04.10.1944
Sameinað þing: 51. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

143. mál, fjárlög 1945

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Undanfarin tvö ár hafa umr. um fjárlfrv. farið fram með nokkuð öðrum hætti en venja hefur verið. Hefur hinni árlegu grg. um rekstur og fjárhagshorfur ríkisins verið skipt í tvennt með því að gera grein fyrir afkomu síðasta árs á vetrarþingi, en leggja fram fjárl. fyrir haustþing með þeirri grg., sem þeim verður að fylgja. Hefur þetta orsakazt af ástæðum, sem öllum eru ljósar.

Hinn 3. marz í vetur gerði ég grein fyrir afkomu ríkissjóðs á árinu 1943, og mun ég því ekki víkja að því efni nú. Ég mun hins vegar ræða um fjárlfrv. fyrir 1945, sem nú liggur fyrir, og í því sambandi drepa á ýmis atriði í afkomu yfirstandandi árs.

Aðeins þrír mánuðir eru nú eftir af því ári, sem nú er að líða. Flestir búast nú við, að áður en það er á enda, muni styrjöldinni lokið í Norðurálfu og miklar breytingar hefjast í verðlagi og viðskiptum. Vegna útlits um skjót úrslit styrjaldarinnar eru margar þjóðir þegar farnar að hef ja undirbúning friðsamlegra starfa. Engum getur dulizt, að straumbreyting er þegar byrjuð hér á landi; þótt þess gæti ekki mikið enn þá vegna hins mikla fjár, sem enn er í umferð og stafar af hinum miklu fjárráðum almennings í landinu. Tekjur þjóðarinnar af ófriðarástandinu hér innan lands eru óðum að fjara út, og áhrif styrjaldarinnar til bættrar afkomu fyrir atvinnuvegina eru þverrandi og geta horfið, fyrr en varir.

Fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, er talandi vottur um þá breyt., sem er að gerast og í vændum er. Það er í rauninni fyrsta aðvörunarmerkið um það, að aldan hafi risið til fulls og sé nú byrjuð að hníga aftur. Þessi merki koma fram í því, að aðaltekjurnar rýrna jafnhliða því, sem gjöldin yfirleitt halda áfram að vaxa. Tveir stærstu tekjuliðirnir, skattar og tollar, eru eins og loftvog, sem fer eftir veðrabrigðum atvinnulífsins í landinu. Þeir sýna betur en flest annað hið raunverulega árferði og í hvaða átt hin alinenna afkoma stefnir.

Ég skal nú gera grein fyrir tekjubálki frumvarpsins.

Tekju- og eignarskattur er áætlaður 21 millj. kr. og hluti ríkissjóðs af stríðsgróðaskatti 4 millj. kr. eða skattar samtals 25 millj. kr. Samkvæmt upplýsingum, sem nú liggja fyrir, nemur álagður tekju- og eignarskattur á þessu ári 24.254.781 kr. og stríðsgróðaskattur samtals 9.520.042 kr. eða hluti ríkissjóðs 4.760.021 kr. Samtals er þá talið, að tekjur ríkissjóðs af þessum sköttum nemi 29.014.802 kr. En samkvæmt venju lækka skattarnir nokkuð í meðferð æðri skattanefnda, og má væntanlega áætla, að tekjur af þessum sköttum á árinu nemi um 28 millj. kr. móti áætluðum þessum tekjum næsta ár 25 millj. kr.

Ég hef gert ráð fyrir því, að afkoma landsmanna á þessu ári yrði ekki öllu lakari en hún var 1943, og þess vegna hættulaust að áætla, að álagning þessara skatta nemi 1945 líkt og er á þessu ári. En það væri óverjandi að gera ráð fyrir, að öll sú fjárhæð fáist greidd á næsta ári, sem álagningin nemur, og er til þess mjög veigamikil ástæða. , Ef ófriðurinn hættir bráðlega, og verðbólgan minnkar mjög verulega á næsta ári, er sýnilegt, að allir skattþegnar í landinu munu fá laun sín greidd með miklu færri krónum en nú er. Á sama hátt mundi hagnaður fyrirtækja rýrna að krónutölu. Hins vegar væru skattar álagðir í samræmi við hina háu krónutölu tekna á þessu ári. Þegar svo stendur á, er hætt við, að margir, sem lítið eða ekkert hafa lagt fyrir af tekjum sínum á þessu ári, muni eiga erfitt með að standa í skilum með skattgreiðslur, og því mætti búast við talsverðum vanhöldum, þegar laun verða aftur greidd með færri krónum vegna minnkandi verðbólgu.

Stríðsgróðaskattur var áætlaður á þessu ári samtals 12 millj. kr., en verður, eins og áður er sagt, rúmar 9 millj. kr. eða um 3 millj. lægri en áætlað var. Af skattinum kemur helmingur í hlut ríkissjóðs. Síðustu árin hefur stríðsgróðaskatturinn numið svo sem hér segir:

1941 2.887 þús. kr.

1942 12.772 — —

1943 13.504 — —

1944 9.520 — — (álagt)

Af þessu sést, að stríðsgróðatekjur hafa náð hámarki á árinu 1942. (Skatturinn er lagður á ári eftir, að teknanna er aflað.)

Stærsti tekjuliðurinn er nú eins og undanfarið beinu tollarnir.

Vörmagnstollurinn er áætlaður eins og í fjárl. yfirstandandi árs 8 millj. kr. Fyrstu sex mánuði þessa árs hefur tollurinn reynzt 5.266 þús. kr., og mætti því búast við, með sama framhaldi, að hann næmi á þessu ári um 10 millj. kr.

