24.01.1945
Sameinað þing: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í D-deild Alþingistíðinda. (5731)

242. mál, vinnuhæli berklasjúklinga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Þegar þetta mál lá fyrir síðast, langaði mig til að benda á tvö atriði. Fyrst, hversu óviðeigandi það er af mönnum, sem eru í fjvn., eins og 1. og 2. flm. þessarar þáltill., að fara að koma með þáltill. um útgjöld úr ríkissjóði nokkrum dögum eftir að fjárl. eru afgreidd. Það er eins og verið sé að gera leik að því að halda útgjöldum ríkissjóðs utan við fjárl. Það eru 14 þm., sem flytja þessa þáltill. Engum þeirra hugkvæmdist að koma þessum gjöldum á fjárl. En þegar nýbúið er að samþ. fjárl., koma þeir með þetta. Þetta er aðferð, sem ekki á að eiga sér stað. Það er fyrir sig á aukaþingum, sem ekki eru fjárlagaþing, þó að svona sé farið að hlutunum. En að gera það á löngu fjárlagaþingi er óviðeigandi í alla staði. (GJ: Hvernig var með Krýsuvíkurveginn?) Mín till. var, að það væri tekið upp á fjárl., sem til hans var veitt. (SB: Hvað gerði hv. fjvn. í því?) Hún sveik það. — Ég vænti þess, að þeir menn, sem nú sitja í fjvn., sjái sóma sinn í því að stuðla að því, að þetta komist á fjárl. Þetta yfirlæknisstarf virðist ekki eiga að auglýsa, svo að menn geti keppt um það, heldur er það einhver stjórn prívatstofnunar, sem á að veita starfið. Þess vegna kemur ekki til mála, frá mínu sjónarmiði séð, að ríkið greiði slík laun. Hitt er annað mál, ef S. Í. B. S. er þannig statt, að það þarf á fjárstyrk að halda, að það f ái styrk til þess að launa mann. En að það heiti svo, að ríkið launi mann, sem ekki er í þess þágu og það hefur ekkert yfir að segja, er óviðeigandi í alla staði. Þess vegna finnst mér ekki eðlilegt, að ríkið fari að launa Pétri og Páli fyrir að gegna yfirlæknisstöðu þarna. (SK og GÍG: Ekki Páli. — PO: Hvorki Pétri né Páli.) Og ég veit, að þegar hv. fjvn. fer að athuga þetta, og ef hún telur nauðsyn á fjárstyrk til þessa vinnuheimilis, þá hefur hún ekki það framlag í því formi, að hún veiti það handa sérstökum manni, heldur sem styrk til fyrirtækisins, sem fyrirtækið getur svo varið eins og því sýnist.