasta lagi þegar þeir eru liðnir skal skorið úr því, hvort nemendur séu nægilega vel til námsins fallnir og til þess að halda áfram náminu. En þeir, sem halda áfram, eiga að vera 3 ár að ljúka náminu. Að þeim tíma liðnum er ætlazt til, að nemendur séu fullfærir til þess að taka að sér venjuleg hjúkrunarstörf við sjúkrahús eða aðrar heilbrigðisstofnanir.

Auk þessa er svo gert ráð fyrir því, að skólinn geti veitt sérnám í ýmsum hjúkrunargreinum, svo sem geðveikrahjúkrun, barnahjúkrun, skurðstofuhjúkrun, röntgenstörf, heilsuvernd o.s.frv.

Enn fremur er gert ráð fyrir því, að skólinn geti veitt ljósmæðrum, ef þær óska þess, kennslu í almennum hjúkrunarfræðum, til þess að þeim væri unnt, utan ljósmóðurstarfsins, að sinna almennum hjúkrunarstörfum í héraði sínu. Landlæknir taldi, að slíkt mundi geta orðið hagkvæmt að sameina þetta tvennt til þess að hægt sé að veita ljósmæðrum þau laun, sem þær geti unað við og lifað af. En eins og kunnugt er, hefur oft verið erfitt að fá ljósmæður í ýmis héruð, vegna þess að starfið hefur ekki verið það mikið, að unnt sé að lifa af launum þess.

En um sérnámið í hvaða grein sem er er gert ráð fyrir, að sett verði reglugerð, en ekki höfð sérstök ákvæði um það í frv. önnur heldur en þau, að um slíkt yrði sett ákvæði, hvernig þessu skyldi hagað.

Í frv. er þessi hjúkrunarkvennaskóli kallaður heimavistarskóli. Og það er ætlazt til þess, að hann verði það. En grundvallarskilyrði fyrir því, að svo geti orðið, er, að fyrir skólann verði reist sérstakt hús, þannig að hann geti haft sérstaka kennslu út af fyrir sig. Nú er það húsnæði ekki til enn. En landlæknir sagði í grg. sinni, að sótt hefði verið um það til Alþ. að reisa slíkt hús. En ég get ekki séð, að það hafi verið tekið neitt upp í fjárlagafrv. til þessara framkvæmda, og ég held, að hv. fjvn. hafi ekki tekið það upp heldur í brtt. sínum. En þetta er mál, sem liggur þá til athugunar og — verður bætt úr áður en mjög langt líður, hvort sem þær ráðstafanir verða gerðar á þessu þingi eða ekki. Og í sjálfu frv. felst ekkert annað en að skólinn sjálfur skuli vera heimavistarskóli.

Um stjórn skólans felast þau ákvæði í frv., að undir yfirstjórn ráðherra skuli vera 5 manna skólan., skipuð þannig: landlæknir, sem er formaður n., yfirhjúkrunarkona Landsspítalans og þrír aðrir, er ráðh. skipar, einn samkvæmt ,till. Félags íslenzkra hjúkrunarkvenna, annan samkvæmt till. þeirra sjúkrahúsa, annarra en Landsspítalans, þar sem nemendur skólans eru að jafnaði vistaðir til verklegs náms, og hinn þriðja, er sé sérfróður um skóla- og uppeldismál.

Um kennslukrafta eru þau fyrirmæli í frv., að það skuli vera sérstök skólastýra, sem skipuð sé af ráðh. samkvæmt till. skólan. Auk þess skuli aðalkennarar skólans vera yfirhjúkrunarkona og aðstoðarlæknar Landsspítalans. Og enn fremur er í frv. ákvæði um það, að þetta fólk skuli vera ráðið sérstaklega til þess að kenna og þá launakjör þess miðuð við það. Undanfarið hafa læknar Landsspítalans dregið í efa, að þeim hefði verið falin þau kennslustörf.

Um kostnað við skólann liggur ekki fyrir nein áætlun í grg. fyrir frv. og ekki heldur fyrir nefndinni. Það er gert ráð fyrir því, að nemendur greiði skólagjald fyrir forskólann, þessar 8–12 vikur, sem svo kallast. En í sjálfum skólanum sé kennsla og mér skilst uppihald ókeypis. Hins vegar er gert ráð fyrir, að nemendur, jafnframt því sem þeir stunda námið í hjúkrunarkvennaskólanum, stundi einnig hjúkrunarstörf við Landsspítalann, þannig að kostnaður af uppihaldi við skólann verði í raun og veru ekki svo mikill . umfram það, sem greiða þarf sérstaklega til þess að hafa kennslukraftana.

Enn fremur er talað um það, að fyrir störf í Landsspítalanum sé nemendum greitt kaup, sem ákveðið sé af skólanefnd og félagi hjúkrunarkvenna. Eins og ég sagði, liggur ekki fyrir nein áætlun um það, hvern aukinn kostnað muni leiða af þessari breyt., hún mundi að sjálfsögðu hafa einhvern aukakostnað í för með sér, en ég geri þó ráð fyrir, að hann verði ekki tilfinnanlegur, vegna þess að aðalhjúkrunarstörfin við skólann, annað en forstöðukonustarfið, annast starfsfólk Landsspítalans. Forstöðukonan og læknar Landsspítalans eiga að hafa aðalkennsluna á hendi. Þessi aukakostnaður fer til þess að auka námið og stuðla að því, að hjúkrunarkvennastéttin verði fjölmenn, sem er orðin hin brýnasta nauðsyn. Heilbr.- og félmn. er því sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur nú hér fyrir. Ég skal geta þess, að einn nm., hv. 6. þm. Reykv., var ekki á nefndarfundi, þegar málið var afgr., svo að mér er ekki kunnugt um afstöðu hans, en aðrir nm. mæla með því, að frv. verði samþ. eins og það nú liggur fyrir.