16.02.1945
Sameinað þing: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í D-deild Alþingistíðinda. (5743)

242. mál, vinnuhæli berklasjúklinga

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Eins og kom í ljós við fyrri umr. þessa máls, var lítils háttar formlegur ágreiningur í fjvn. um orðalag þeirrar till., sem upphaflega var flutt af 14 hv. alþm. um þetta mál, og fóru svo leikar, að till. minni hluta fjvn., sem prentuð er á þskj. 1020, var samþykkt. Ég hirti þá ekki að fara út í neinar kappræður við hv. fyrri þm. Rang. um þau atriði, er hann dró fram, og álít þess í raun og veru ekki þörf heldur nú að öðru leyti en því, að ég vildi vekja athygli hv. alþm. á því, að það er ekki rétt málafærsla að halda því fram, að þessi yfirlæknir, sem verður við vinnuhælið fái laun sín eingöngu fyrir læknisstörf.

Ég segi, að það er ekki rétt málafærsla, og einkum og sér í lagi er hún röng, þegar athugað er, að margbúið er að taka fram í umr., enda hefur það alltaf staðið til, að þessi sami maður gegndi forstjórastörfum um leið, og þau verða vitaskuld við svona nýskipan, ef svo má að orði kveða um þessi mál, talsvert vandasöm, a. m. k. í byrjun. Það þarf að velja hæfilegt verkefni fyrir hvern einstakan, og það þarf að sjá til þess, að efni fáist handa þeim, sem þarna vinna. Þau efni geta verið margs konar, bæði handa körlum og konum, og enn fremur þarf líka að sjá til þess, að þessi vinna fari þannig fram, að afrakstur verði sem mestur eftir atvikum, og loks þarf að koma því í peninga, sem þarna er framleitt, þannig að það geti orðið þeim til framdráttar, sem vinnuna stunda. Þarna er því um miklu meira starf að ræða heldur en blátt áfram ráðsmannsstarf á sjúkrahúsi, þar sem allt gengur í föstum farvegi og engin nýbreytni sérstök er á ferðinni. Hér þarf forstöðumaðurinn að skapa nýja tilveru fyrir menn, sem eru búnir fyrir óviðráðanlegar aðstæður að vera aðgerðalausir, sumir mánuðum saman og sumir árum saman. Ég þykist ekki þurfa að benda frekar á það, hve mikla athygli þarf við þetta, og þess vegna megum við líta á það forstöðumannsstarf, sem hér um ræðir, sem mikið starf og mjög þýðingarmikið.

Þetta er þá það, sem yfirlæknir hælisins á í raun réttri að fá helming af launum sínum fyrir, en hinn helminginn þá fyrir yfirlæknisstörf. Það sjá því allir, hve því fer fjarri að halda fram, að með því að þessum manni sé launað fyrir allt saman svipað og yfirlæknum á heilsuhælum er launað fyrir sín læknisstörf, þá sé þeim þar með gert rangt til oða hann sé gerður ofjarl þessara lækna, því að hann gegnir hér 2 hlutverkum í starfi sínu.

Þá vildi ég aðeins drepa á, að það var á það minnzt, að það væri óviðeigandi, að svona greiðsla eins og við leggjum til væri höfð í byrjun — sem byrjunarlaun. Það mætti kannske segja, ef hér væri tekinn kandidat, nýkominn frá prófborðinu, og settur í starfið, en því er ekki hér til að dreifa. Sá maður, sem hefur tekið að sér yfirlæknisstarfið, og það með samþykki réttra heilbrigðisyfirvalda í landinu, er ekki viðvaningur í þessu starfi. Hann er búinn að starfa 7 ár við heilsuhæli og hefur þar að auki það til að bera, að hann hefur sérstaklega kynnt sér rekstur stofnana erlendis, sem hafa hliðstæð vinnuheimili berklasjúklinga. Ég hef ásamt hv. 2. landsk. og hv. 1. þm. Skagf. flutt brtt. á þskj. 1075, sem er orðuð eins og þar segir, og ætla ég þá, að enginn þurfi að segja það, að yfirlæknar heilsuhæla ríkisins séu nefndir í þessari till. Að öðru leyti vil ég ekki orðlengja um málið, — ég þykist vita, að það sé meira af þrákelkni heldur en beinlínis af því, að það sé hjartans mál hjá minni hl., að hann hefur ekki getað fylgt meiri hl. fjvn. í þessu atriði, en vænti þess að öðru leyti, að hv. alþm. geti fallizt á brtt. þá, sem ég lýsti á þskj. 1075.