Verðtollurinn er í gildandi fjárl. áætlaður 30 millj. kr. Hann hefur orðið fyrstu sex mánuði ársins 15.579 þús. kr., og mætti því búast við, að hann gæti numið fyrir allt árið um 30–31 millj. kr., ef engin stórbreyt. verður á innflutningnum. Fyrri hluta ársins leit út fyrir, að verðtollstekjur mundu reynast talsvert lægri en áætlað hafði verið, og margt benti til þess, að innflutningurinn mundi dragast saman. En með ýmsum ráðstöfunum um útvegun vara, sem erfiðleikar hafa verið að kaupa, hefur tekizt að halda innflutningnum í horfinu. Má þakka þetta góðu starfi viðskiptaráðs, íslenzkra embættismanna í Bandaríkjunum og dugnaði innflytjenda. Þótt þetta hafi farið betur en á horfðist á þessu ári, hef ég ekki talið verjandi að áætla tekjur af verðtolli næsta ár hærri en 25 millj. kr.

Innflutningur stríðsáranna hefur verið sem hér segir:

Innflutningur. Verðtollur.

1940 74.210 þús. kr. 6.422 þús. kr.

1941 131.129 — — 16.699 — —

1942 247.747 — — 39.384 — —

1943 251.301 — — 33.933 — —

1944 (áætlað) 230.000 — — 31.000 — —

Af þessu má sjá, að hámarki innflutningsins var raunverulega náð 1942. Hækkunin á innflutningi 1943 stafar eingöngu af hækkuðum flutningsgjöldum, en ekki auknu vörumagni. Flutningsgjöldin voru lækkuð í byrjun þessa árs, eins og kunnugt er. Verðtollur var ekki innheimtur af hinum hækkuðu farmgjöldum á árinu 1943. Þegar stríðinu er lokið, hlýtur verðmæti innflutningsins enn að minnka. Þótt búast megi við, að talsverð viðskipti hefjist við ýmis lönd, strax og leiðir opnast, og margt þurfi að kaupa, sem nú skortir, verður að gera ráð fyrir, að farmgjöld lækki mikið og einnig verð á ýmsum vörum. Slíkt mundi hafa mikil áhrif á umræddan tekjustofn, verðtollinn, og mæla því engin skynsamleg rök með því að áætla þessar tekjur eins og útlit er fyrir, að þær reynist á þessu ári.

Munurinn á áætlun frv. og núgildandi fjárl. um beina skatta og tolla er sá, að frv. áætlar tekjurnar af sköttum 1 millj. kr. lægri og af tollum 4.900.000 kr. lægri. Alls er þá um lækkun að ræða á þessum tekjum, er nemur 5.900 þús. kr. Til þess að varast misskilning skal ég geta þess, að í gildandi fjárl. er allur stríðsgróðaskattur talinn með tekjum, einnig sá, er gengur til bæjar- og sveitarfélaga. En í frv. er aðeins tilfærður hluti ríkissjóðs. Framangreindar tölur eru að sjálfsögðu tekjur ríkissjóðs eingöngu.

Breyt. á öðrum tekjuliðum í 2. gr. frv. eru mjög litlar, og samtals er áætlunin mjög svipuð því, sem er í gildandi fjárl. Er áætlunin gerð í samræmi við þá reynslu, sem fengizt hefur af innheimtu þessara tekjuliða á líðandi ári.

Tekjur af ríkisstofnunum eru áætlaðar á næsta ári 20.668.076 kr., og er það 4.101.002 kr. hærra en á þessu ári. Hækkunin stafar af því, að tekjur:af áfengisverzluninni og tóbakseinkasölunni hafa á þessu ári orðið hærri en gert var ráð fyrir vegna þeirrar verðhækkunar á víni og tóbaki, sem ríkisstj. ákvað síðastl. haust. Gera má ráð fyrir, ef framleiðsla þjóðarinnar helzt í horfinu, að þessar tekjur haldist að verulegu leyti fram eftir næsta ári.

Hagnaður af áfengisverzluninni er áætlaður 13 millj. 346 þús. kr. Það er að vísu talsvert lægra en útlit er fyrir, að hagnaðurinn nemi á þessu ári, því að eins og nú horfir, má búast við, að hann verði yfir 20 millj. kr. Þessi mikli hagnaður byggist á geipilega háu verði á flestum víntegundum og miklum peningaráðum almennings. En þess er að gæta, að þessi tekjustofn verður að teljast mjög ótryggur í þeim mæli, sem nú er. Um leið og peningaflóðið fjárar út að verulegu leyti, verður ekki hægt að selja vínin með því verði, sem nú er, og tekjustofninn hrynur. Líklegt er, að á síðari hluta næsta árs verði miklar breyt. til lækkunar á tekjum áfengisverzlunarinnar frá því, sem nú er. Þessi tekjustofn hefur gert kleift að halda uppi þetta ár fjárframlögum úr ríkissjóði til lækkunar á verðlagi innan lands. Hinar miklu tekjur á þessum lið eru eitt af fyrirbrigðum ófriðarástandsins. Þótt þessar tekjur hafi komið í góðar þarfir, eins og á stendur, er nauðsynlegt að gera sér ljóst, að það er hvorki æskilegt né heilladrjúgt til lengdar að láta áfengissölu ríkisins vera aðaluppistöðuna í fjáröflun til opinberra þarfa.

