04.10.1944
Sameinað þing: 51. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

143. mál, fjárlög 1945

Þóroddur Guðmundsson:

Herra forseti. — Fjárlfrv. það, sem hér liggur fyrir, er af mörgum ástæðum einstætt í sinni röð. Fyrst er það, að á slíkum peningaveltutímum sem nú verður að teljast meira en lítið ábyrgðarleysi, jafnvel af hinni ábyrgðarlausu ríkisstj., sem nú situr, að leggja fram fjárl. með stórkostlegum tekjuhalla.

Þá hlýtur það að vekja hina mestu undrun, að hæstv. ríkisstj. skuli leyfa sér að sleppa útgjaldaliðum, sem ekki verður komizt hjá, hvernig sem allt veltist. Þetta er því furðulegra, þegar þess er gætt, að sumir hinna „gleymdu“ útgjaldaliða nema millj. og tugmillj. kr. Hvernig stendur á því, að ekki eru teknir með í útgjöldum fjárl. liðir eins og útgjöld íslenzka ríkisins í sambandi við alþjóða-hjálparstarfsemina? En þau koma til með að nema 181/2 millj. kr., að því er nú er talið. Hvernig stendur á því, að verðuppbæturnar á landbúnaðarafurðir, sem talið er, að muni nema 25 millj. kr., eru ekki teknar með? Þótt þær séu ekki enn þá samþ. í þinginu, er á engan hátt hægt að afsaka sig með því, þar sem yfirgnæfandi meiri hl. þm. hefur lýst yfir fylgi sín við málið. Og varla þarf að efa, að hæstv. ríkisstj. sé þeim till. sammála, svo mjög eru þær í samræmi við hennar eigin till. Þá skortir mjög á, að hæstv. ríkisstj. hafi gefið fullnægjandi skýringar á því hátterni sínu að reikna með 250 stiga vísitölu í frv. sínu, þegar vísitalan er 22 stigum hærri. Ekki er ólíklegt, að útgjöld ríkissjóðs verði nokkrum millj. kr. hærri en áætlað er vegna þessarar skekkju. Auk þessa er sleppt mörgum smærri útgjaldaliðum úr fjárlfrv. þessu, sem mjög ósanngjarnt er að fella niður, og verklegar framkvæmdir eru skornar niður stórkostlega.

Þá má ekki gleyma því, að nú liggja fyrir þinginu frv., sem hafa í för með sér milljóna kr. útgjöld, ef samþ. verða, eins og t.d. launalagafrv., sem flutt er í Ed. af mönnum úr öllum flokkum. Þá flytja Framsfl.menn og ýmsir nánustu samstarfsmenn þeirra í Sjálfstfl. frv. til l. um stórkostlega styrki úr ríkissjóði til ræktunar og byggingarframkvæmda í sveitum. Svo virðist sem hæstv. fjmrh. hefði átt að kynna sér, hvernig með þessi mál mundi verða farið. Aðstaða hans til þess að fá vitneskju um, hvernig mál þessi verða afgr. í þinginu, hlýtur að vera góð, þar sem hann mun sjálfur vera Sjálfstfl.-maður og nýtur nú mikils ástríkis hjá Framsfl. En ekki er tekið tillit til aukinna útgjalda þeirra vegna í fyrirliggjandi fjárlagafrv.

Að öllu þessu athuguðu er varlega að orði komizt, að fjárlagafrv. þetta sé hið furðulegasta plagg. Og þegar það er skoðað niður í kjölinn, kemur í ljós, að það er fullt af firrum og blekkingum. Raunverulegur tekjuhalli er a.m.k. 50 til 60 millj. kr. eftir því sem séð verður. Rauði þráðurinn í frv. er þröngsýni, afturhaldssemi og fjandskapur við meiri hl. þjóðarinnar, hið vinnandi fólk, og alger misskilningur á þeim tímum, sem nú eru.

Það er óforsvaranlegt með öllu að reyna að leyna þingið og þjóðina, hvernig ástandið er. Og það er háskaleg villa og smásmuguleg þröngsýni að halda, að nú dugi að skera niður framlög til vega- og brúargerða og annarra verklegra framkvæmda. Við slíkar ráðstafanir sparast ekki neinar stórfúlgur, en þær hafa skaðleg áhrif. Það, sem nú ber að gera fyrst og fremst, er að leggja grundvöll að varanlegri viðreisn atvinnuvega landsins og þá fyrst og fremst sjávarútvegsins, en fjárhagslega á þjóðin svo að segja allt undir afkomu hans.

