24.01.1945
Sameinað þing: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í D-deild Alþingistíðinda. (5629)

245. mál, símamál

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. — Ég hef leyft mér að flytja þessa till., ásamt hv. þm. V.-Sk. og þm. Mýr. Till. er um það, að yfirstjórn símamála verði falið að rannsaka möguleika á því að útvega efni til símalagningar og talstöðva, er nægi til þess að koma öllum sveitabýlum landsins í símasamband á næstu árum. Þá er ætlazt til þess, að gerð verði áætlun um kostnað við þessar framkvæmdir. Það er gert ráð fyrir því í till., að niðurstöðurnar verði að þessu athuguðu lagðar fyrir Alþ. Þegar þessari rannsókn er lokið, þá verður það þingið, sem tekur ákvarðanir um framkvæmdir.

Eins og getið er í grg., lætur nærri, að nú séu símar á 25 af hverjum 100 sveitabýlum landsins. Það er því mikið ógert í þessu efni til þess að koma símamálum sveitanna í viðunandi horf. Alþ. hefur þegar sýnt, að því er ljóst, að það er þörf aðgerða í þessu máli, því að nú fyrir skömmu, í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna, var veitt heimild til þess að verja meira fé en áður til símalagninga.

Það er margt, sem gerir það nauðsynlegt, að allir landsmenn hafi auðveldlega aðgang að síma, og er margt, sem gerir það enn nauðsynlegra nú en áður fyrr. Ég hirði ekki um að nefna margt af því, en eitt er það, sem gerir þetta enn nauðsynlegra en áður var. Það er sú fólksfækkun, sem orðið hefur á sveitaheimilum síðustu árin. Einmitt vegna þeirrar fækkunar er það meiri nauðsyn en áður fyrir sveitaheimilin að hafa síma.

Eins og vikið er að í till. og grg., er gert ráð fyrir að koma öllum sveitaheimilum í talsamband, en til eru sveitaheimili, sem eru svo afskekkt, að of kostnaðarsamt yrði að leggja þangað síma, og er gert ráð fyrir því, að þar verði settar upp svokallaðar talstöðvar. Það hefur verið gert á nokkrum afskekktum stöðum á landinu, og munu vera að því mikil not fyrir þá, sem hafa fengið þessar stöðvar.

Þetta er einfalt mál, sem hér er um að ræða, og auðvelt fyrir menn að átta sig á því. Ég fyrir mitt leyti get því ekki séð, að nauðsynlegt sé að vísa því til n., en mun að sjálfsögðu leggja það á vald hæstv. forseta, hvernig með málið verður farið. En ef hæstv. forseti telur, að till. eigi að fara til n., þá vil ég leggja á það áherzlu, að sú n., sem fær málið til meðferðar, hraði svo afgreiðslu þess, að það geti fengið fullnaðarafgreiðslu áður en þinginu lýkur.