04.10.1944
Sameinað þing: 51. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

143. mál, fjárlög 1945

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Þegar þetta frv. var lagt fram, voru liðnar meira en þrjár vikur, frá því er Alþ. kom saman. Og ég hygg, að þau skjöl, sem fjvn. þarf að nota til þess að geta unnið að frv., hafi ekki verið lögð fram fyrr en í gær. Hæstv. fjmrh. reyndi að afsaka þetta sleifarlag með því að segja, að ekkert hafi legið á, það hafi verið svo óvíst, hve lengi stjórnin sæti, og mér skildist hann meina, að það hefði verið of snemmt að leggja fjárlfrv. fram fyrr en nú. Hæstv. fjmrh. ætti þó að vita, að meðferð fjárl. ákveður venjulega lengd þingtímans, þannig að eftir því sem seinna er byrjað á fjárl., eftir því verður þingið lengra. Þetta vita allir, sem til þekkja og kunnugir eru störfum á Alþ. Og það er ekkert annað en fyrirsláttur, að ekki sé hægt að vinna að fjárl., þótt ekki sé búið að ákveða til fulls stefnuna í dýrtíðarmálunum. Það er svo fjöldamargt, sem gera þarf, áður en gengið er frá till. um verklegar framkvæmdir og annað, sem mótar stefnú í fjárlagaafgreiðslunni yfirleitt. Þetta verður því til þess að lengja þinghaldið, og er full ástæða til að gagnrýna þetta mjög harðlega.

Útgjöld þessara fjárl. á rekstri eru um 81,5 millj. kr., en sambærileg gjöld á gildandi fjárl. eru um 74 millj. kr. Hækkun á venjulegum útgjöldum er því 7,5 millj. kr. Og þó er hækkun á almennum gjöldum miklu meiri en þetta, því að verklegar framkvæmdir eru skornar niður um margar milljónir. Hækkun á venjulegum útgjöldum er talsvert yfir 10 millj. kr. Hér við bætist svo það, að í frv. er reiknað með vísitölunni 250, en hún er raunverulega 272 stig, svo að hér við bætast nokkrar millj. við leiðréttingar á upphæðum frv. eftir vísitölunni. Og þá er þess enn að gæta, að eftir stefnu þeirri, sem tekin hefur verið, þarf að leggja fram a.m.k. 20 millj. kr. á ári og þó sennilega meira til þess að halda dýrtíðinni í skefjum. Þennan lið vantar alveg í fjárlfrv. Niðurstaðan er því sú, þegar litið er á málið fljótlega, að þótt ekkert bætist við rekstrargjöld fjárlfrv. annað en hreinar leiðréttingar, þá yrðu þau yfir 100 millj. kr. fyrir utan fjárveitingu til eignaaukningar, svo að heildarútgjöldin munu því nema a.m.k. 115 millj. kr. Væri þó með því ekki bætt úr um verklegar framkvæmdir frá því, sem gert er ráð fyrir í fjárlfrv.

Nú er þess að gæta, að 115 millj. kr. eru fyllstu tekjuvonir ríkisins á þessu ári, sem er ár mestu háspennu, sem dæmi eru til í öllu fjármálalífi landsmanna. En hver veit um það, hverjar tekjur landsmanna verða á næsta ári? Áreiðanlega býst enginn við aukningu, fremur verulegri lækkun. Og þá er eftir að athuga allar verklegar framkvæmdir og öll þau framfaramál, sem lögð hafa verið fram á Alþ. og hæstv. fjmrh. hefur ekki gert ráð fyrir í frv. — Nýir vegir eru skornir niður um 3 millj. kr., og framlag til vélasjóðs landbúnaðarins, sem var hálf millj. kr., er alveg strikað út, og virðist það einkennileg ráðstöfun, þegar allir eru sammála um, að mikil þörf sé á aukinni ræktun með nýtízkuvélum. En — gætu sumir spurt, — hver er þörfin fyrir verklegar framkvæmdir og framfarir, og er nokkur ástæða til þess að ríkið þurfi að stíga stórt í verklegum framkvæmdum á næstunni? Hvar, sem við förum, heyrum við talað um það, sem á og þarf að gera til framfara á næstu árum. Við heyrum jafnframt sagt: Íslendingar eru ekki lengur fátækir; Íslendingar eru orðin rík þjóð. — Við efumst ekki um, að þörfin er fyrir hendi um framfarir og vilji er hjá þjóðinni um framfarir og getan er einnig fyrir hendi, þegar litið er á efnahag þjóðarinnar sem heildar.