Nú nýlega skýrði blað ríkisstj., Vísir, frá því, að Englendingar væru að útbúa nokkra togara á veiðar og sennilega mundi enskum veiðiskipum fjölga á næstunni. Enn fremur getur sama blað þess, að búast megi við, að þetta geti orðið til þess að lækka fiskverðið. En ef erfiðleikar eru í nánd, þá er ástæða til þess að byrja strax á ráðstöfunum gegn þeim. Hæstv. ríkisstj. virðist ekki vera á sama máli um það, a.m.k. er ekki hægt að geta sér þess til við lestur þessa fjárlagafrv.

Allur frágangur frv. og stefna þess ber ríkisstj. greinilega vitni um yfirborðshátt, þröngsýni, frámunalegt dugleysi og takmarkalaust skilningsleysi á því, hvernig leysa beri aðsteðjandi vandamál.

Og þegar þetta fjármálaprógram hæstv. ríkisstj. loksins kemur fram, eru liðnar þrjár vikur af þingi, og mánuður er látinn líða, frá því að þing kom saman, þar til hæstv. fjmrh. lætur fjvn. í té fylgiskjöl og ýmis umbeðin gögn, til þess að n. geti tekið til starfa. Þannig eru þingstörfin tafin. Svo loks þegar frv. kemur, er það úr garði gert eins og ég hef drepið á. — Núv. ríkisstj. hefur frá byrjun talið það aðalhlutverk sitt að sporna við dýrtíðinni. Eins og kunnugt er hefur barátta hennar á því sviði heldur lítinn árangur borið, enda reyndist það svo frá byrjun, að ríkisstj. hafði lítinn áhuga á að lækka dýrtíðina, en gerði ýmislegt til þess að lækka vísitöluna og þar með kaupgjaldið. Læt ég nægja að benda í því sambandi á tilfæringar verðlags á ýmsum landbúnaðarvörum, kartöflum o.fl.

Ég vil minnast á eina af tilraunum hæstv. ríkisstj. til þess að lækka dýrtíðina eða verðbólguna. Ég geri þá tilraun sérstaklega að umtalsefni, vegna þess að hún er einkennandi fyrir stefnu ríkisstj. í þessum málum, og einnig vegna þess, að svo margra missagna hefur gætt um hana. Ríkisstj. fékk Alþýðusambandið og Búnaðarfélag Íslands til þess að skipa sína þrjá mennina hvort í n. til þess að athuga möguleika fyrir samkomulagi þessara aðila um að lækka kaupgjald og verðlag landbúnaðar eftir hlutföllum, er þeir kynnu að koma sér saman um. Þessi n. var almennt kölluð síðari sex manna n. Ég átti sæti í henni af hendi Alþýðusambandsins og er því málavöxtum nokkuð kunnugur. Nú er það vitanlegt, að dýrtíðina má minnka á margan hátt, en það er ekki hægt að gera það svo, að það komi ekki illa við einhverja. Ef tilmæli ríkisstj. um skipun þessarar n. eru tekin bókstaflega, er það ætlun hennar, að verkamenn og bændur eigi að bera kostnaðinn af lækkun dýrtíðarinnar og að sanngjarnast sé, að þeir, en ekki hátekjumenn og stóreignamenn, geri það. Þetta er auðvitað í fyllsta samræmi við allt starf og stefnu ríkisstj. í þessum málum.

Þótt mér væri ljóst, að ríkisstj. ætlaðist til þess, að tilmæli hennar væru tekin bókstaflega, þá datt mér aldrei í hug eða okkur fulltrúum Alþýðusamb. að taka sæti í n. þessari upp á þær spýtur. En okkur var það ljóst, að næði n., sem skipuð var fulltrúum frá svo fjölmennum samtökum í landinu eins og Alþýðusamb. og Búnaðarfél. Íslands, samkomulagi um lækkun á dýrtíðinni, voru nokkrar líkur til þess, að slíkar till. næðu samþ. Alþ., hvað svo sem ríkisstj. segði um þær.

Á fyrstu fundum lýstum við Alþýðusamb.-fulltrúarnir yfir því, að við teldum, að um tvær aðalleiðir væri að ræða um lækkun dýrtíðarinnar. Önnur leiðin væri að gera það á kostnað tekju- og stóreignamanna. Hin leiðin að gera það á kostnað launþega og annarra lágtekjumanna. Við lýstum strax yfir, að það væri hin fyrrtalda leið, sem við vildum fara. í n. fóru umr. mjög vinsamlega fram, og virtust skoðanir Búnaðarfélagsfulltrúanna vera líkar skoðunum okkar í þessu efni, enda beinlínis tekið fram af formanni n., Steingrími Steinþórssyni búnaðarmálastjóra, að hann væri einnig á þeirri skoðun, að kostnað við lækkun dýrtíðarinnar ættu þeir ríku að greiða. N. hélt marga fundi, og ýmislegt bar þar á góma, og loks komu nm. sér saman um, að þeir skyldu hver í sínu lagi tala við „sína menn“, eins og það var orðað.