Rekstrarhagnaður tóbakseinkasölunnar er áætlaður 885 þús. kr. hærri en í gildandi fjárl. eða samtals 6.585.901 kr., og er ástæða til að ætla, eftir afkomu þessa árs að dæma, að sú áætlun fái staðizt.

Hagnaður af rekstri landssímans er áætlaður 616.900 kr., og er það lítið eitt hærra en í gildandi fjárl. Tap á rekstri póstsins er 346 þús. kr., og er það svipað því, sem áður hefur tíðkazt. Gert er ráð fyrir eignaaukningu landssímans, er nemi 1700 þús. kr. Framlag ríkissjóðs til pósts og síma verður því samkv. frv. um hálf önnur millj, kr. á næsta ári.

Aðrar ríkisstofnanir, svo sem útvarpið og ríkisprentsmiðjan, hafa að vísu nokkurn tekjuafgang, en hann rennur allur til viðhalds og endurbyggingar þessara stofnana.

Heildarrekstrartekjur ríkissjóðs næsta ár eru áætlaðar 86.810 þús. kr. Til samanburðar má geta þess, að í fjárl. þessa árs eru tekjurnar 88.306 þús. kr., þegar frá er dreginn hluti sveitarfélaga af stríðsgróðaskatti. Tekjur þessa árs fara væntanlega mikið fram úr áætlun. En þess er engin von, að svo verði um tekjur næsta árs, þótt allt gangi skaplega.

Gjöldin eru áætluð samtals 88.868.996 kr., og eru þá meðtalin gjöld á sjóðsyfirliti. Heildarútgjöld gildandi fjárl. eru 95.950.548 kr., en aðgætandi er, að í þeim er talinn til gjalda hluti sveitarfélaga af stríðsgróðaskatti, 6 millj. kr. Sambærileg tala væri því 89.950.548 kr. En þótt heildarútgjaldatalan sé lítið eitt lægri í frv., orsakast það ekki af því, að rekstrarkostnaður ríkisins hafi lækkað. Þvert á móti, — hann hefur hækkað mjög verulega, og það er eitt af þeim hættumerkjum, sem gefa verður gaum nú, þegar útfallið fer að hefjast í tekjum ríkissjóðs. Það er eins um ríkissjóðinn og einstaklinginn: Hann má helzt ekki eyða meira en hann aflar, ef vel á að fara, og því eru takmörk sett, hversu lengi hann getur haldið uppi hallarekstri. En slíkur rekstur er að líkindum skammt fram undan, og má búast við, að hann standi, meðan atvinnulíf landsmanna leitar jafnvægis eftir styrjaldarástandið, nema betur takist um samræmingu framleiðslukostnaðar og afurðaverðs en nú horfir.

Á 16. gr. gildandi fjárlaga eru ætlaðar 10 millj. kr. til verðbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir. Þessi liður er felldur burt úr frv., fyrst og fremst vegna þess, að áætlun tekna leyfði ekki, að slík fjárhæð væri tekin með, og enn fremur vegna þess, að það verður að teljast hlutverk Alþingis að ákveða um slík útgjöld. Ef þessi fjárhæð er dregin frá fjárl. og síðan gerður samanburður á þeim og frv., kemur í ljós, að heildarhækkun á útgjöldunum nemur um 9 millj. kr. Hækkun er í því nær öllum greinum, og þrátt fyrir mjög nákvæma athugun fjmrn. á hinum hækkuðu liðum, hefur ekki reynzt unnt að standa á móti þeim hækkunaráætlunum, sem gerðar hafa verið, nema að litlu leyti, ef forðast ætti að blekkja sjálfan sig. Þótt illt sé að þurfa að láta gjöldin hækka, eru það þó lítil hyggindi að setja þau lægra en líklegt er, að þau verði. Slíkt hefnir sín síðar, og er jafnan skammgóður vermir að þess konar sjálfsblekking.

Ég skal þá gera grein fyrir þeirri útgjaldaaukningu, er máli skiptir.

Alþingiskostnaður hækkar um 660 þús. kr. Er farið eftir till. frá skrifstofu Alþingis, sem telur rétt að áætla þingkostnaðinn eins og í frv. greinir, með tilliti til þess, hvernig háttað hefur verið þingsetu undanfarið.

Fjárframlög til ríkisstj. (10 gr.) hækkar um 400 þús. kr. Af því er hækkun á ýmsum kostnaði ráðuneytanna 85 þús. kr., sem áætlaður er samkv. reynslu ársins 1943, og auknar kaupgreiðslur ráðuneytanna, er nema 107 þús. kr., og er um helmingur þess vegna aukningar á starfsliði endurskoðunardeildar fjmrn., sem skorti mjög starfskrafta, og endurskoðunin þess vegna mjög seinvirk. Þessu er nú verið að kippa í lag. Kostnaður við utanríkisþjónustu hefur hækkað um 173 þús. kr., og stafar það aðallega af stofnun sendiráðs í Moskvu á þessu ári.

Dómgæzla og lögreglustjórn (11. gr.) hækkar um 1.7 millj. kr.