Lítum svo á hina hlið málsins, möguleikana til þess, að vinnuafl verði fyrir hendi til þess að koma framförunum í framkvæmd og að þörf verði atvinnu. Atvinna hefur verið mikil í landinu undanfarið. Setuliðið hefur haft í þjónustu sinni fjölda fólks, en þó eru þeir miklu fleiri, sem óbeint hafa tekjur sínar af viðskiptum við herinn. Á síðustu tveimur árum hefur herinn borgað inn í landið allt að því jafnháar'fjárhæðir hvort ár og Íslendingar hafa fengið fyrir allar útfluttar framleiðsluvörur sínar. Þessi viðskipti fara minnkandi og hverfa von bráðar. — Og hversu rösklega, sem gengið verður að því að afla nýrra framleiðslutækja og auka atvinnureksturinn í landinu og framleiðsluna, þá kemur tímabil, þegar þörf verður fyrir mjög miklar verklegar framkvæmdir í landinu, til þess að ekki skapist atvinnuleysi. Allir eru sammala um, að atvinnuleysi sé hið mesta tjón, ekki aðeins fyrir þá, sem fyrir því verða, heldur fyrir þjóðfélagið. Þess vegna verður að koma því svo fyrir, að vinnuafl þjóðarinnar nýtist að fullu. En það er ástæða til þess að taka fram í þessu sambandi, að ef fullnægja á því, þá verða greiðslur til manna fyrir unnin störf að vera í samræmi við þjóðartekjurnar; annars kemst allt í sjálfheldu von bráðar. Enn fremur verða menn að gera sér ljóst, að þessu takmarki, að allir hafi atvinnu, getur ekki orðið náð með því, að hver einstaklingur vinni aðeins það, sem hann kýs helzt, heldur verða menn að starfa að því, sem nauðsynlegt er. Tökum dæmi um sveitaheimili. Hvernig færi á heimili, þar sem allt fólkið ætti að hafa nægilegt að starfa, ef allir segðu: Ég vil bara slá. — Eða ef allir segðu: Ég vil bara raka, — og enginn fengist til þess að slá eða sinna öðrum störfum? Slíkt heimili gæti ekki lengi staðizt. Ef halda á uppi atvinnu fyrir alla, verða menn að vinna að þeim verkefnum, sem mest nauðsyn er á að koma í framkvæmd. Það verður að hafa ráð á vinnuaflinu og beina því þangað, sem þörfin er mest. Annars er ekki hægt að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Það er engum vafa undirorpið, að eigi vel að fara um atvinnu í landinu, þá þarf að brúa bilið frá því, að setuliðið fer, og þangað til tekizt hefur að auka atvinnurekstur í landinu stórlega frá því, sem nú er. Og það verður að haga fjármálastefnunni í samræmi við stefnu þá, sem ákveðin verður í atvinnumálunum.

