12.02.1945
Sameinað þing: 93. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í D-deild Alþingistíðinda. (5683)

249. mál, raforkuveita til Dalvíkur

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Ég vil aðeins að gefnu tilefni vekja athygli á því, sem reyndar má vera ljóst, að þessi till. til þál. leysir ekki það mál, sem hér er um að ræða, nema að hálfu leyti. Í till. felst aðeins heimild fyrir ríkisstjórnina til kaupa á efninu, en síðar er ekki í henni að finna neina aðra heimild til þess að nota efnið eða vinna úr því eða reka þá veitu, sem væntanlega á þarna að byggja. Á sínum tíma var samþ. sams konar heimild og þetta fyrir Keflavík. En þá varð á eftir að leita heimildar til þess að leggja línu þangað og til þess að reka þá rafveitu, sem vitaskuld fékkst. Nú hefur sú heimild verið sett í frumvarpsform og er borin fram í hv. Ed. En ég teldi, að ef þetta mál og annað svipað fyrir Árnessýslu á að koma til framkvæmda í nánustu framtíð, þá þyrfti að tryggja, að með þessari till. fylgdu l., sem tryggðu, að framkvæmdir þessar yrðu unnar, og það þarf að gera til þess að efnið geti notazt.

Ég vil aðeins minna á þetta, að þetta þarf að fylgja með, til þess að samþykkt þessarar till. komi að notum.