En það er kunnugt, hvernig fór. Fulltrúar Búnaðarfél. lögðu til, að n. beitti sér fyrir lækkun kaupgjalds og lækkun afurðaverðs til bænda. Á þetta vildum við ekki fallast og sáum þá, að þýðingarlaust mundi að gera till. um lækkun dýrtíðarinnar, sem væru eingöngu á kostnað hátekju- og stóreignamanna. Við lögðum þá til, að n. flytti till. um afnám tolla á nauðsynjavörum. Við útreikninga, sem framkvæmdir voru í flýti, en hljóta þó að vera mjög nálægt hinu sanna, ef ekki alveg réttir, virtist svo sem afnám tolla á þeim vörum, sem vísitala kauplagsn. er reiknuð eftir, mundi lækka vísitöluna um a.m.k. 20 stig, en ekki kosta ríkissjóð nema 81/2 millj. kr. í töpuðum tolltekjum. Til samanburðar má geta þess, að þá keypti ríkissjóður niður vísitöluna um 14 til 15 stig með niðurgreiðslum á verði kjöts og mjólkurafurða, og námu þær greiðslur sem svaraði 14 til 15 millj. kr. á ári. Með afnámi tolla á nauðsynjavörum kostaði það ríkissjóð innan við hálfa millj. kr. að lækka vísitöluna um hvert stig. Með niðurgreiðslum á kjöti og mjólkurvörum kostaði hvert vísitölustig ríkissjóðinn um 1 millj. kr.

Launþegar og bændur hefðu stórgrætt á því að afnema tolla á nauðsynjavörum. En heildsalar og ýmsir aðrir hefðu tapað á því. En fulltrúar Búnaðarfél. vildu ekki fallast á till. okkar, og n. klofnaði. Stefna ríkisstj. og Framsfl. hindraði það, að jákvæður árangur yrði af starfi n. Þegar ekki var hægt að nota n. til þess að flytja till. gegn hagsmunum bænda og verkamanna, en ríkisstj. vissi auðvitað, að n. þyrfti öll að standa að till., ef þær ættu að koma að notum fyrir áform hennar, þá var það næsta að kljúfa n.

Hæstv. ríkisstj. hefur þótzt ætla að hafa hemil á dýrtíðinni með ströngu verðlagseftirliti. Í stuttu máli er árangurinn af því sá, að nokkrir smákaupmenn hafa verið eltir og sektaðir um tvö til þrjú hundruð kr. fyrir að selja 25 eða 50 aurum of dýrt einhverja vörutegund. Á sama tíma hafa hinir raunverulegu okrarar rakað saman óhófslegum stórgróða undir vernd og umvafðir föðurlegri umhyggju hæstv. fjmrh., en greinilegasta dæmið um það er Eimskipafélagshneykslið. Á s.l. ári líðst þessu félagi, sem nýtur skattfrelsis og margháttaðra ívilnana, að okra svo óhóflega á þjóðinni, að gróði þess er á þessu eina ári milli 20 og 30 millj. kr. Til þess eins að kóróna svívirðinguna skýrir stj. Eimskipafél. svo frá, að gróðinn sé ekki á skipum félagsins, heldur sé hann á leiguskipum, sem ríkisstj. fékk félaginu í hendur. Það má segja um þetta athæfi ríkisstj., að það eitt ætti að nægja til þess, að hún hefði ekki verið þoluð lengur. Annars er þetta auðvitað í fullu samræmi við stefnu hennar og allt starf. Henni hefur mistekizt við allt, sem hún hefur þótzt ætla að gera að gagni. Dýrtíðin vex, og fjárhagsafkoma ríkissjóðs versnar, og lítur helzt út fyrir óhjákvæmilegt gjaldþrot, ef ekki er tekið í taumana.

Oft hafa setið afturhaldssamar ríkisstj. á Íslandi, en tæpast nokkur eins og þessi. Oft hafa setið þröngsýnar og athafnalausar ríkisstj., sem stóðu eins og glópar andspænis hverju vandamáli. Núv. ríkisstj. slær þó öll slík met, enda er svo komið, að hún á engan áhanganda nema afturhaldssömustu mennina í afturhaldssamasta flokknum, Framsfl.