Það hefur verið hrópað hátt um það úr sölum Alþ., að það sé ekki mikill vandi um öflun fjármuna, þar sem þjóðin eigi í erlendum innstæðum meira en 500 millj. kr. En það verður ekki lengi verið að éta upp þá fjárhæð, þótt há sé, ef framleiðslan í landinu stöðvast, og sést það bezt, þegar þess er gætt, að þjóðin kaupir frá öðrum löndum fyrir yfir 200 millj. kr. á ári. Það verður fljótt höggvið skarð í innstæður þessar, ef þjóðin eyðir meira en hún aflar, ef framleiðslan dregst saman. En hvað sem því líður, þá eru þessar inneignir stórkostlegur stuðningur við bakið um þær framkvæmdir, sem fram undan eru. En það sést bezt, þegar framtíðarverkefnin eru athuguð í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, að það þarf meira til en upphrópanir einar, ef framfarir næstu ára eiga að ganga jafnört og greiðlega og æskilegt væri. Við ætlumst auðvitað til þess allir, að einstaklingar hafi miklar framkvæmdir með höndum eftir styrjöldina og svo fljótt sem við verður komið verði náð í ný framleiðslutæki. Við verðum einnig að setja okkur það mark að láta ekki innstæðurnar ganga til venjulegrar eyðslu, heldur til þess að kaupa fyrir ný framleiðslutæki, sem geti orðið undirstaða undir framleiðslunni til frambúðar. Og við verðum auðvitað að gera það með því að hafa fullkomið eftirlit og vald á gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Það verður einnig að gera þetta með því að búa þannig að framleiðslunni í landinu, að menn vilji kaupa atvinnutæki og framleiðslutæki og sjái til einhvers að eignast þau, — því að verði allt sett í þá sjálfheldu, að enginn hafi von um sæmilega afkomu af framleiðslunni, þá verður ekki .spurt eftir gjaldeyri til þess að kaupa fyrir hann framleiðslutæki. Þá mun svo fara, að innstæðurnar verða étnar upp og hverfa í taprekstur og ráðleysi. Aukning framleiðslutækjanna er því undir því komin, hvernig tekst að búa í haginn fyrir atvinnuvegina á næstu árum, þannig að innstæður eyðist ekki til þess að kaupa fyrir venjulegar neyzluvörur, heldur geti orðið notaðar til þess að kaupa fyrir þær ný atvinnutæki. — En þó að einstaklingar verði mikilvirkir, þá gera þeir ekki allar framkvæmdir, sem nauðsynlegar eru á næstunni, og fjölmörg verkefni eru þannig vaxin, að hið opinbera verður að styðja einstaklingana við framkvæmd þeirra. Er rétt að minna á nokkur þessi verkefni við þessa 1. umr. fjárl.

Við þm. Framsfl. höfum lagt fram sérstakt frv. um stórkostlegt átak í jarðræktarmálum landsins, og allir keppast við að lýsa yfir, að þeim sé ljóst, að þetta átak þurfi að gera. Og ekki verður komizt hjá því, að þetta kosti verulega aukin útgjöld fyrir ríkið. Það verður einnig að auka stórkostlega kaup á landbúnaðarvélum, og þau kaup verður að styðja.

Framsfl. hefur beitt sér fyrir athugun á sjávarútvegsmálum, og í því sambandi eru tekin til meðferðar þýðingarmikil nýmæli fyrir þá atvinnugrein. Það verður að efla Fiskimálasjóð verulega frá því, sem nú er, og verður að verja enn meiri fjárhæðum en búið er að veita til þess að stækka fiskiskipaflotann. Það verður að byggja fullkomnar fiskiskipahafnir á nokkrum stöðum á landinu, m.a. til að koma því þannig fyrir, að bátaflotinn nýtist mun betur en nú á sér stað. Þetta kostar fé.

Raforkumálin eru í undirbúningi. Við þurfum að framleiða miklu meiri raforku en nú er gert í landinu. Raforkan er undirstaða undir hvers konar framförum og lífsþægindum, og okkur dreymir varla um þau verðmæti, sem hægt er að framleiða hér á landi, ef nægileg raforka er fyrir hendi. En framkvæmd raforkumálanna kostar stórfé, sem verður ekki lagt fram af einstaklingum einvörðungu. Ríkið verður einnig að koma þar til.