Kostnaður við landhelgisgæzlu er áætlaður 750 þús. kr. hærri, vegna þess að reynsla þessa árs sýnir, að þessi . kostnaður hefur verið allt of lágt áætlaður í fjárl. Um það verður ekki sagt, hvort 2 millj. kr. fjárveiting nægir. Það verður að sjálfsögðu mikið undir því komið, hvernig hagað verður rekstri landhelgisgæzlunnar. — Nokkur hækkun hefur orðið hjá þeim embættum, sem fara með dómgæzlu og lögreglustjórn. Lögmannsembættinu hefur verið skipt í tvö ný embætti, og hefur það að sjálfsögðu nokkurn kostnað í för með sér. Af þessum embættum er kostnaður orðinn mestur við sakadómaraembættið, og hækkar hann nú um 60 þús. kr. Kostnaður við lögreglu hækkar um 180 þús. kr. Kostnaður vegna innheimtu tolla hækkar um 366 þús. kr. Útgjöld vegna skattanefnda og skattstofu Reykjavíkur vaxa um 150 þús. kr. Á þessu ári voru stofnuð þrjú skattstjóraembætti, og laun skattanefnda voru hækkuð nokkuð, enda voru þau talin lítt viðunandi vegna ört vaxandi dýrtíðar. Öll þessi útgjöld eru af greindum embættum og stofnunum talin óumflýjanleg. Erfitt er að bera brigður á slíkt án rannsóknar á öllum rekstri þeirra. En tími virðist nú kominn til að gera heildarathugun á embættum og stofnunum ríkisins, og kem ég að því síðar.

Rekstur sjúkrahúsa er enn hækkandi. Á þessu ári er ætlað til ríkisspítala samtals 2.138.203 kr. Þessi liður er því áætlaður 210 þús. kr. hærri en á þessu ári. Hækkun er aðallega á rekstri geðveikrahælisins og heilsuhælanna tveggja, Vífilsstaða og Kristneshælis. Kostnaðurinn er áætlaður eins og hann hefur reynzt undanfarið. Reikningshald og yfirlit um reksturinn sýnist vera í bezta lagi, en að sjálfsögðu er það að mestu undir forstöðumönnum stofnananna komið, hversu hagkvæmur reksturinn er. Venjuleg endurskoðun getur lítilli gagnrýni beitt í því efni.

Styrkur til að reisa læknisbústaði og sjúkraskýli hefur verið hækkaður um hálfa millj. kr., upp í 750 þús. Þörfin er mikil í þessu efni víða um land, og því miður er ekki hægt að bæta úr henni eins og skyldi. Til viðbótarhúsnæðis við ríkisspítalana er ætluð ein millj. kr. á 22. gr., og er það 200 þúsund kr. hærra en í gildandi fjárlögum.

Samgöngumálin (13. gr.) eru að líkindum viðkvæmasti kafli fjárl. Þennan kafla nefna margir öðru nafni verklegar framkvæmdir, og hygg ég, að sjaldan sé svo lagt fram fjárlagafrv., að flestum þyki ekki of lítið lagt til hinna verklegu framkvæmda. Ég hef þegar fengið að heyra, að í frv. sé gerður stórfelldur niðurskurður á þessum framkvæmdum, og það er sagt á þann hátt, eins og allt atvinnulíf landsins sé í veði. Mér kemur ekki til hugar að neita því, að þeir þrír aðalkaflar, vegamál, samgöngur á sjó, vitamál og hafnargerðir, sem koma undir þessa grein fjárl., séu afar mikilsvarðandi og mikið undir því komið, að þeir skipi þann sess í fjárl., sem nauðsyn krefur og efnin leyfa. En ég tel með öllu ástæðulaust að æðrast í þessu efni, þótt nýbyggingar vega og hafnarmannvirkja séu ekki á toppi, eins og sakir standa, meðan lítið fæst fyrir hverja krónu og nægileg atvinna er í landinu.

Í frv. er gert ráð fyrir heildarfjárveitingu til vegamála, er nemur 13.972.947 kr. á móti 14.213. 120 kr. á þessu ári eða lækkun, sem nemur aðeins 1–11/2%. Nokkur hækkun er á fjárveitingu til stjórnar og undirbúnings vegagerða, til þess að hægt sé að fjölga verkfræðingum til aðstoðar vegamálastjóra. Tæknileg aðstoð hefur undanfarið verið af mjög skornum skammti við mjög víðtækar mælingar, athuganir og útreikninga, sem vegamálaskrifstofan hefur jafnan með höndum. Væntanlega verður nú úr því bætt.

Fjárveiting til nýrra akvega hefur verið lækkuð um 2.893 þús. kr., en viðhald og endurbætur þjóðvega hefur verið hækkað um 2.500 þús. kr., upp í 7 millj. kr. Á síðasta ári var varið til vegaviðhalds yfir 10 millj. kr., en af því var um helmingur greiddur af setuliðinu fyrir það slit, sem orsakast af ökutækjum hersins. Á þessu ári er gert ráð fyrir, að viðhaldið verði um 7,5 millj. kr., og af því er áætlað, að setuliðið greiði 1.6 millj. kr. Á næsta ári má búast við, að viðhaldskostnaður verði ekki. minni en nú, en hins vegar verður engu spáð um það, hver þátttaka setuliðsins verður um viðgerð veganna.

Framkvæmdum ríkisins um nýbyggingar og viðhald þjóðvega eru að sjálfsögðu takmörk sett af fjárhagslegum ástæðum ríkissjóðs hverju sinni. Af áætluðum heildarrekstrartekjum samkvæmt. frv., 86.8 millj. kr., er gert ráð fyrir, að 9.750 þús. kr. fari til nýlagningar og viðhalds vega, eða 11.23%. Ef gerður er samanburður á tveimur síðustu fjárl., kemur þetta út:

1944 er varið 11.47% af heildarrekstrartekjum 1943 — — 11.50 % —

Verður því ekki með sanngirni sagt, að hinum verklegu framkvæmdum í þessu efni sé skorinn þrengri stakkur í samanburði við afkomu ríkissjóðs en Alþ. hefur sjálft gert undanfarin tvö ár.

