06.02.1945
Sameinað þing: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í D-deild Alþingistíðinda. (5632)

245. mál, símamál

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. — Ég ætla ekki að hafa langa framsöguræðu í þessu máli. Það fylgir nál. bréf frá póst- og símamálastjóra, þar sem hann útskýrir málið frá þeirri hlið, sem veit að starfsemi póst- og símamála. Hann telur mjög nauðsynlegt, að þetta sé gert, en vill víkka heimildina út og láta koma öllum heimilum landsins í símasamband. N. hefur út af fyrir sig ekkert á móti því, og er sjálfsagt að gera það, fyrst hann vill það, því að það er ekki samfara því verulega aukinn kostnaður, að vísu eitthvað meira mannahald, en annað ekki.

Hins vegar vil ég leggja áherzlu á það, að þegar þessi áætlun verði gerð, þá verði hún gerð það greinileg, að hvert svæði í kerfinu komi sjálfstætt fram, og þetta legg ég áherzlu á, af því að ég tel ákaflega misjafna þörf á því að leggja síma inn á heimilin. Það er ákaflega miklu minni þörf að gera það t. d. í einhverju þéttbýlu, litlu þorpi, þar sem eru 10–20 heimili, heldur en í einhverri strjálbýlli sveit, þar sem langt er á milli bæja og menn eiga þess vegna mjög óhægt með að komast í símasamband. Þess vegna legg ég áherzlu á, að þessi sundurliðun sé gerð svo greinileg, að seinna meir, þegar þ. fer að ákveða, hvaða liðir skuli settir í framkvæmd þetta og þetta ár, þá sé greinilega hægt að sjá, hver kostnaðurinn er samkvæmt þessari eða hinni framkvæmdinni, sem þá er ráðizt í, en ekki, að þá verði ein heildar-ágizkunaráætlun, eins og menn kannske gætu búizt við, þegar talað er um að áætla vist á heimili fyrir landið sem heild.

N. leggur til, að till. verði samþykkt þannig breytt sem póst- og símamálastjóri óskar eftir og farið fram á, að hún yrði með því fororði, að sú áætlun, sem gerð verður, sé það sundurliðuð, að það megi af henni sjá kostnaðinn fyrir hvert einstakt svæði, þegar þ. síðar meir veitir fé til framkvæmdanna og ráðizt verður í þær.