Við þurfum að koma samgöngumálunum í mun betra horf en þau eru nú í. Við þurfum að eignast annað strandferðaskip á borð við Esju sem fyrst og fleiri strandferðabáta. Við þurfum að auka flugsamgöngur okkar, og til þess þurfum við að kaupa nýjar flugvélar. Sumpart má gera ráð fyrir, að einstaklingar leggi fé til flugmála, en ríkið verður einnig að koma til. Við þurfum að auka og efla landhelgisgæzluna, og til þess þurfum við fleiri varðbáta en nú eru. — Allt kostar þetta peninga. Öll sjúkrahús landsins eru of lítil, og víða vantar sjúkrahús. Flestir skólar í landinu eru of litlir, og margar sveitir vantar alveg skólahús. — Okkur vantar öflugar rannsóknarstofnanir í þágu atvinnuveganna.

Nú er svo komið, að tæplega er hægt að reka landbúnað né aðra framleiðslu til lands eða sjávar nema styðjast við síma og fullkomið vegasamband. Það þarf að hefja byggingar í sveitum og við sjó til þess að bæta það upp á næstu árum, sem vanrækt hefur verið í þessum efnum á stríðsárunum.

Þessi og mörg önnur eru áhugamál manna. En hvernig eru horfurnar um að hrinda þessu í framkvæmd, og hvar er hægt að taka féð til þess? Nú eru ástæður þannig, að ríkissjóður hefur í tekjur 115–120 millj. kr., en samt er hverjum einasta eyri eytt, og þó eru framkvæmdir í landinu fremur litlar. Þó að við gerum ekki annað en leiðrétta fjárlfrv., þá verða fjárl. svo há, að sérstaka tekjuöflun þarf til þess að halda ríkisbúskapnum gangandi á næsta ári, þótt peningaflóðið sjatni ekki frá því, sem nú er, — hvað þá, ef við bætum við einhverju af því, sem við þurfum að framkvæma, og bætum á fjárl. Hér við bætist, að bráðlega getur svo farið, að þjóðartekjurnar og þar með tekjur ríkissjóðs fari dagminnkandi, en þarfirnar fyrir athafnir ríkisins til framkvæmda dagvaxandi. Jafnvel þótt við búumst við sama peningaflóði næsta ár og verið hefur, þá þurfum við að auka tekjur ríkisins, ef halda á niðri dýrtíðinni í samræmi við þá stefnu, sem mótuð er í frv. því, sem liggur nú fyrir þinginu um dýrtíðarráðstafanir, — ég tala nú ekki um, ef hægt á að verða að veita fé til bráðnauðsynlegra framkvæmda.

Sjóðir ríkisins eru svo smáir, að þeir hverfa sem dögg fyrir sólu, jafnskjótt og straumhvörf verða, — þegar tekjur ríkissjóðs taka að falla, jafnframt því, sem þörfin á því að halda uppi og auka verklegar framkvæmdir vex.

Þannig er nú ástatt um fjárhag ríkisins og horfur um fjárhagsafkomu ríkisins um þær mundir, sem öll þessi óleystu verkefni bíða fram undan, og um þær mundir, sem tekjur hans eru meira en fimmfaldar á við það, sem var fyrir stríð, um þær mundir, sem það mesta góðæri stendur yfir, sem sögur fara af. — Allt stafar þetta af því, að dýrtíðinni var gefinn laus taumurinn. Ef það hefði ekki verið gert, þá hefði ríkið haft tekjuafgang, svo að tugum milljóna skipti, þrátt fyrir lélega fjármálastjórn, og átt nú vænan skerf af þeim yfir 550 millj. kr., sem þjóðin hefur eignazt á stríðsárunum.

