27.01.1944
Sameinað þing: 10. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2039 í B-deild Alþingistíðinda. (5753)

Þormóðsslysið

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Ég hef áður, að gefnu tilefni, gert nokkra grein fyrir því, hvernig stóð þá með rannsókn þá, sem ég fyrirskipaði út af Þormóðsslysinu. Um leið og ég minni á það, vil ég leyfa mér hér við þetta tækifæri að endurtaka það, sem ég sagði hér fyrir nokkrum dögum, að núverandi ríkisstjórn hefur haft það fyrir reglu, og svo mun verða gert meðan ég veiti atvmrn. forstöðu, að það eigi að ganga eftir því, að sjódómur hafi rannsókn í hvert skipti í sambandi við það. þegar skipstapar verða, til þess, eins og ég sagði þá, að leita eftir því, hvort hægt er að finna orsakir til slyssins og hvort hægt er, með því að finna slíkar orsakir, að fyrirbyggja, að slík hörmuleg slys þurfi að endurtaka sig.

Um Þormóðsslysið er það að segja, að af þessari ástæðu m.a. var fyrirskipuð sjódómsrannsókn út af því. Og í sameinuðu þingi við umr. um .fjárl., þegar hv. þm. Barð. (GJ) gerði fyrirspurn út af þessu máli, þá skýrði ég frá því, að rannsókn sjódómsins væri fyrir nokkru lokið, og þegar henni hefði verið lokið, þá hefði ég sem atvmrh. afgreiða málið til dómsmálaráðuneytisins til þess að það gæti athugað rannsóknina og niðurstöðu sjódómsins, með það fyrir augum að taka ákvörðun um, hvort höfða skyldi mál á móti einhverjum aðilum og þá hverjum. Síðan ég gaf þessar upplýsingar, hef ég ekkert haft með málið að gera, því að það er enn í dómsmálaráðuneytinu til athugunar. En, eins og ég tók fram þá, þá var mér kunnugt um það, að það ráðuneyti og dómsmrh. höfðu unnið að athugun sinni á málinu. Hæstv. dómsmrh. er, því miður, ekki hér við í dag. svo að það er ekki hægt að skýra frá, hvað þeirri athugun er langt komið. En ég tel víst, að hann sé fús til þess að skýra hv. þingheimi frá því, þegar hann kemur hingað næst. Ég vísa því algerlega frá mér og atvinnumálaráðuneytinu, að þetta mál hafi á nokkurn hátt verið hjá okkur tafið, og getur hv. þm. Barð. sjálfsagt fengið tækifæri til þess að kynna sér það, að það er ástæðulaust að vera með nokkrar bendingar í þá átt.

Ég hef hins vegar talið það vera rétt og æskilegast fyrir málið, að það væri ekki verið að gefa neinar upplýsingar út frá atvinnumálaráðuneytinu, fyrr en dómsmálaráðuneytið hefur lokið sinni athugun á málinu. — Er þá svarað þeirri fyrirspurn, sem fram var borin, þannig að ekkert blað hefur fengið upplýsingar um þetta mál frá atvinnumálaráðuneytinu.

Um hitt atriðið, hvort þessi hv. þm. (GJ) eða einhverjir aðrir telji sig þurfa að fara í málarekstur við eitthvert blað út af einhverju, sem það blað hefur sagt, og hvort einhvern tíma hafi einhver blöð eitthvað hallað á ríkisstofnanir, þá heyrir það undir dómsmálaráðuneytið, en ekki mitt ráðuneyti, og hef ég ekki ástæðu til að svara þar neinu til.