30.01.1945
Sameinað þing: 89. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í D-deild Alþingistíðinda. (5697)

271. mál, endurskoðun og samþykkt ríkisreikninganna

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. — Ég hef leyft mér að bera hér fram, ásamt hv. þm. N.-Ísf., till. til þál. um endurskoðun og samþykkt ríkisreikninganna.

Við flytjum þessa till. í tilefni þess, að nú lá fyrir þinginu til samþykktar ríkisreikningurinn frá 1941. Mörgum hefur fundizt ríkisreikningurinn koma of seint. Þegar svo langur tími er liðinn og nú er um reikninginn frá 1941, er varla um annað að gera fyrir þm. en samþykkja hann. Það er ekki hægt að láta vanþóknun sína og aðfinnslur, ef um þær er að ræða, koma niður á réttum aðilum eftir svo langan tíma.

Ég sé ástæðu til þess, vegna þess að hér er tekið fram í grg., sem fylgir þáltill., að þessi dráttur muni aðallega vera ríkisbókhaldinu að kenna, að lesa hér upp bréf, sem mér hefur borizt frá aðalbókara ríkisins. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Í grg. fyrir till. til þál., sem fram er komin á Alþ. um endurskoðun og samþykkt ríkisreikningsins, er gefið í skyn, að ríkisbókhaldið eigi sök á því, hve ríkisreikningarnir koma seint til samþykktar á Alþ.

Í tilefni af þessu óska að taka þetta fram.:

Uppgjöri ríkisreikningsins er venjulega lokið síðla sumars, fyrir næsta ár á undan, og er hann þá tilbúinn til prentunar. Yfirskoðunarmenn reikningsins byrja sjaldan á endurskoðun fyrr en hann hefur verið prentaður, enda er slíkt hagkvæmara að öllu leyti. Ríkisprentsmiðjan hefur hins vegar talið sig eiga erfitt með að prenta reikninginn á sama tíma og Alþingi er háð, sakir anna í þágu þingsin9. Hefur því oft staðið lengi á prentun eftir að reikningurinn hefur verið tilbúinn, einkum eftir að haustþing urðu svo tíð sem undanfarið.

Ríkisreikningurinn fyrir árið 1942 var tilbúinn til prentunar haustið 1943, en fullprentaður var hann (án aths.) í marz 1944 og hefur legið með öllum fylgiskjölum hjá yfirskoðunarmönnum síðan. Reikningurinn fyrir árið 1943 var tilbúinn til prentunar í okt. s. l., en prentsmiðjan hefur ekki enn þá séð sér fært að byrja á honum.

Með þessu vildi ég láta flm. fyrrnefndrar þáltill. vita, að ríkisbókhaldið á ekki sök á því, hve ríkisreikningurinn kemur seint fram á Alþingi.“

Ég sé ástæðu til þess að lesa þetta bréf upp hér, svo að hv. alþm. fái hugmynd um það, hvernig á því stendur, að svo mikill dráttur er á því, að ríkisreikningurinn er lagður fram á Alþ., sem raun ber vitni. Áður en þessi þáltill. var flutt, höfðum við flm. ekki kynnt okkur ástæðuna til þess. Okkur fannst það vera aðalatriðið að vekja athygli á því, að þetta ástand er óviðunandi, og fá hæstv. ríkisstj. til þess að ráða bót á því með einhverjum ráðum. Nú er það ljóst, eftir því sem fram kemur í bréfi ríkisbókara, að það er ríkisprentsmiðjan Gutenberg, sem sakir anna hefur ekki getað komizt að því að prenta ríkisreikninginn fyrr en oft eftir langan tíma, og endurskoðendur ríkisreikninganna, sem um er að kenna. En þeir hafa vitanlega sínar afsakanir á reiðum höndum, t. d að þeir séu svo önnum kafnir, og þá sérstaklega vegna þess, hve þingin eru orðin löng, þar sem tveir af endurskoðendunum eru þm.

Ég ætla ekki að ræða meir að þessu sinni þessa þáltill., mér finnst ekki þörf á því. Það, sem þáltill. fer fram á, er aðeins að skora á ríkisstj. að sjá um, að úr þessu verði bætt. Og það er ætlazt til þess, að hann sé prentaður næsta ár eftir að hann hefur verið samþ, á Alþingi. Þá er hægt fyrir hv. þm. að fylgjast betur með og gera athugasemdir sínar heldur en þegar líða 3–4 ár á milli. Ég tel, að með því að samþ. þessa þáltill., þá fái ríkisstj. viðeigandi áminningu frá Alþ. um það að taka þetta til greina og ráða bót á þessu.