Meðan núv. ríkisstj. hefur ríkt — með þeim endemum, sem ég hef verið að gera tilraun til að lýsa, - hefur blað hennar, Vísir, dag eftir dag rægt Alþ. við þjóðina og afflutt gerðir þess. Blaðið hefur látizt harma það, að þingið gæti ekki myndað stjórn, og ýmist talið nauðsynlegt, að allir flokkar sameinuðust um lausn vandamálanna, eða hamazt gegn Sósfl. með sömu röksemdum og Hitler og nazistar um allan heim gera gegn verkalýðshreyfingunni, lýðræði og sósíalisma. Það eru meira að segja notuð sömu kjörorðin og nazistar nota. Þegar svo hefur litið eitthvað betur út fyrir, að samkomulag næðist milli flokkanna á Alþ., hefur blað ríkisstj. reynt eftir megni að spilla fyrir, að samkomulag næðist, og er nærtækt dæmi um þetta. Hæstv. núv. ríkisstj. ætti fyrir löngu að vera farin frá völdum. Ef til vill afsakar hún sig með því, að hún hafi þegar beðizt lausnar, en það verður varla tekið nema sem herbragð, úr því að hún situr áfram. Því var yfirlýst, að við sósíalistar mundum flytja vantraustsyfirlýsingu á stj., og það voru miklar líkur til, að hún yrði samþ. Þótt ríkisstj. hafi tekið við hverju, sem að henni hefur verið rétt, með mestu lítilþægð, hefði hún orðið að fara, hefði vantraust verið samþ. Þetta var ríkisstj. ljóst, og hún hlýtur að liggja undir þeim grun, að lausnarbeiðni hennar hafi verið fram borin í trausti þess, að hún yrði beðin að sitja áfram, þar til tækist að mynda aðra ríkisstj., en það yrði ekki að sinni og henni yrði því mögulegt að lafa svolítið lengur.

Þinginu hefur ekki tekizt að mynda ríkisstj., og hefur þar lengst af strandað á tvískinnungshætti og óheilindum Framsfl., sem hefur þó alltaf þótzt vilja stjórnarsamvinnu, en sett fram afarkosti gagnvart öðrum flokkum, þegar á hefur átt að herða. Fyrst þóttist þessi flokkur vilja þriggja flokka vinstri stjórn og bauð Sósfl. og Alþfl. samstarf um það, að þeir svikju kjósendur sína í tryggðum, lækkuðu kaup verkamanna og hlíttu stjórn og umsjá Framsfl. Þegar Sósfl. vildi ekki ganga að slíkum afarkostum, en bauð upp á samvinnu um róttæka umbótastefnuskrá til hagsbóta fyrir bændur, verkamenn og alla alþýðu, sagði Framsfl., að ómögulegt væri að semja við Sósfl. um stjórnarsamvinnu. Það eina, sem hægt var að semja við Framsfl. þá, var, að hann ætti einn öllu að ráða, en samstarfsfl. að vera eins konar undirtyllur, sem þökkuðu fyrir að fá að vera með, eða með öðrum orðum svipað samstarf eins og í sínum tíma var haft við Alþfl. og leiddi hann út á þá braut svika og niðurlægingar, sem er nú að kosta hann tilveruna.

Það hafa farið fram langar samningsumleitanir um myndun fjögurra flokka stjórnar, en engan árangur borið. Óhætt er að fullyrða, að í þeim samningum hefur Framsfl. verið erfiðastur og á honum strandað fyrst og fremst. Enda er það löngu alkunnugt, að Framsfl. vill ekki taka þátt í stjórn með Sósfl., og er höfuðástæðan fyrir því hræðsla forystumanna flokksins við sinn gamla formann, Jónas Jónsson, sem eins og kunnugt er, aðhyllist mjög skoðanir nazista upp á síðkastið og heldur uppi æsingum gegn sósíalistum og verkalýðshreyfingunni að dæmi þeirra. Þá veldur það og miklu, hve foringjar þessa flokks eru afturhaldssamir og einstrengingslegir gagnvart öllum málum kaupstaðanna, og sjávarútvegsins. Í þeim samningsumleitunum, sem farið hafa fram milli flokkanna um myndun ríkisstj., hefur oft verið vel tekið í þær stórfelldu till. okkar um kaup á nýtízku fiskiskipum og öðrum framleiðslutækjum, sem við berjumst fyrir og nú þegar hafa hlotið miklar vinsældir hjá þjóðinni. En Framsfl.-mennirnir og raunar fleiri hafa sífellt verið að klifa á því, að ekki þýði að kaupa skip og önnur framleiðslutæki, nema dýrtíðarflóðið væri stöðvað, og þá alla jafnan borið fyrir sig þá firru, að kaupgjaldið væri orsök dýrtíðarinnar. Stjórnarblaðið Vísir komst svo að orði, að það væri beinlínis glæpur að kaupa ný framleiðslutæki undir þessum skilyrðum.

