07.02.1945
Sameinað þing: 92. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í D-deild Alþingistíðinda. (5706)

271. mál, endurskoðun og samþykkt ríkisreikninganna

Jörundur Brynjólfsson:

Ég ætla aðeins að segja örfá orð. Mér skilst á ummælum þessara tveggja hv. þm., sem talað hafa, að eiginlega sé ekki frekar meiningin, að samþykkt reikninganna fari fram árið eftir, eins og gefið er til kynna í till., heldur megi draga það þar til árið þar eftir ellegar það sé þá ótiltekið, hvenær á að samþ. þá. Það, sem fyrir þeim vakir, er, að yfirskoðun sé lokið árið eftir og reikningurinn sé þá tilbúinn til umr. og athugunar. En umr. fyrir hverja? Ég hélt það væri aðalatriðið og tilgangurinn að fá reikninginn sem fyrst tilbúinn til afgreiðslu fyrir þingið. Ég held það verði ekki svo auðvelt að koma þessu í kring.

Hv. 2. þm. Rang. fannst það ekki rétt tilhögun, að yfirskoðun færi fram eftir að reikningurinn hefði verið prentaður, heldur ætti hún að fara fram áður. Mér skilst, ef þetta á að ganga rökrétt fyrir sig, þá þyrfti yfirskoðunin helzt að fara fram samtímis og uppgjör reikninganna eða jafnvel áður. Þar kæmu yfirskoðunarmenn þá með sínar athugasemdir. Ef eitthvað er ekki rétt við reikninginn, þá kemur það hvergi fram, og reikningurinn kæmi þá réttur fyrir Alþ. Ég held hv. þm. rugli saman hinni umboðslegu endurskoðun og yfirskoðun reikningsins. En það er vitanlega alveg sitt hvað. Að sjálfsögðu verða yfirskoðunarmenn í höfuðatriðum að kynna sér, hvort reikningurinn er tölulega réttur, en það er annað en hin umboðslega endurskoðun. Ef yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna, sem eru kjörnir af Alþ., ættu að kynna sér reikninginn alveg frá rótum og allt, sem að reikningnum lýtur, þá entist þeim ekki árið til þeirrar vinnu, þótt þeir væru alltaf við. Þess vegna hafa yfirskoðunarmenn aðallega byggt á umboðslegri endurskoðun. Þeir komast ekki yfir meira en að kynna sér þá höfuðdrætti, sem að reikningnum liggja og lýtur að því tölulega. Það væri auðvitað hægt að haga þessu öðruvísi. En ég er ekki viss um, að Alþ. kærði sig um, að endurskoðun yfirskoðunarmanna hætti að vera fyrst og fremst umboðsleg endurskoðun. Hún felst einmitt í því, að yfirskoðunarmenn athuga, hvernig meðferð fjármuna hefur verið. Þess vegna er það í alla staði rétt, að þeir taki ekki reikningana til fullnaðarafgreiðslu, fyrr en þeir liggja fyrir prentaðir, og gera sínar athugasemdir, ekki tölulegar, heldur einkum krítiskar, eins og Alþ. ætlast fyrst og fremst til. Þetta, sem hv. 2. þm. Rang. sagði viðkomandi þessari hlið málsins, býst ég við, að sé fyrst og fremst mælt af ókunnugleika, og þessi hlið málsins stendur alls ekki í vegi fyrir, að yfirskoðuninni sé flýtt. Hv. þm. Barð. sagði, að ekki væri ætlazt til þess, að yfirskoðunarmenn stunduðu prófarkalestur. Það er nú svo, en þeir hafa þó gert það. Hafi tölurnar ekki verið réttar, sem á reikninginn hafa verið færðar, þá athuga beir, hvort um prentvillu sé að ræða eða skekkju í frumritinu. Um þetta ætti svo ekki að þurfa að fjölyrða frekar. Mér skilst, eftir þeirri meiningu, sem flm. sjálfir leggja í till., þá sé það ekki ætlunin að taka hana alveg bókstaflega og því ekki slegið föstu, að reikningurinn skuli fá fullnaðarafgreiðslu Alþ. næsta ár á eftir. Þess vegna ætla ég, að auðvelt muni vera að fullnægja því, sem till. fer fram á.