13.11.1944
Sameinað þing: 64. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2036 í B-deild Alþingistíðinda. (5732)

Slysfarir á sjó, - minning

forseti (GSv):

Háttv. alþingismenn. — Síðan fundur var haldinn seinast í Alþingi, hefur þau sorgartíðindi borið að höndum, sem alþjóð eru nú kunn orðin: Hið góða eimskip „Goðafoss“ var skotið í kaf hér inni við land og nærri höfn, og margt manna beið bráðan bana. Þetta mikla slys er vafalaust, þegar á allt er litið, meðal þeirra hörmulegustu í þessari æðisgengnu styrjöld, er engu þyrmir, og á ýmsa lund átakanlegast af þeim, sem íslenzku þjóðina hefur hent á þessum ógnartímum. Þess er að vísu eigi að vænta, að oss Íslendingum sé ætlað að „baða í rósum“ alls kostar meðan öðrum „blæðir út,“ enda verðleikar vorir eigi slíkir. Efnamissir og þess kyns verðmæta eru nú daglegir viðburðir í heiminum, er menn sýta lítt yfir; en dýrmætasta eignin hverri þjóð, eru mannslífin, og þá einkum hinum fáu og smáu, — dýrmætust þjóðarheildinni og öllum einstaklingum, þótt þeim sé nú fórnað gegndarlaust. Það er von allra góðra manna á slíkum stundum, að íslenzku þjóðinni aukist styrkur, andlegt og siðferðislegt þrek við hverja raun.

Svo margir eiga nú hér um sárt að binda, að sjaldan hefur meira verið í einni svipan. Skörðin verða ekki fyllt. Hið blíða og stríða skiptist á í mannlífinu, og verður því eigi raskað. Hinn mikli söknuður er réttmætur, þótt huggunin sé vís, sú, að „lífið lifir,“ ekki aðeins áfram með oss, heldur út yfir það, sem vér greinum.

Vér hörmum allir hinn mikla missi. Með sorglegum hætti og ægilegum hafa á ný íslenzkir menn verið burtu hrifnir. Í nafni Alþingis votta ég aðstandendum, vinum og venzlamönnum þeirra fyllstu samúð og bið þeim öllum líknar Drottins.

Ég bið háttv. þingmenn, í hluttekningar skyni, að rísa úr sætum. — [Þingmenn stóðu upp.] Fundarstörf falla niður, og eru öll dagskrármál tekin af dagskrá. Næsti fundur verður boðaður með dagskrá.