Síðan 1940 hefur grunnkaup verkamanna lítið hækkað. Sú grunnkaupshækkun hefur haft mjög lítil áhrif í þá átt að hækka vísitöluna, þótt hinu gagnstæða sé sí og æ haldið fram af andstæðingum launþega. Nokkur verkalýðsfélög sögðu upp samningum og kröfðust kauphækkunar seinni part sumars og nú í haust, og var þó aðallega að ræða um samræmingu á kaupgjaldi milli félaga og milli einstakra launaflokka. Hér var því síður en svo um nokkrar stórfelldar launahækkanir að ræða. En blöð afturhaldsins, Tíminn og Vísir, hófu slíkar æsingar, að sjaldan hefur sézt annað eins, þótt það sé vani þessara blaða í kaupdeilum að ganga fram fyrir skjöldu annarra með rógi, ósannindum og blekkingum um samtök og forystumenn verkamanna. Morgunblaðið tók undir sönginn, en þó af ólíkt meiri stillingu. Og svo var nú Alþýðublaðið. Það er mjög athyglisvert fyrir verkamenn um land allt, hvernig Alþýðublaðið hefur verið skrifað undanfarna mánuði. Yfirleitt hafa blöð allra flokka undanfarna mánuði lýst flokkunum afar vel. Í raun og veru er það skylda hvers einasta verkamanns um land allt að lesa blaðaskrifin um kaupdeilurnar í haust.

Við næstu kosningar munu stjórnmálaflokkarnir allir halda því fram, að hver um sig sé í rauninni hollastur verkamönnum. Þegar veiða á atkvæði verkamanna, þá er ekki margt að þeim, en þá ættu verkamenn ekki fyrst og fremst að hlusta á hin fögru orð, heldur renna huganum til þeirra stunda, þegar eitthvað bjátaði á, þegar þeim og samtökum þeirra lá á stuðningi, því að sá einn er vinur, sem í raun reynist. Blað Sósfl., Þjóðviljinn, hefur eitt allra blaða stutt verkalýðsfél. í baráttu þeirra undanfarið, og hefur það reynzt, eins og ætíð endranær, þegar á reyndi hjá verkamönnum og alþýðunni, hinn skeleggi forsvari.

Alþýðublaðið kennir sig við alþýðuna, en í kaupdeilum alþýðunnar í haust hefur það hamazt gegn hagsmunum alþýðunnar og keppzt við Vísi og Tímann í æsingum gegn verkalýðsfélögunum, sem í deilum stóðu. Í Iðjudeilunni, sem stóð lengst og var að ýmsu leyti harðvítugasta deilan, gekk Alþýðublaðið lengst allra blaða í fjandskap gegn félaginu og krafðist þess, að það yrði leyst upp. Þessi opinberi fjandskapur blaðs, sem telur sig og er af ýmsum talið málssvari verkalýðsins, stappaði stálinu í atvinnurekendur, og er það tvímælalaust, að Iðjudeilan stóð miklu lengur fyrir þessar aðgerðir blaðsins og Alþfl.

Verkafólkið í Iðju stóð sig vel og lét ekki blekkjast eða tvístra samtökum sínum. Gegn því félagi beindi forysta Vinnuveitendafél. mestum ofsa og óbilgirni. Með hjálp Alþfl. og blaðs hans átti að berja Iðju niður og brjóta þannig skarð í múr verkalýðssamtakanna, er síðan gæfi hagstæð skilyrði til almennra kauplækkana. Þetta áform Vinnuveitendafél Ísl. hefur Iðja gert að engu, og standa öll launþegasamtök landsins í þakklætisskuld við Iðju fyrir þetta verk. Verkfalli Iðju er nú lokið með nokkrum kauphækkunum. Alþýðubl. á fyrst og fremst sök á því, að kauphækkanir urðu ekki meiri. Þótt blaðið sé að verðleikum fyrirlitið, þá nægði þó lóð þess á metaskálina með atvinnurekendum í þessari harðvítugu deilu til þess að koma í veg fyrir meiri hækkun.

