16.02.1945
Sameinað þing: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í D-deild Alþingistíðinda. (5763)

242. mál, vinnuhæli berklasjúklinga

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Ég skal ekki þreyta hér langar umr.

Hæstv. dómsmrh. hefur svarað hér því, sem þurfti. Það var viturlega athugað hjá hv. þm. Dal., að heppilegt hefði verið að sameina þetta starf læknisembættinu í Álafosshéraði, en hæstv. dómsmrh. hefur nú bent á það, sem því er til fyrirstöðu.

Það er vitanlegt, að hv. 1. þm. Rang. er læknir, en við ekki, enda lætur hann þess mjög kenna, en hvarflar þó allmjög á milli þyngdarpunkta og gerir ýmislegt að aðalatriðum. Í till. stendur, að styrkurinn skuli miðaður við hæfileg laun eins manns, og má segja, að þetta atriði sé mjög svipað í brtt. En nú finnst hv. 1. þm. Rang. hin mesta óhæfa að ákveða laun þessa manns, þegar verið er að setja launal. En við höfum farið svo hóflega að ráði okkar, að við segjum „allt að 11100 kr.“, enda ekkert ákveðið um þetta embætti í launal. Ég vil svo vona, að þetta mál fái afgreiðslu í dag, og þykist ekki hafa gefið tilefni til frekari umr.