16.01.1945
Sameinað þing: 84. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í D-deild Alþingistíðinda. (5607)

228. mál, hafnargerð í Höfðavatni

Flm. (Sigurður Þórðarson):

Herra forseti. – Ég hef leyft mér að flytja hér þáltill. ásamt þremur öðrum hv. þm. um að fela hæstv. ríkisstj. að láta fram fara rannsókn á hafnargerð í Höfðavatni í Skagafirði.

Um þetta mál þarf ekki að hafa mörg orð að þessu sinni; ég hirði ekki um að fara að endurtaka það, sem stendur í grg. fyrir málinu, — tel þess ekki þurfa og ekki hlýða, en vildi aðeins taka það fram, að þarna í Höfðavatni halda sumir fram, að séu ákaflega miklir framtíðarmöguleikar og tiltölulega ódýrt að gera trygga og ágæta höfn. Hitt er alveg víst, að höfn þarna mundi liggja við einhver allra beztu síldveiðisvæði landsins. — Enn fremur liggur þessi staður mjög vel við fiskveiðum, er nálægt Skagagrunni, sem nú er sótt af bátum frá Ólafsfirði og Eyjafirði og er eitthvert mesta fiskveiðisvæði fyrir Norðurlandi. Ef það reyndist svo, að þarna yrði hægt að gera mannvirki fyrir tiltölulega lítið fé, þá trúi ég ekki öðru en hafizt yrði handa í framtíðinni um hafnargerð á þessum slóðum. Nú eru deildar meiningar um þetta, en flestir verkfræðingar og sjómenn eru mjög hrifnir af hafnargerð í Höfðavatni og telja, að hún geti átt mjög mikinn rétt á sér. Hins vegar eru aðrir, sem hafa engu trú á þessu. Sú rannsókn, sem hér um ræðir, á því að leiða sannleikann í ljós í þessu máli. Ég veit, að það er ævinlega betra að rannsaka málin en slá niður deilur milli manna, sem ekki hafa haft aðstöðu til þess að tala af þekkingu, og mér finnst ekki vera hægt að deila um það, að rannsókn á hafnargerð í Höfðavatni væri mjög æskileg. Þá er um það að ræða, hvort slík rannsókn mundi hafa mikinn kostnað í för með sér. Benedikt Jónasson verkfræðingur, er framkvæmdi mælingar og aðrar athuganir að þessari fyrirhuguðu hafnargerð árið 1918, hefur sagt mér, að það gæti ekki orðið dýrt að gera kostnaðaráætlun um verkið, þar sem svo vel vill til, að á vitamálaskrifstofunni eru til uppdrættir og mælingar af þessum fyrirhuguðu framkvæmdum, sem gerð voru í Kaupmannahöfn eftir mælingum hans árið 1918. Benedikt telur, að þetta þyrfti ekki að vera öðruvísi en að maður af hafnarskrifstofunni yrði sendur norður til þess að athuga, hvort nokkrar breytingar hafi átt sér stað á þessum slóðum síðan 1918, er rannsóknin fór þar fram, og ef grandinn milli sævar og Höfðavatns hefur ekki breytzt, þá er hægt að byggja á þeim mælingum, sem áður hafa verið gerðar. Það sýnist því ekki mundu kosta ríkissjóð mikið, ef úr þessari rannsókn yrði, en hins vegar geta af henni hlotizt miklar framkvæmdir og miklir framtíðarmöguleikar fyrir þær sveitir, sem þarna eiga hlut að máli, og fyrir sýslufélagið í heild.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri; málið sýníst mjög einfalt, og er óskað eftir því, að málinu verði vísað til fjvn. að þessari umr. lokinni og síðan tekið til síðari umr.