Í þessum kaupdeilum, sem hér hafa verið og eru háðar, er ekki krafizt nema mjög lítilvægra hækkana og þá aðallega hjá launalægstu flokkum, eins og t.d. hjá prenturum, en kröfur þeirra eru aðallega fyrir nema og lægst launuðu stúlkurnar. Yfirleitt hafa atvinnurekendur og launþegar getað komið sér saman um lausn á þessum deilum. En stjórn Vinnuveitendafél. Ísl. hefur gert það, sem hún hefur getað, til þess að hindra sættir, og stundum ekki leyft atvinnurekendum að semja, fyrr en við sjálft lá, að gremja þeirra yrði svo mikil yfir því að vera þannig sviptir sjálfsforræði, að þeir gengju úr Vinnuveitendafél. og gerðu samninga í trássi við hina freku stjórn þess, þrátt fyrir það að þeir áttu yfir höfði sér ofsóknir og fjársektir Claessens og stjórnar Vinnuveitendafélagsins.

Uppblástur blaðanna út af þessum tiltölulega smávægilegum deilum, þar sem úlfaldi hefur verið gerður úr mýflugunni, hefur auðvitað átt sinn þátt í að hindra lausn þeirra. Ekki hvað sízt hafa æsingaskrif Alþýðublaðsins gegn verkalýðsfélögunum orðið til þess, því að þau hafa komið stjórn Vinnuveitendafél. til að trúa því, að verkamenn mundu vera ósammála um kaupkröfurnar, og því von til, að takast mætti að tvístra fylkingum þeirra.

Þessar tiltölulega smávægilegu kaupdeilur, sem litla þýðingu hafa fyrir atvinnulífið í heild, hefur Framsfl. reynt að nota til þess að hindra samkomulag flokkanna um stjórnarmyndun. En forystumönnum verkalýðssamtakanna er ljóst, að það er hið mesta nauðsynjamál, ekki aðeins verkalýðnum, heldur og allri þjóðinni, að þingið geti myndað stj., sem með kaupum á framleiðslutækjum í stórum stíl og öðrum skynsamlegum ráðstöfunum hindri atvinnuleysi og fátækt á komandi tímum. Með þetta fyrir augum hefur stjórn Alþýðusambandsins boðið að beita sér fyrir því, að staðar verði numið með kauphækkanir næstu tvö ár að undanskildum smáhækkunum til samræmingar á kaupgjaldi.

Þetta var viturlega boðið af Alþýðusambandsstj., og það má ekki gleyma því, að þetta var gert, þegar verkalýðssamtökin eru sterk og vel samstillt og geta hæglega knúið fram kauphækkanir. Hins vegar er það auðvitað betra fyrir verkamenn að halda sama kaupi og fá einhverjar tryggingar fyrir atvinnu en hækka kaupið og eiga nokkurn veginn víst að fá yfir sig atvinnuleysi innan skamms. Með þessu sáttaboði sínu reyndu forystumenn verkamanna að greiða fyrir samkomulagi um myndun ábyrgrar, dugandi stjórnar.

En stjórnarblaðið Vísir og Tíminn vildu auðvitað ekki styðja slíka viðleitni og hafa afflutt tilboð verkamanna. Hins vegar var þeim framsóknarmönnum það ljóst, að almenningur myndi skilja og virða afstöðu verkamannasamtakanna, svo að eitthvað þurfti að gera til þess að blekkja almenning. Með þetta fyrir augum lét Framsfl. Búnaðarfél. halda búnaðarþing og bjóðast til þess að falla frá 9.4% hækkuninni, að vísu þó ekki án skilyrða, — aðeins gegn því lítilræði, að ríkissjóður greiddi uppbætur á útfluttar afurðir bænda, svo að þeir fengju sama verð fyrir þær og á innlendum markaði.