Til brúargerða er áætlað 1.5 millj. kr., og er það 300 þús. kr. hærra en á gildandi fjárl. Af þessu er ein millj. ætluð til smíði Ölfusárbrúar. Áætlað er, að brúin muni kosta 2 millj. kr., og verður ekki hjá því komizt að smíða hana á næsta sumri. En þrátt fyrir það taldi ég rétt, að kostnaðinum yrði skipt á tvö ár, og hef því tekið helming kostnaðarins í frv., en geri ráð fyrir, að hinn helmingurinn verði tekinn í fjárl. fyrir árið 1946. Ég tel ekki líklegt, að ríkissjóður þurfi að stofna til skuldar vegna smíðinnar, þótt kostnaðinum verði skipt á tvö ár.

Til strandferða ríkissjóðs eru áætlaðar 2.730.000 kr., og er það rúmlega einni millj. kr. hærra en nú er í fjárl. Þetta stafar af því, að í ljós hefur komið, að áætlun gildandi fjárl. er allt of lág, og verður ekki hjá því komizt að taka til greina hið raunverulega tap á strandferðunum og ætla fyrir því í fjárlögum.

Undirbúning þyrfti að hefja nú þegar um gerbreyting á strandferðum ríkisins eftir stríð. Ég tel lítinn vafa á því, að reka mætti þær hagkvæmar fyrir ríkissjóð og til meira hagræðis fyrir landsmenn, ef önnur skipun væri á þeim gerð. Nauðsynlegt er að fá ný og heppileg skip. Það sýnir sig nú, að rekstur þess eina skips, sem nýtt er og hentugt til þess hlutverks, sem því er ætlað, sýnir langhagkvæmasta útkomu.

Ég get ekki skilizt svo við þessa gr. frv., að ég minnist ekki á framlag til hafnarmannvirkja. Er það áætlað 2 millj. kr. eða rúmlega 200 þús. kr. lægra en nú er í fjárl. Þessi liður er ósundurliðaður, enda er venja, að Alþingi sjálft ákveði, hvernig fénu skuli skipt. Í hinni áætluðu fjárhæð er innifalið tillag til hafnarbótasjóðs, 300 þús. kr. Þessi sjóður er nú 3 millj. kr. og er ætlað hlutverk eins og nafn hans bendir til. Þessi fjárhæð hefur nú verið. tekin úr ríkissjóði og lögð í sérstakari reikning í Landsbankanum og verður væntanlega geymd þar, þangað til að sjóðurinn tekur til starfa.

Kirkju- og kennslumál (14. gr.). Breyt. til hækkunar eru um 1 millj. kr. Til byggingar gagnfræðaskóla eru veittar 550 þús. kr., og er það hækkun um 220 þús. kr. með tilliti til þess, að lokið verði byggingu gagnfræðaskólahúsanna í Reykjavík og á Akureyri.

Til húsabóta á prestssetrum eru veittar 500 þús. kr. Er það 400 þús. kr. hærra en nú er í fjárl. Þörfin á þessum húsabótum er nú talin svo brýn, að ekki verður hjá því komizt að hefjast handa í þessu efni.

Stundakennslukaup við æðri skóla hefur verið hækkað um 50%. sökum þess að talið er, að kennslukaup það, sem verið hefur, sé óviðunandi og ekki sambærilegt við kaup, sem greitt er föstum kennurum fyrir sama verk. Nokkur hækkun er á launagreiðslum vegna almennrar barnafræðslu, og stafar hún af því, að nokkur fjölgun hefur orðið á kennaraliði í barnaskólum.

Til atvinnumála (16. gr). Nokkur hækkun hefur orðið á rekstrarkostnaði Búnaðarfél. Íslands og Fiskifélags Íslands. Nýr liður er tekinn inn í þessa grein, sem áður hefur verið á heimildargrein, það er 300 þús. kr. byggingarstyrkur til nýrrar mjólkurstöðvar í Reykjavík. Enn fremur eru áætlaðar 2 millj. kr. til áburðarverksmiðju, og hafa þá samtals verið ætlaðar 4 millj. kr. til þeirrar framkvæmdar.

Nokkuð hefur verið dregið úr kostnaði vegna sauðfjársjúkdóma. Kann sumum að finnast of lítið fram lagt. Þessi útgjöld hafa nú staðið frá ári til árs um langan tíma, og líklegt er, að erfitt verði að halda uppi þessum framlögum, þegar aftur þrengist í búi. Væri nauðsynlegt að taka allt þetta mál til gagngerðrar athugunar, því að vera mætti; að ný sjónarmið kæmu fram við gaumgæfilega endurskoðun.

Sjúkratryggingar (17. gr.). Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í l. frá 30. des. 1943 átti að fara fram á þessu ári atkvæðagreiðsla um stofnun sjúkrasamlaga um land allt, þar sem sjúkrasamlög eru ekki þegar komin á fót. Félagatala samlaganna var 43 þús. á síðasta ári, en á öllu landinu er tala tryggingarskylds fólks um 77 þús., auk um 8000 gamalmenna, sem rétt hafa til trygginga. Virðist því líklegt, að með nýjum samlögum geti fjölgun meðlima orðið 30–40 þús. Samþykkt hefur verið þegar að stofna ný sjúkrasamlög í 50 hreppum. Áætlað er, að tillög hinna nýju samlaga verði til jafnaðar um 4 kr. á mánuði eða 48 kr. á ári. Yrði þá framlag ríkissjóðs 331/3% eða 16 kr. á félagsmann, samtals 560–640 þús. kr. Tryggingastofnunin vill telja, að ekki sé varlegt að áætla framlag ríkissjóðs undir hámarki eða 640 þús. kr.

