16.02.1945
Sameinað þing: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í D-deild Alþingistíðinda. (5752)

242. mál, vinnuhæli berklasjúklinga

Frsm. minni hl. (Helgi Jónasson):

Hæstv. dómsmrh. sagði, að það væri ekki orðinn mikill ágreiningur um málið, og má það til sanns vegar færast. Ég tók það fram í fyrri ræðu minni, að ég teldi ekki heppilegt, að Alþ. færi nú að ákveða launaupphæð til ákveðins starfsmanns, meðan launal. eru í endurskoðun á Alþ. Ég get ekki skilið, hve S.Í.B.S. sækir þetta fast, að hæstv. ráðh. borgi úr ríkissjóði þann styrk, sem hér er farið fram á, og binda það við þennan fasta launaflokk, ég skil ekki þá þrákelkni. Ég get ekki skilið, hvers vegna það er nauðsynlegt, að Alþ. fari nú að ákveða þessa upphæð svo nákvæmlega, meðan launal. eru í endurskoðun. Þá vísaði hæstv. ráðh. mjög til berklayfirlæknis. Ég hef átt tal við hann um þetta mál, og hann telur, að nú á fyrsta árinu þyrfti engan lækni; hann segist telja, að nú á fyrsta árinu mætti vel komast af með hjúkrunarkonur og lækniseftirlit öðru hverju. Hann sagði okkur, að hann væri með þeirri till., sem hér er til umr., þegar hún var borin undir hann af minni hl., svo að við getum engu síður en hæstv. ráðh. vitnað til hans ummæla. Ég las hér um daginn reglugerð fyrir sambandið, og þar er skýrt tekið fram í 7.–8. gr., að það væri vinnuhælið sjálft, sem réði starfsmenn fyrirtækisins, forstöðumann, stjórn og annað. En það getur verið, að þessu hafi verið breytt síðan, en ég held, að það hafi ekki komið á prenti, og það kemur ríkisvaldinu ekkert við, hvaða menn hælið velur í stjórn eða framkvæmdastjórastöðu við þetta fyrirtæki. Ég vil síður en svo stuðla að því, að sambandið fái ekki réttlátar kröfur sínar uppfylltar hér á Alþ., en mér finnst þetta form óeðlilegt. Ég held því fast við það, að samþ. verði sú till., sem hér var samþ. við fyrri umr.