Það er dálítið fróðlegt að rifja upp í þessu sambandi umr. um þetta svokallaða sex manna n. samkomulag um afurðaverðið. Allan tímann hafa framsóknarmenn haldið því fram, að samkomulag sex manna n. hafi verið það, að bændur ættu einnig að fá hið útreiknaða verð landbúnaðarafurða fyrir það, sem seldist á erlendum markaði, og mismuninn á söluverði erlendis og hinu útreiknaða verði ætti að greiða úr ríkissjóði, — annað væri brigðmælgi og samningsbrot. Viku eftir viku og mánuð eftir mánuð hefur Tíminn notað þessar blekkingar til hatursfullra árása á sósíalista. En svo gerist það, að JJ heldur svokallaðan bændafund á Selfossi til þess að hræða EystJ og HermJ, lætur gera samþykkt um að mótmæla tilboði búnaðarþings og notfærir sér, að nokkuð er gengið á hluta mjólkurframleiðenda til hagsbóta fyrir kjötframleiðendur. Ef til vill hefur JJ óttazt, að EystJ og HermJ væru að linast í andstöðu sinni gegn stjórnarsamvinnu fjögurra flokka og betra væri að hræða þá svolítið. En hvað sem því líður, er hræðslan við JJ mikil, og 26. sept. skrifar HermJ langa varnargrein í Tímann, þar sem hann segir svo orðrétt: „Dýrtíðarlögin, sem nú eru í gildi, eru frá árinu 1943. Það hafa margir misskilið þessi lög. Þeir hafa álitið, að með þeim tæki ríkissjóður ábyrgð á því, að bændur fengju tiltekið verð fyrir afurðir sínar. Svo er ekki.“ Síðar í sömu grein segir: „Ef n. (sex m.n.) yrði sammála, skyldi álit hennar lagt til grundvallar við verðlagningu landbúnaðarafurða. Ríkið tekur hins vegar ekki ábyrgð á, að bændur fái þetta verð.“

Þegar Hermann er hér í hræðslu sinni við JJ að verja sig, játar hann allan sannleikann í þessu máli og játar um leið, að allar hinar hatursfullu árásir Tímans á sósíalista út af þessu máli vegna skilnings þeirra á sex manna n. samkomulaginu eru markleysa og þvaður. Við þessu er ekki annað að segja en það, að það er alltaf gott, þegar menn éta ofan í sig það, sem rangt hefur verið sagt.

Um tilboð búnaðarþings er það að segja, að auðvitað er þar ekki um neina fórn að ræða af bænda hálfu, nema þá helzt mjólkurframleiðenda, heldur búhyggindi, eins og ýmsir sniðugir menn hafa orðað það. Það virðist svo sem þetta tilboð búnaðarþings eigi vísan meiri hl. á Alþ., og verði gerðar stórfelldar ráðstafanir til þess að bæta aðstöðu útgerðarinnar um leið, — en að síðustu koma þessar 25 millj. kr., sem hinar umtöluðu uppbætur nema, niður á henni, — þá verður hægt að greiða þetta mikla fé. En hitt er jafnvíst, að verði allt látið fljóta áfram í sama fyrirhyggjuleysinu og nú er gert, getur þetta orðið vonarpeningur fyrir bændur.

Nú hefur Framsfl. endanlega kastað grímunni og slitið formlega samningsumleitunum um fjögurra flokka stj. og leggur allt kapp á að tryggja núv. ríkisstj. setu áfram og hindra allar framkvæmdir við sjávarsíðuna. Framsfl.-foringjarnir þrá það að geta eyðilagt Sósfl. og eflt Alþfl., sem svo oft hefur reynzt þeim þægur og eftirlátur. Nú fara fram kosningar í verkalýðsfélögunum víðs vegar um allt land á fulltrúum á Alþýðusambandsþing. Framsfl. og stjórnarblaðið Vísir hafa með lifandi áhuga fylgzt með þessum kosningum, enda fara kosningarnar víða þannig fram, að Alþýðuflokksmenn njóta skipulegs stuðnings atvinnurekenda og afturhalds. Sums staðar er sameiginleg fylking, skipulögð af forystu Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. Hér í Rvík hafa atvinnurekendur smalað í bílum með Alþýðufl.-mönnum fólki á fundi verkalýðsfélaganna til þess að kjósa fulltrúa Alþfl. Þetta hefur þó lítinn árangur borið enn þá.