Ríkissjóður greiddi áður 25% af greiddum iðgjöldum til samlaganna. En samkvæmt l. frá 30. des. 1943 var framlag ríkissjóðs hækkað upp í 331/3%. Kostnaður vegna þessara breyt. er áætlaður 105 þús. kr.

Samtals er áætlað, að framlag til sjúkratrygginga hækki um 970 þús. kr. á næsta ári frá því, sem fjárl. 1944 áætla.

Ellilaun og örorkubætur. Með l. frá 30. des. 1943 var ákveðið, að ríkissjóður legði fram (auk 200 þús. kr. framlags) það, sem á skortir, að framlag Lífeyrissjóðs Íslands nægi til að greiða 50% af heildarupphæð ellilauna og örorkubóta, en áður var framlag ríkissjóðs og Tryggingastofnunarinnar 50% til I. flokks, en 30% til II. flokks. Flokkaskiptingin fellur niður, en lágmark upphæða, sem framlag kemur á móti, var ákveðið 120 kr. auk verðlagsuppbótar.

Ellilauna og örorkubóta njóta nú yfir 6000 manns, og er heildargreiðslan 41/2 millj. kr. Af því greiðir nú ríkissjóður og Tryggingastofnunin 1.4 millj. kr. En af breyt. þeirri, er ég nú nefndi, er talið, að leiði það, að framlagið, sem ríkissjóður þarf að greiða, hækkar um rúmlega 100% frá gildandi fjárl. eða úr 1180 þús. kr. upp í 2550 þús. kr. Samtals nemur þá hækkun til alþýðutrygginga 2.465.000 kr., sem að mestu stafar af lagasetningu á síðasta ári.

Eftirlaun (18. gr.) hækka um 750 þús. kr. vegna framlags ríkissjóðs til lífeyrissjóðs samkvæmt l. frá 1943. Er þetta í fyrsta skipti, sem þessi útgjaldaliður er tekinn í fjárlög.

Ég hef þá getið flestra þeirra hækkana og breytinga, sem nokkru máli skipta í útgjaldabálki frv.

Vísitala frv. Öll gjöld frv. til dýrtíðaruppbóta eru byggð á vísitölu 250. Er það sami grundvöllur og hafður var við samning núgildandi fjárl. Þetta er að vísu lægri vísitala en nú er gildandi. En þegar þetta frv. var samið, var ógerlegt að spá nokkru um það, hvaða stefnu dýrtíðarmálin mundu taka, hvort dýrtíðin lækkaði eða hvort verðbólgan mundi vaxa öllu atvinnulífi landsmanna yfir höfuð. Útgjöld frumvarpsins, þau er dýrtíðaruppbót taka, voru því, meðan svo stóð, engu nær sanni, þótt til grundvallar væri lögð vísitalan 272. Hins vegar er auðvelt að áætla hækkun eða lækkun í þessu efni, eftir því sem útlit er fyrir, að stefni í dýrtíðarmálunum, þegar þingið leggur síðustu hönd á fjárl. Áætlað er, að hvert stig til hækkunar eða lækkunar gildi ríkissjóð 150–160 þús. kr. Meðalvísitala síðasta árs var 256. Áætlun um tekjuskattinn er byggð á afkomu síðasta árs. Ef meðalvísitala þessa árs sýnist ætla að verða hærri, mundi það orsaka nokkru hærri tekjuskatt á móti.

Ég geri ráð fyrir, að á það muni verða bent, að frv. sé með þessu móti ekki látið sýna hina raunverulegu útgjaldafjárhæð. Ég býst enn fremur við, að einhverjir muni telja það sérstaka goðgá, að frv. var ekki lagt fyrir þingið, þegar er það kom saman í byrjun september. Því er til að svara, að hina raunverulegu útgjaldafjárhæð er fyrst hægt að ákveða, þegar þingið hefur komið dýrtíðarmálunum á fastan grundvöll. Í öðru lagi vil ég kalla frv. of snemma, en ekki of seint fram komið. Ástæðan til þess, að fjárlfrv. var ekki afgreitt á vetrarþingi, eins og lög standa til, var sú, að enginn treystist til að áætla afkomu ársins 1945 svo löngu fyrir fram. Dýrtíðarmálin voru óleyst, og ráðgátan um gang styrjaldarinnar sömuleiðis. Enn þá eru dýrtíðarmálin óleyst og því nær í fullri óvissu. Meðan svo stendur, er hvert fjárlfrv., sem fram er lagt, byggt á sandi, hversu vandlega og samvizkusamlega sem það er undirbúið.

