27.01.1944
Sameinað þing: 10. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2042 í B-deild Alþingistíðinda. (5759)

Þormóðsslysið

Bjarni Benediktsson:

Ég hjó í það áðan, að atvmrh. hefði lýst yfir, að réttarrannsóknin yrði birt, þegar rannsókn væri lokið. Ég spyr því: 1) Hvers vegna fór rannsóknin fram fyrir luktum dyrum? og 2 ) Hvers vegna eru ekki niðurstöður hennar birtar?

Við hvaða lagastaf styðst það, að rannsókn er látin fara fram fyrir luktum dyrum? Hvort er það samkvæmt ákvörðun dómsins sjálfs, sem sú leynd hefur verið við höfð, eða hvort er fyrirskipunin komin frá dómsmrn., eða er það atvmrh., sem farinn er að skipa fyrir um, hvaða háttur er hafður á réttarhöldum hér á landi, og að almenningur skuli ekki geta fylgzt með því, sem gerist fyrir dómstólunum? Og hvort er það atvmrh., sem farinn er að segja fyrir um það, hvort réttarrannsókn, sem lokið er fyrir fimm mánuðum, skuli birt? Það gat átt sér stað, ef grunur var um glæpsamlegt athæfi, að rétt væri að láta réttarrannsókn vera dulda, á meðan á henni stóð, en hitt væri óheyrt, að láta það, sem fram kom, liggja sem leyniskjöl í marga mánuði. Og að atvmrh. standi á fætur og segi, að hann ráði því, hvenær slík skjöl eru birt, það hefur ekki áður heyrzt. En hann hefur þarna gamlan forseta sjódómsins sér við hægri hönd, sem gæti hvíslað að honum, hverjar reglur gilda um leynd dómsmála.

Þar að auki, telji atvmrh., að óréttlátum ásökunum sé beitt gegn sjódóminum, þá hefur hann talið sig hafa slíkt vald, að hann mætti mælast til þess við dómsmrh., að höfðað væri mál gegn þeim, sem þannig fara að ráði sínu. En hér dugar ekki tæpitunga eða leynd um þessi mál lengur. Það sýnist svo, að atvik bendi á, að eitthvað sé áfátt um íslenzka flotann. Við værum allir sökudólgar, ef við lokuðum augunum fyrir þeirri staðreynd. Það hvílir vissulega á ráðuneytinu skylda til að komast til botns í því, í hverju þetta er fólgið. Stjórnin ein hefur aðstöðuna til þess, en almenningur á tvímælalausan rétt á að fá upplýsingar um slíkt stórvægilegt slys sem Þormóðsslysið. Ég vil fullyrða, að hvar annars staðar sem er, mundi sú rannsókn hafa farið fram fyrir opnum dyrum, og slík hneyksli verður ekki þolað, að ráðuneytin hendi málinu á milli sín, e.t.v. í leit að manni, sem hægt sé að klína sökinni á.