En senn er komið að skuldadögunum, og það mun hefna sín, hvernig að hefur verið farið á stríðsárunum. Fjárfrekar framkvæmdir krefjast úrlausnar. Þótt einstaklingarnir geri sitt til þess að verja fé í ný atvinnutæki, þá verður ríkið að annast og kosta stórfelld nývirki. Hvað verður þá til ráða? Hvar eru þessar 550 millj. kr.? Ekki á ríkissjóður þær.

Afleiðing þessarar ráðsmennsku í fjármálum þjóðarinnar verður því aðeins ein: Auknir skattar og álögur, sem koma, þegar verst gegnir. Framfarirnar hummar enginn fram af sér, og þær kosta mikið fé. Nú er svo komið, að það þarf mikinn og almennan skilning á þeim vandamálum, sem á næstunni verður að leysa í sambandi við fjáröflun til framfara í landinu, ef vel á að fara. En það er sízt til þess fallið að glæða skilning á þeim vanda, að leika sér að því eins og barn að reikna út, hvað hægt sé að kaupa fyrir allt reiðufé allra landsmanna. Það gera ekki aðrir en þeir, sem af einhverjum ástæðum vilja stinga höfðinu í sandinn og fá aðra til þess að gera hið sama.

Ég sagði áðan, að afleiðing þess, sem gert hefði verið, yrðu auknir skattar og álögur, þegar verst gegndi. Þar með er ekki sagt, að það verði með skattálagningu einni saman hægt í tæka tíð að draga saman það fé, sem ríkið þarf á að halda á næstu árum til þess að styðja þá stefnu í atvinnumálum, sem fylgja verður, og það þótt gripið verði til eignajöfnunar í einhverju formi í því sambandi til hagsbóta fyrir ríkissjóð. Það verður vafalaust að grípa til þess einnig, að ríkið taki að láni nokkrar fjárhæðir innan lands, í stað þess, að þær fjárhæðir hefði átt að taka úr sjóðum þess eftir gróðaárin. En þó verður það að vera undirstaða fjármálastefnunnar á næstu árum, að lántökur eigi sér ekki stað nema til arðgæfra framkvæmda.

Á þessu Alþ. sýnist mér ekki munu verða lengra komizt í þessum efnum en fá samtök um afgreiðslu fjárl. og nýja tekjuöflun, sem líkleg sé til þess að tryggja framkvæmd dýrtíðarmálsins og nauðsynlegra verklegra framkvæmda, að ytri ástæðum lítið breyttum og þannig, að fjárl. séu afgreidd tekjuhallalaus. Verður slíkt ærinn vandi, eins og allt er í pottinn búið. Það er auðsætt orðið þeim, sem hér eru kunnugir, að á þessu þingi verður ekki lagður traustur grundvöllur að hagnýtum úrræðum í þeim vanda, sem auðsær ætti að vera flestum skyggnum mönnum, að fram undan er. Til þess eru hugmyndir sumra of draumkenndar. Sú úrlausn, sem fyrirhuguð er í dýrtíðarmálinu til bráðabirgða, sýnir þetta gleggra en nokkuð annað. En hún byggist á því, að bændur séu þeir einu, sem nokkuð leggi af mörkum til þess að stöðva þann hrunadans, sem aukning dýrtíðarinnar er, og ríkissjóður leggur fram 20 millj. kr. til þess að halda vísitölunni niðri, svo að útflutningsframleiðslan stöðvist ekki — á sama tíma sem fiskur er seldur við hæsta stríðsverði. Sjá allir, að þetta er ekki úrlausn til frambúðar. Þar með dreg ég ekkert úr því þakklæti, sem bændur landsins eiga skilið fyrir það að koma í veg fyrir algert hrun fjármálakerfisins þegar á þessu hausti. Það er sýnishorn af skilningi sumra manna hér á hæstv. Alþ. á þessum málum, að fulltrúi þriðja stærsta þingflokksins heldur hér hrókaræður um það sem lausn á dýrtíðarmálinu til frambúðar að afnema alla tolla á nauðsynjavörum. Allt útsöluverð erlendra vara gerir 50–60 stig í vísitölu, sem er 272 stig. Þó að tollarnir væru afnumdir, mundi það ekki muna nema 10–20 stigum á vísitölunni og ekki nægja einu sinni á móti þeirri niðurgreiðslu á dýrtíðinni með ríkisfé, sem nú er framkvæmd. Það er sýnishorn af því, hvernig menn stinga enn höfðinu í sandinn, að menn skuli leyfa sér að ræða málin þannig í áheyrn alþjóðar.