Dýrtíðarráðstafanir. Frv. gerir ekki ráð fyrir neinum framlögum til dýrtíðarráðstafana af þeirri einföldu ástæðu, að ríkisstj. er þeirrar skoðunar, að slík fjárframlög frá ríkissjóði verði að falla niður frá næstu áramótum. Afkoma ríkissjóðs samkvæmt frv. ber það með sér, að ekki er lengur hægt að standa undir slíkum greiðslum. svo að tugmillj. króna skiptir, nema nýjum, stórfelldum tekjuskatti yrði bætt á þjóðina. Stj. taldi ekki fært að bera fram slíkar tillögur, eins og nú standa sakir. Hún álítur, að verðlagið og kaupgjaldið verði að lækka frá næstu áramótum, án þess að uppbætur úr ríkissjóði komi til. Vegna þeirrar sannfæringar bar hún fram frv. sitt til dýrtíðarráðstafana, sem nú liggur fyrir þinginu, frv., sem þingflokkarnir og blöð þeirra hafa talið óalandi og óferjandi. Tíminn á eftir að leiða í ljós, að stefna stj. er rétt í þessu efni og líklega sú eina, sem framkvæmanleg er.

Tollalækkun og vísitala. Í sambandi við baráttuna við dýrtíðina hefur því verið haldið fram af sumum, að ódýrast væri að lækka hana með afnámi tolla, og talið, að gera mætti þetta með helmingi lægra framlagi en nú er gert. Nú er áætlað, að það kosti ríkissjóð um 900 þús. kr. á ári að greiða niður hvert vísitölustig. Gerð hefur verið áætlun í viðskmrn. um, hvað hvert vísitölustig kosti ríkissjóð með afnámi tolla á þeim vörum erlendum, sem ganga inn í vísitöluna. Niðurstaðan af þeirri athugun er sú, að bein áhrif af afnámi tollanna mundi verða 10–12 stig og að hvert stig mundi kosta um 1.3 millj. kr. Slík athugun sem þessi er miklum vandkvæðum bundin, og verður því að taka niðurstöðurnar með nokkurri varúð. En ég hygg, að þessar tölur fari nokkuð nærri sanni. Bendir þá þessi athugun til þess, að það kosti ríkissjóð talsvert meira að lækka vísitöluna með afnámi tolla en með beinu fjárframlagi.

Tekjur og gjöld ríkissjóðs á þessu ári. Ef athuguð er afkoma ríkissjóðs það, sem af er þessu ári, er ástæða til að búast við, að tekjurnar geti orðið um eða yfir 100 millj. kr. Samkvæmt fjárl. eru raunveruleg útgjöld um 89 millj. kr. Við það bætist framlag til dýrtíðarráðstafana vegna verðlækkunar, sem ekki stendur í fjárl. og er að líkindum 11–12 millj. kr., ef framlagið hækkar ekki frá því, sem verið hefur. Vitanlegt er, að einhverjir liðir fara fram úr áætlun, svo sem landhelgisgæzla. Með talsverðri bjartsýni mætti hugsa sér, að tekjur og gjöld ríkisins komi til að standa í járnum á þessu ári. En það er enn þá of snemmt að mynda sér skoðun í þessu efni, sem örugg mætti teljast.

Lántaka. Á þessu ári hefur verið tekið lán að fjárhæð 10 millj. kr. samkv. heimild í l. frá 30. des. 1943. Lánið greiðist á mislöngum tíma eins og hér segir:

4 millj. kr. til 7 ára 3 - - - 10 3 - - - 20

Vextir af láninu eru 31/2%, og eru það lægstu vextir, sem ríkissjóður hefur greitt til þessa. Nokkuð af láninu var boðið út opinberlega af Landsbanka Íslands, en hitt var selt Tryggingastofnun ríkisins og Landsbankanum, og verða bréfin afhent fyrir áramótin.

Á þessu ári hefur verið greitt brezkt lán frá 1921, að fjárhæð 6.187.668 kr. Þar af var hluti ríkissjóðs 3.511.917 kr. Öðru brezku láni, frá 1935, verður sagt upp til greiðslu á næsta ári. Hluti ríkissjóðs í því láni nemur 8.282.819 kr. Þegar það er greitt, skuldar ríkissjóður erlendis aðeins í Danmörku, og nemur sú skuld nú um 11.400.000 kr. Af því eru þegar fallnar í gjalddaga um 4 millj. kr. ísl. Innan lands skuldar ríkissjóður í handhafaskuldabréfum 21.409.000 kr., þegar út hafa verið gefin þau skuldabréf, er að ofan greinir.

Framlag vegna alþjóðasamvinnu. Með skömmu millibili hefur Íslandi verið boðin þátttaka í tveimur mikilvægum ráðstefnum um alþjóðasamvinnu eftir stríð. Fyrri ráðstefnan fjallaði um endurreisnar- og hjálparstarfsemi hinna sameinuðu þjóða, sem Íslendingar hafa gerzt þátttakendur að, og nemur tillagið 1% af áætluðum þjóðartekjum. Í 22. gr. gildandi fjárl. er ríkisstj. heimilað að greiða þátttökugjald Íslands í samræmi við aðra þátttakendur. Fjmrn. hefur nú lagt til hliðar á sérstakan reikning 3 millj. kr. í þessu skyni, því að búast má við, að til útborgunar komi mjög bráðlega.

Hin ráðstefnan fjallaði um fjárhags- og viðskiptamál, hin svokallaða Bretton Woods ráðstefna. Þar var ákveðið að stofna alþjóðabanka og gjaldeyrissjóð með þeim fyrirvara, að það næði samþykki hjá þingi og stjórn hvers lands. Tillag til þessara stofnana er greitt á tvennan hátt, með greiðslu í gulli eða frjálsum gjaldeyri og með greiðslu eða tryggingu í innlendum gjaldeyri í banka hér.

