06.02.1945
Sameinað þing: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í D-deild Alþingistíðinda. (5641)

268. mál, flutningur hengibrúar frá Selfossi að Iðu

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Það var í umr. um annað mál snemma á þessu þingi bent á það, hvort ekki væri mögulegt að nota brúna á Ölfusá á Hvítá hjá Iðu eða á Hólmsá í Landeyjum, sem eru báðar á Suðurlandsundirlendinu. Hér er aftur á móti lagt til, að brúin verði notuð á Hvítá hjá Iðu, og hef ég ekkert á móti því. Hins vegar er mér ljóst, að brú þarf að koma á hina ána og þar er hægt að komast af með brú, sem hefur minna burðarmagn, og þar að auki er brúarstæðið þar töluvert styttra en hjá Iðu, og að órannsökuðu máli gæti maður búizt við því, að heppilegra væri að setja brúna á Hólmsá. Enn gæti ég búizt við því, að allra bezt passaði gamla Ölfusárbrúin á Tungufljót hjá Króki, og þar er umferð svo lítil, að sterka brú þarf ekki. Mér finnst því, að fjvn. hefði átt að láta rannsaka þessa staði alla. Ég ætla ekki að gera sérstaka till. um það, en ætlast til þess, að vegamálastjórnin hugsi um að láta rannsaka bæði brúarstæði á Hólmsá og Tungufljóti og á Hvítá hjá Iðu. Mér finnst þurfa að rannsaka alla þessa möguleika og það eigi að gerast, sem heppilegast er fyrir heildina, hvað sem þessari till. líður. Þessar brýr liggja allar skammt frá Ölfusá, og er því auðgert að flytja brúna á hvern staðinn, sem er, og ætti það þá eingöngu að ráða, á hvern staðinn heppilegra og hyggilegra er að setja brúna, ef það reynist gerlegt að nota hana á einhvern þeirra.