Það er mikið rætt í landinu um stjórnarmyndun. Um tvö ár hefur ekki tekizt að mynda þingræðisstjórn. Fyrst var gerð tilraun til að mynda þriggja flokka vinstri stjórn, ekki sízt vegna þess, að sósíalistar höfðu sagt fyrir kosningarnar næstu á undan, að þeir ætluðu sér þátttöku í slíkri stjórn. Þeir segja nú, að sú stjórn hafi átt að byggjast á kauplækkunum, það hafi verið skilyrði Framsfl. En þetta er ósatt, og sósíalistar vita það vel. Stjórnarmyndunin strandaði á því, að þeir settu hvert skilyrðið fyrir stjórnarmyndun öðru fáránlegra. Þeir settu það að skilyrði, að þingrofsvaldið væri í höndum hvers flokks út af fyrir sig og sett yrðu í vinnulöggjöfina ákvæði um, að pólitísk verkföll yrðu leyfð, og annað svipað settu þeir upp. Og þegar þeim, sí~an var boðin stjórnarmyndun um umbótastefnuskrá, sem birt var alþjóð, þá var lýst yfir því í Þjóðviljanum, að ekki væri hægt fyrir sósíalista að ganga til stjórnarmyndunar á öðrum grundvelli en þeim, að hinir flokkarnir féllust á stefnu Sósfl. Og Brynjólfur Bjarnason, formaður flokksins, lýsti yfir því í sérstöku riti, að það hefði gengið glæpi næst, ef sósíalistar hefðu léð máls á því að ganga þá að stjórnarsamvinnu. En sósíalistum er kunn sú andúð, sem á þeim er fyrir að koma í veg fyrir þessa. stjórnarmyndun, og síðan hafa þeir verið gersamlega flumósa og stöðugt staðið á gatnamótum og hrópað, að þeir vildu umfram allt vera með í myndun ríkisstj. Þeir áttu þátt í samtölum um stjórnarmyndun í þinginu, sem haldið var í vor s.l. um lausn lýðveldismálsins, og mun á sínum tíma verða sögð sagan af framkomu þeirra við þær umræður, sem var ekki síður söguleg en umr. voru á sínum tíma um þriggja flokka stjórn. Á þessu þingi hafa einnig farið fram viðræður um myndun stjórnar allra þingflokkanna. Þessar umr. hafa engan árangur borið enn þá, hvorki í vor né nú í haust. Í haust voru þessar viðræður teknar upp á þeim grundvelli, að stöðva þyrfti dýrtíðina, og væri það frumskilyrði þess, að stjórn gæti orðið mynduð. Fljótlega kom þar málum, að til þess sýndust ekki aðrar leiðir færar en þær, að bændur landsins féllu frá því að hækka afurðaverð sitt og legðu þar með fram til úrlausnar málsins 9,4% af verði afurða sinna. Aðrir voru ófáanlegir til lækkunar og töldu sér ekki viðkomandi, hvað fram undan væri. Jafnframt var það rætt frá öndverðu, að samningar yrðu að nást milli allsherjarsamtaka verkamanna og atvinnurekenda um óbreytt kaupgjald nema á stöku stað, þar sem lægstu starfslaun yrðu færð til samræmis. Bændur á búnaðarþingi buðu lækkun á afurðaverðinu af sinni hálfu. Frá allsherjarsamtökum verkamanna hefur ekkert komið nema óákveðnar uppástungur um breyt. á kaupi víðs vegar, sem atvinnurekendur telja allsherjarkauphækkun, og hefur hvorki gengið né rekið um allsherjarsamninga, enda síður en svo verið nokkuð að því unnið af þeirra hálfu, sem hæst og mest tala um hina miklu þjóðarnauðsyn á samvinnu og samstarfi allra við alla og ráðin hafa nú í allsherjarsamtökum verkamanna. Þess í stað hafa þeir enn sem fyrr verið hinum fyrri þjóðkunnu starfsaðferðum sínum trúir og unnið að því af kappi að koma af stað og halda uppi kauphækkunarkröfum ýmissa þeirra starfsmannahópa, sem bezt eru launaðir.