Framlag Íslands til alþjóðabankans er áætlað 1 millj. dollara og sama fjárhæð til gjaldeyrissjóðsins. Af þessu á að greiða til sjóðsins 250 þús. dollara í gulli eða gullgildum gjaldeyri og til bankans 20 þús. dollara. Afganginn á að greiða í íslenzkum krónum með því að færa þær fjárhæðir þessum stofnunum til tekna í þjóðbankanum við inngöngu eða þegar kallað er eftir.

Vegna þess að margir álíta, að hér sé um að ræða 13 millj. kr. bein útgjöld fyrir ríkissjóð, vil ég taka fram, að svo er ekki. Þótt framlag það, sem ég hef nú nefnt, geti ekki talizt með öllu áhættulaust, er engin ástæða til að ætla annað en höfuðstóllinn sé vel tryggður. Ég hef því hugsað mér, að hægt sé að fullnægja væntanlegum skuldbindingum í þessu efni án nokkurra beinna fjárframlaga frá ríkissjóði, heldur með samvinnu við þjóðbankann og hina bankana með notkun þess gulls, sem hér liggur nú vaxtalaust, og með tryggingum. Kostnaður af þessu ætti helzt enginn að vera fyrir ríkissjóð. Nauðsynlegt kann að vera að skipa þessu með l. í sambandi við væntanlega samþykkt Alþingis t,un, að Ísland gerist þátttakandi í áðurnefndum stofnunum.

Með þetta fyrir augum hef ég talið rétt að taka ekki í fjárlfrv. greiðslu vegna vaxtataps vegna gjaldeyrisvarasjóðs samkvæmt l. nr. 50 27. júní 1941, en það eru 150.000 kr. á fjárl. þessa árs. Þessum l. verður að breyta, eins og nú er komið.

Þau hlunnindi, sem áðurgreindar stofnanir veita beinlínis, eru innhlaup hjá sjóðnum til gjaldeyriskaupa fyrir íslenzka mynt, er nemur 13 millj. kr., og lánsmöguleikar hjá bankanum, ef nauðsyn krefur. En ég tel þó hin óbeinu hlunnindi mikilvægari fyrir viðskipti þjóðarinnar út á við.

Endurskoðun á rekstri ríkisins. Eins og þetta fjárlfrv. ber með sér, er rekstur ríkisbúsins orðinn mikið bákn. Af rekstrarútgjöldunum, sem talin eru 81.6 millj. kr., eru nálega 4/5 hlutar föst útgjöld, sem bundin eru með l. eða óhagganleg á annan hátt. Það eru útgjaldaliðir, sem flestir eru ómissandi þættir í þjóófélagsbúskap nútímans. En þótt þessir þættir séu ómissandi, er ekki þar með sagt, að þeir séu starfræktir á þann hátt, er haganlegastan mætti kalla. Í litlu þjóðfélagi, sem vill lifa menningarlífi, getur oft orðið erfitt að láta endana ná saman, nema gætt sé hinnar ýtrustu hagsýni og gaumgæfni í opinberum rekstri. Því færri sem bökin eru, sem byrðarnar bera, því meiri nauðsyn er að hafa vakandi auga á því, að þeim séu ekki bundnir of þungir baggar.

Þann stutta tíma, sem ég hef haft tækifæri til að fylgjast með ýmsum rekstri ríkisins, hef ég oft séð, að margt mætti betur fara og margt mætti reka á hagkvæmari hátt en nú er. En þótt einhverju sé kippt í lag á stöku stað, skiptir það litlu máli fyrir reksturinn í heild. Til þess að ná árangri, sem um munar, þarf að endurskoða allan rekstur ríkisins í heild með það fyrir augum að fella niður það, sem óþarft er, breyta því, sem aflaga fer, færa saman það, sem ofaukið er, og skera burt það, sem rotið er. Slík endurskoðun er mjög nauðsynleg einmitt nú eftir hina miklu þenslu ófriðarástandsins. Til hennar þarf að stofna strax, og til hennar þarf að vanda, svo að hún geri það gagn, sem að væri stefnt.

Ástand og horfur. Fáum getur dulizt, að ríkissjóður á harða varnarbaráttu fyrir höndum, meðan atvinnulíf landsins er að ná jafnvægi eftir röskun styrjaldarinnar. Ef ekki fer flest betur en á horfist, er líklegt, að tekjustofnarnir bresti, áður en gjaldaliðirnir sýni nokkur veruleg merki til lækkunar. Eina vonin til þess, að hægt verði að forðast þung áföll, er sú, að atvinnuvegirnir og þá sérstaklega útflutningsframleiðslan geti starfað af fullum krafti og án hindrunar. Ef vinnustöðvanir verða af einhverjum ástæðum, sem rýra atvinnutekjur landsmanna að verulegum mun, getur svo farið, að afkomu ríkissjóðs verði mikil hætta búin. Það, sem nú þarf að forðast umfram allt, er, að ríkissjóður safni skuldum vegna rekstrarins.

Öll þjóðin og um leið ríkissjóður á mikið í húfi, hvernig tekst um að færa framleiðslukostnaðinn til samræmis við söluverð afurðanna á hverjum tíma. Ef framleiðslan er rekin á heilbrigðan hátt án rekstrarhalla og án innbyrðis baráttu, þá mun ekki á skorta, að inneignir landsmanna erlendis verði notaðar til kaupa á nýjum atvinnutækjum. En ef deilur sjóða hlekki um hönd framleiðslunnar og hallarekstur nagar rætur hennar, þá missa menn trú á henni, og þá er hætt við, að hún verði yfirgefin eins og skip, sem orðið er lekt.