16.02.1945
Sameinað þing: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í D-deild Alþingistíðinda. (5744)

242. mál, vinnuhæli berklasjúklinga

Frsm. minni hl. (Helgi Jónasson):

Ég skal ekki að þessu sinni hafa um þetta mörg orð, því að málið var rætt við fyrri umr. En ég held, að það sé óþarfi af frsm. meiri hl. að tala um þrákelkni minni hl., — ég held það sé frekar hann, sem sýnir það en við. Hv. frsm. sagði, að deilan hefði verið aðallega um það, að okkur hefði þótt laun þessa manns of há, en deilan var alls ekki um það; hún var aðallega um það form, sem hér er verið að ganga inn á af Alþ., að fara að greiða laun til starfsmanna einkafyrirtækis, — það er mergurinn málsins. Ef Alþ. sér sér fært nú að ganga inn á þá braut að greiða laun úr ríkissjóði til forstjóra, hvort sem hann heitir yfirlæknir eða forstöðumaður, einkafyrirtækis, þá teljum við það mjög óvarlegt af Alþ.; það gæti dregið dilk á eftir sér. Það var þetta, sem fyrir okkur í minni hl. vakti með till., sem við komum með við fyrri umr. og fengum samþ., að Alþ. liti svo á, að ekki væri rétt að miða þetta við laun, heldur sem styrk til þessa fyrirtækis, sem alls góðs er maklegt. Það er ekki rétt hjá hv. þm. Vestm., sem hann gaf í skyn, að ég hafi hér við fyrri umr. málsins talað um þennan mann, sem þarna á að hafa forstöðu, sem einhvern viðvaning. Ég tók það einungis fram, að þetta væri ágætur maður, en þar fyrir liti ég svo á, að ekki væri rétt fyrir Alþ. nú að ákveða laun eins starfsmanns utan við launal., þar sem ný launal. yrðu sennilega afgr. hér í næstu viku. Það hefur oft verið talað um það, hve mikið ósamræmi væri í launagreiðslum, af því að Alþ. hefur svo oft fastákveðið laun opinberra starfsmanna utan við launal. En nú er hér komin fram brtt. frá hv. þm. Vestm. og fleiri, sem fer í þá átt, að nú eigi Alþ. að fara að ákveða einum ákveðnum manni hjá einkafyrirtæki vissa launaupphæð, þrátt fyrir það, þó að nú sé verið að undirbúa afgreiðslu nýrra launal. Þetta teljum við fráleitt að fallast á, og vænti ég þess, að Alþ. gangi ekki inn á þessa braut nú fáum dögum áður en afgr. launal. er ákveðin. Hv. þm. sagði, að nú væri öllu óhætt, því að nú væru ekki nefndir yfirlæknar heilsuhælanna, en það er þó tekin sama upphæðin og í launalfrv. er ákveðin til slíkra starfsmanna. Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum; ég tel, að Alþ. hafi sýnt vilja sinn í þessu við fyrri umr., og vænti þess, að Alþ. samþ. þá till., sem hér var samþ. við fyrri umr. En ég vil geta þess, að við prentun hefur láðst að breyta fyrirsögn till. eftir fyrri umr., og leyfi ég mér að bera fram leiðréttingu um það, hvernig fyrirsögn till. átti að orða eftir fyrri umr.