15.09.1944
Neðri deild: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

143. mál, fjárlög 1945

Eysteinn Jónsson:

Það er fyrirspurn til hæstv. fjmrh. Ég hef nú búizt við því á hverjum degi undanfarið, að lagt yrði fram fjárlfrv. Það var að vísu á fyrri hluta þings lagt fram málamyndafrv., til að uppfylla ákvæði þingskapa, eins og allir vissu, og ráð var þá fyrir gert, að frv. til fjárl. yrði lagt fyrir, þegar þing kæmi saman í haust. En þetta nýja frv. er ekki komið enn, mér til mikillar undrunar, og vil ég láta í ljós óánægju yfir því. Því að nú er þingið búið að sitja hér hálfan mánuð og fjvn. hefur setið aðgerðarlaus. Veit ég ekki, hvort hér kann að blandast inn í óvissan um, hvort ríkisstj. situr áfram. En það er þá ófyrirsynju, því að það kemur þessu máli ekkert við. Fjárlfrv. á að liggja fyrir, hvað sem slíku líður, og vil ég spyrja fjmrh., hvort ekki sé von á, að fjárlfrv. komi nú allra næstu daga. Það er augljóst, að fjárhagsástæður allar eru gleggri fyrir mönnum eftir að fjárlfrv. hefur verið fram lagt með grg. af hálfu ráðherra.