06.02.1945
Sameinað þing: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í D-deild Alþingistíðinda. (5736)

242. mál, vinnuhæli berklasjúklinga

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Það var ekki laust við, þegar þessi till. kom fram, að ýmsir, bæði innan þings og utan, litu svo á, að hér væri til of mikils mælzt, ef gerðar væru ráðstafanir til þess, að frá upphafi vega væri hæfur læknir látinn hafa málefni vinnuheimilis berklasjúklinga að Reykjalundi til meðferðar. En svo er fyrir að þakka, að þetta mál þurfti í sjálfu sér ekki mikilla skýringa við, hvorki meðal þm. né meðal almennings, þar til menn sáu það og könnuðust við, að einmitt þetta, að skipaður væri þar læknir þegar í stað, væri heppilegt og í sjálfu sér ekki annað verjandi, þegar þess er gætt, hve mikið risaátak þjóðin hefur gert til þess að koma upp þessu vinnuhæli. Það er að sjálfsögðu einsdæmi hér á landi, að almenningur til sjávar og sveita hafi brugðizt við nokkru málefni betur. Að vísu hefur fólk brugðizt drengilega við ýmsu, en ég held, að það sé einsdæmi, að þjóðin hafi fundið og skilið þörfina á nokkrum hlut eins vel og einmitt á þessu vinnuheimili, og það er í rauninni ekki undarlegt, þegar þess er gætt, hve mikið er búið að leggja í sölurnar, — ég meina ekki sérstaklega peningalega, heldur hve miklu búið er að fórna og hve mikið af þjáningum og sorgum þessi óttalega veiki, berklaveikin, hefur leitt yfir þjóðina. Nú er þetta mál komið á það stig, að einstaklingar í þjóðfélaginu hafa tekið á sig sameiginlega að tengja við þær aðgerðir, sem hið opinbera áður hafði gert í þessum efnum, með því að byggja heilsuhæli og með læknisaðgerðum og öðru slíku. Þegar nú einstaklingarnir höfðu stigið þetta risaskref, að koma upp vinnuheimili berklasjúklinga, þá var ekki við öðru að búast en menn yrðu fljótir til að skilja, að ekkert annað væri verjanlegt en að fá hæfan yfirlækni til þess að hafa þennan sérstaka starfa á hendi, — heilbrigðiseftirlit og eftirlit með daglegri líðan þeirra vistmanna, sem þar dveldust, og enn fremur að reyna að hjálpa þeim til þess að verða að fullfrískum og dugandi mönnum. Þetta mun hafa valdið því, að í sjálfu sér má segja, að fjvn. vilji eitt og hið sama í þessu máli, en það var þó svo, að minni hl. n. beit í sig orðalag í þessu efni, sem meiri hl. gat ekki fallizt á, og einkum og sér í lagi vil ég geta hér um það, að þar sem segir í nál. minni hl., að n. hafi rætt till. þessa við félmrh. og berklayfirlækni Sigurð Sigurðsson, og að öðru leyti þar sem það er gefið í skyn, að Sigurður Sigurðsson kysi orðalag minni hl., þá ber þar dálítið á milli að mínum dómi. Ég held, að hv. frsm. hafi viljað fallast á annað orðalag á tímabili, en seinna var hann horfinn frá þeirri skoðun. Svo hvað rökstuðninginn snertir, þá er hann aðallega sóttur hjá minni hl. til landlæknis. Hann segir m. a., að honum þyki of ríflega áætluð þessi fjárhæð, og virðist þá landlæknir horfa framhjá því, að yfirlækni vinnuheimilisins er ætlað að hafa einnig annað starf á hendi við heimilið, þ. e. framkvæmdastjórastöðuna. Það er því alveg út í loftið að segja, að viðkomandi maður eigi að launast jafnt og yfirlæknar heilsuhæla ríkisins, því að þótt sagt sé, að hann eigi að hafa sömu laun sem læknar á þeim, þá er þess að gæta, að hann á jafnframt að hafa á hendi að vera ráðsmaður heimilisins, annast innkaup á efni til þess, sem framleiða skal, og annast sölu þess, sem framleitt er, o. s. frv. Ég vildi taka þetta fram til þess að fyrirbyggja, að misskilningur gæti risið út af þessu. Fyrir sjálf læknisstörfin kemur þá sem sagt sem svarar hálfum launum yfirlæknis við ríkishælin, en hinn helmingurinn fer fyrir framkvæmdastjórastöðuna. Landlæknir heldur því enn fremur fram, að sér sé ekki kunnugt um, að athugun kunnáttumanns hafi farið fram á því, hver læknaskipun mundi henta hinni fyrirhuguðu stofnun. Lítur það dálítið undarlega út, að slíkt skuli koma fram hjá yfirmanni í heilbrigðismálum þjóðarinnar, þar sem jafnvel leikmönnum var það vitanlegt, að sá maður, sem hefur verið falið að vera yfirlæknir, Oddur Ólafsson, var ytra einmitt til að kynna sér þessa hlið málsins sérstaklega, og er sá eini af læknum hérlendis, sem hefur aflað sér þekkingar á rekstri slíkra vinnuheimila. Svo segir landlæknir, að sér sé ekkert um þetta kunnugt, en það er kunnugt meðal annarra manna í landinu. Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta; ég vildi bara halda fram því orðalagi, sem meiri hl. n. hefur samþ. og prentað er á þskj. 1019. Þó vildi ég gera þar eina undantekningu til samkomulags, eftir að hafa athugað það mál. Brtt. meiri hl. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að greiða árlegan styrk til vinnuheimilis Sambands íslenzkra berklasjúklinga að Reykjum, er samsvari launum yfirlæknis við heilsuhæli ríkisins, og gangi styrkur þessi til að launa yfirlækni vinnuheimilisins, enda hafi hann jafnframt framkvæmdastjórn þess á hendi.“

Nú hefur mér verið bent á af fróðum mönnum, að það kunni að valda togstreitu, að í till. er talað um „árlegan“ styrk, þar eð oftast séu þál. miðaðar við eitt ár eða ákveðið tímabil. Það stóð nú svo í mínum heila, að þetta hefði verið áður gert, en vera kann, að mig misminni það. En þar sem ég vil ekki leggja nokkurn stein í götu þessa máls, ber ég fram brtt., sem fellir þetta „árlega“ úr. En ég geri það í því trausti, að í þetta starf verði ráðinn fastur maður, enda þótt landlæknir segi, að ekki sé eðlilegt, að ríkið launi starfsmann við einkastofnun. Ég lít svo á, að ekki beri að skoða þetta sem venjulega einkastofnun. Þessi stofnun er að vissu leyti eins bundin ríkinu og hver annar spítali. Þess vegna er það, að þótt ég komi með þessa brtt., þá vænti ég þess fastlega, að ætíð verði stuðlað að rekstri hælisins, m. a. með því, að ríkið kosti yfirlækni og framkvæmdastjóra í einni persónu.

Í bréfi frá landlækni segir, að vel hefði mátt byrja og sjá, hversu þessu reiddi af, en létta undir síðar, ef þörf krefði.

Við erum þessu andvígir. Við viljum þegar frá byrjun láta gera allt undir stjórn þess læknis, sem á að reka hælið í framtíðinni.

Ég leyfi mér svo að afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu brtt.