Ég er alveg sannfærður um, að langflestir landsmanna gerðu fastlega ráð fyrir því og litu raunar á það sem sjálfsagðan hlut, að tilboði bændanna um lækkun verðlags yrði svarað með því a.m.k., að fallið yrði frá kröfum um kauphækkanir í landinu nema þá leiðréttingum á kaupi hinna lægst launuðu. — En fljótlega kom í ljós, að þessi var ekki tilætlun þeirra, sem hér ráða mestu nú í málum þessum. Sú hálf önnur vika, sem liðin er nú, frá því að bændur buðu sitt drengilega boð, hefur ekki verið notuð til þess að ganga til móts við þá. Þessir dagar hafa ekki verið notaðir til þess að aflýsa kauphækkunarkröfum og undirbúa allsherjarsamninga á þeim grundvelli, sem um hafði verið rætt frá öndverðu, heldur þvert á móti til þess að halda áfram deilum og leggja út í nýjar deilur, sem sízt eru til samræmingar tekjum bænda né daglaunamanna. Hér ráða þeir fyrir, sem fegurst hafa mælt um nauðsyn samstarfs og tjónið, sem af því hlytist, ef ekki væri hægt að koma slíku við. Með þessum starfsaðferðum hafa þeir haldið samningunum um fjögurra flokka stjórn í fullkominni sjálfheldu, og mér skilst ekki annað en allsherjarsamkomulag um kaupgjaldsmálin á þeim grundvelli, sem upphaflega var ræddur, sé jafnfjarri nú og nokkru sinni fyrr. — Er þessum mönnum ómögulegt að skilja það, að þeim mun skærara ljósi sem brugðið er yfir nauðsyn samstarfs og umbóta, þeim mun verri verður hlutur þeirra sjálfra, sem berir eru að því, bæði fyrr og síðar, að hafa komið í veg fyrir, að samstarf geti tekizt? Ef þeir meina nokkurn hlut með því að segja, að nauðsyn sé að koma á samstarfi, hvers vegna vinna þeir þá ekki að því, að tilboði bænda um lækkun á afurðaverði sé a.m.k. svarað með því að hætta að halda fram kröfum um hækkun á kaupi þeirra stétta, sem bezt eru launaðar í landinu? Hefur þessum mönnum ekki tekizt að skilja það, að það er of blygðunarlaust til þess að koma að nokkru gagni, að halda því fram, að þeir, sem hafa fyrst og fremst beitt sér fyrir því, að fram hefur komið boð frá bændum landsins um lækkun á verði landbúnaðarafurða, séu þeir, sem friðnum spilla og ekki vilja heilbrigt samstarf? Hvað hafa þeir gert á móti? — svarað eintómum vífilengjum því, sem að þeim hefur verið beint og varðar þátt þeirra á dýrtíðarmálinu, ráðizt á bændur með köpuryrðum á Alþ. út af boði þeirra um lækkun á afurðum og róið öllum árum að nýjum kröfum um kauphækkanir til handa ýmsum, sem hafa miklu hærri tekjur en meðaltekjur bænda hefðu orðið, þótt þeir hefðu fengið hina nýju hækkun heim, — og það þvert ofan í allt, sem um hefur verið rætt fyrr og síðar um stöðvun kaupgjalds og afurðaverðs.

