17.01.1944
Sameinað þing: 5. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2034 í B-deild Alþingistíðinda. (5728)

Slysfarir á sjó, - minning

forseti (GSv):

Háttvirtir alþingismenn. — Áður en Alþingi gengur til starfa í deildum á þessum degi, þykir mér hlýða að minnast hér í sameinuðu þingi hins ógurlega sjóslyss, sem nú er bert, að orðið hefur við að togarinn Max Pemberton hefur farizt með allri áhöfn, 29 manns, að líkindum nálægt Snæfellsnesi.

Á þessu nýbyrjaða ári hefur margt það gerzt í heiminum, sem sársauka veldur mönnum og seint bætanlegum missi. Vér Íslendingar höfum eigi farið varhluta af voveiflegum slysum. er sumpart hafa beinlínis verið af völdum hins æðisgengna ófriðarbáls, er enn geisar, en sumpart að sjálfsögðu því óviðkomandi. Verðmætir farkostir og fiskiskip hafa sokkið í sjó, en framar öllu dýrmæt mannslif farið forgörðum, og er þar með ærið skarð höggvið í afkomumöguleika hinnar litlu og fámennu íslenzku þjóðar. Þótt eigi verði sagt eða sannað, að hið síðasta þungbæra sjóslys, er orðið hefur hér við land síðustu daga, er b/v Max Pemberton fórst, standi í nokkru sambandi við styrjöldina, þá er þetta þó allt skylt. ógnir og eyðing, sem eigi virðist verða við ráðið. Ber oss að taka því öllu með þeirri rósemi hugans, er einkenna á góða menn og staðfasta, þjóð. sem eigi lætur bugast, en heldur áfram göngu sinni og gagnlegum störfum í fullu trausti til handleiðslu hinnar eilífu forsjónar alls mannskyns.

Minnumst þess, að á öllum öldum hefur íslenzk byggð verið undirorpin áföllum og íslenzkur sær hættulegur þeim, er hann. hafa stundað. En hvort um sig ber þó í skauti gróður og aflaföng til vöggugjafar börnum þessa lands. Af því öllu hefur þjóðinni átt að hlotnast þrek og þor og þrautseigja, en einnig örlög um dýrar fórnir. „Stríðsmenn hafsins,“ sjómennirnir, hafa verið þar í fararbroddi. Og allt, sem þurft hefur til fullnægingar lögmáli lífsins í þessu landi, hefur íslenzka þjóðin staðizt fram á þennan dag, og eiga þar einnig þakkir skildar hinar hugprúðu hetjur heimilanna. Svo mun og enn verða um ókominn aldur, ef enginn æðrast, þótt á dynji stormar og hregg. Uppbirta fylgir öllum éljum og skin skúrum.

Nú á hér margt um sárt að binda vegna þessara síðustu slysfara, eins og oft áður og ætíð, er slíkt ber að höndum. Því að missirinn er stórkostlegur. Hann er næsta tilfinnanlegur þjóð vorri allri, sem þarf á að halda öllu sínu, er til nytsemdar og vegs horfir, ekki sízt dugandi mönnum og gegnum, í hvaða stétt sem eru. En sér í lagi er missirinn mikilli í hinni ötulu sjómannastétt vorri, er segja sá um hvort tveggja, að getið hafi sér glæsilegan orðstír með öllum, er til þekkja og bærir eru um að dæma, og eins, að hún hefur unnið og vinnur dyggilega, í erfiðri og hættulegri stöðu að þeim lífsnauðsynlegu störfum fyrir þjóðarheildina, sem óneitanlega færa einna áhrifamesta björg í bú, eins og nú er háttað. En mestur er þó missirinn og sárastur söknuðurinn „heima“, þar sem eru aðstandendur og ástvinir, og eru orð vart nægjanleg til huggunar þeim.

Vér þökkum fyrir unnin afrek hinna ötulu sona þjóðarinnar, sem nú eru fallnir í val með sviplegum hætti.

Vér skulum láta gott fordæmi þeirra verða oss til örvunar á braut frama og starfs.

Vér biðjum Guð almáttugan um styrk oss öllum til handa.

Hann blessi minningu hinna látnu og líkni þeim, sem syrgja.

Ég bið þingheim að rísa úr sætum.