Á Húsavík voru nýlega kosnir í verkamannafélaginu þrír fulltrúar á Alþýðusambandsþing. Samfylking íhalds, framsóknarmanna og Alþfl. gekk berserksgang og smalaði á fundinn. Segja Húsvíkingar, að aldrei hafi slíkur hiti verið í kosningum á Húsavík. En verkamenn áttuðu sig á, hvað var að gerast og hin þokkalega afturhaldssamfylking fékk um 80 atkv. gegn 110 atkv. hinna róttæku verkamanna. Þannig svara hyggnir og stéttvísir verkamenn. Og þetta glæsilega fordæmi Húsvíkinga, sem ætíð verður þeim til sóma, mun verða endurtekið næstu daga í mörgum verkalýðsfélögum. Í Iðju og prentarafélaginu kolféllu fulltrúar Alþfl., og svipaðar fregnir berast viða að, en því miður eru það mörg félög, sem hafa ekki verið á verði og látið andstæðingana ná fulltrúum, og þegar fregnir berast af slíku, hlakkar í Vísi og Tímanum. Það er sannarlega eftirtektarvert fyrir verkamenn, að blöð þau, sem mest og ofsalegast heimta kauplækkanir og níða niður verkalýðssamtökin, skuli gleðjast yfir kosningasigrum Alþfl. En margt bendir til þess, að afturhaldsöflin hrósi happi nokkuð snemma. Verkamennirnir eru víða vel á verði. Í stærsta félagi landsins, Dagsbrún, þorir afturhaldsfylkingin varla að stilla upp, og geri hún það, mun hún fara hina háðulegustu hrakför. Þannig er það viða. En þrátt fyrir það mega verkamenn ekki vera of bjartsýnir, ekki svo, að þeir verði andvaralausir.

Það er sannarlega mikið í húfi með stj. Alþýðusambandsins á næstu tveim árum. Fái Alþfl. stj. í sínar hendur, eru allir sigrar undanfarinna ára unnir fyrir gýg. Samtökin verða eyðilögð innan frá, en verkalýðurinn uppsker kauplækkanir og réttindaskerðingar, en sambandið gert að flokkstæki Alþfl., sem stjórnað verður með einstrengingsskap og ofstæki. Þetta verða verkamenn að skilja og muna, þegar kosið er á Alþýðusambandsþing. Alþýðusambandið er alþýðunni of dýrmætt til þess, að hún fleygi því í hendur mannanna, sem sömdu við afturhaldið 1939 um að lækka kaup verkamanna og taka mannréttindin af þeim, mannanna, sem kröfðust þess, að Iðja yrði leyst upp í nýafstaðinni deilu, mannanna, sem seldu sjálfum sér eignir verkalýðsfélaganna fyrir einn tíunda verðs, mannanna, sem hafa óskipta tiltrú verstu andstæðinga verkalýðsins.

Hinn 30. sept. segir Vísir: „Er sýnilegt, að verði ekki breyting á stjórninni á Alþýðusambandsþingi því, sem bráðlega kemur saman, er einskis annars að vænta en áframhaldandi truflana á vinnufriði í landinu.“ — Það er þýðingarmikil stéttarskylda hvers verkamanns að standa vörð um hina dýrmætu eign alþýðunnar, Alþýðusambandið.

Hinn mikli skoðanamunur milli okkar sósíalista og framsóknarmanna liggur mikið í því, að við sósíalistar höldum fram, að landsmenn þurfi að byggja framtíðina á sjávarútvegi fyrst og fremst, enda hafa sjávarafurðir verið um 90% af útflutningi landsmanna síðustu ár, en landbúnaðarafurðir aðeins um 10%. Þá er landbúnaðurinn þannig á vegi staddur, að á undanförnum þrem árum hefur hann notið nærfellt 100 millj. kr. styrks úr ríkissjóði auk hinna óbeinu styrkja almennings í hærra verðlagi en markaðsverð er. Hins vegar er stefna Framsfl. skýrt mörkuð, og kemur hún fram í grg. fyrir þáltill. um rannsókn á skilyrðum til nýbýlamyndunar, sem flutt var á síðasta þingi af Sveinbirni Högnasyni, Eysteini Jónssyni og Páli Þorsteinssyni. Þar segir: „Landbúnaðurinn hefur þó verið og er enn sá atvinnuvegur, sem jafnan mun reynast traustastur á að byggja, hér eftir sem hingað til.“

Þingið þarf að gera sér ljóst, að það er fyrst og fremst sjórinn, sem landsmenn verða að byggja á, og að skortur á skilningi þessa augljósa máls hefur fyrr leitt yfir íslenzku þjóðina hungursneyð og eymd og mundi að öllum líkindum enn leiða fádæma eymd og fátækt yfir þjóðina.

Þingið þarf enn fremur að gera sér ljóst, að þjóðarinnar og sjálfs sín vegna verður það nú að leysa núv. ríkisstj. af og mynda dugandi, athafnasama ríkisstj., sem strax gerir ráðstafanir til að mæta eftirstríðstímum með aukningu fiskiflotans og annarra framleiðslutækja og gerir strax ráðstafanir til að tryggja markaði fyrir framleiðslu landsmanna. Ef einhver einn maður eða flokkur skerst úr leik, verða hinir að gera þetta.