Er nokkur svo skyni skroppinn, að hann ímyndi sér, að þetta séu vinnuaðferðir þeirra manna, sem fullir séu áhuga á því að koma á samstarfi, sem að nokkru minnsta gagni geti komið?

Ég hef lýst því hér á undan, að eftir fimm vikna viðræður nú í þessari síðustu lotu er allt jafnfjarri um grundvöllinn í kaupgjaldsmálum og í byrjun og þó raunar í enn meiri óvissu. Auk þess er allt í óvissu um önnur mál, — fjárhagsvandamálin varla verið rædd og allt í óvissu um afstöðu sumra flokkanna til úrlausnar í dýrtíðarmálinu. Skyldi nokkur undrast, þótt Framsfl. segði, þegar hér var komið sögu, að hann teldi þýðingarlaust að taka þátt í viðræðum áfram, nema afstaðan breyttist frá því, sem verið hafði, og eitthvað ákveðið lægi fyrir í 12 manna n., sem samið hefur um stjórnarmyndun?

Sósíalistar hafa talað mikið um það tjón, sem hlotizt hafi af því, að ekki hafi verið mynduð þingræðisstjórn. Það er rétt, að af því hefur hlotizt mikið tjón, og þau tækifæri, sem þar hafa glatazt, koma ekki aftur. En eftir því sem þeir tala meira um þetta og draga meira fram tjónið, sem af þessu hafi hlotizt, því verri verður hlutur þeirra. Og það verður ófagur reikningur, sem þeir fá frá alþýðu þessa lands fyrir framkomu sína þetta tímabil, sem þeir hafa setið tíu samari á þingi. Þá verður spurt, hverju þessi tiltölulega stóri þingflokkur hafi komið fram fyrir verkamenn, sem þeir telja sig ekki sízt umboðsmenn fyrir.

Ég gat um það áðan, að takast þyrftu á þessu Alþ. samtök um afgr. fjárhagsmálanna á þeim grundvelli til bráðabirgða, sem lagður er með frv. því til dýrtíðarl., sem meiri hl. fjhn. flytur og byggt er á boði bændastéttarinnar um framlög til úrlausnar dýrtíðarmálanna. Það ber því nauðsyn til, að á Alþ. verði mynduð þingræðisstj. til forstöðu þessum málum og til þess að tryggja framkvæmd þeirrar stefnu, sem ofan á verður, og jafnframt til þess að beita sér fyrir samþykkt þeirra umbótamála, sem mest eru aðkallandi og bezt undirbúin. Þetta verður að leitast við að gera jafnt fyrir því, þótt ekki reynist unnt að koma á nú samtökum þeirra, sem líklegastir eru til að eiga samleið um þá umbóta- og framfarastefnu, sem hér verður að framfylgja á næstu árum, ef vel á að fara.

Þá er nauðsynlegt, að þingræðisstj. hefji margvíslegan undirbúning að framtíðarverkefnum þjóðarinnar. Enn fremur verður að hefja samninga við önnur ríki sem skjótast um verzlunarviðskipti eftir stríðið, ekki sízt með það fyrir augum að tryggja sölu á afurðum landsmanna og ná kaupum á atvinnutækjum og efni til nýrra framkvæmda.

Menn eru ýmsir óþolinmóðir út af því, að seint gangi um framkvæmdir í þessu efni, og skal ég ekki draga úr því, að menn þyrftu að vera viðbragðsfljótari. Hitt vil ég þó um leið benda á, að þeir, sem hlýða nú á þessar umr. um fjárhagsmálin, fá ofurlitla hugmynd um, hvers eðlis þau verkefni eru, sem við er að fást, og skilja þá ef til vill betur en áður, að ekki er áhlaupaverk að koma á samtökum um ákveðna stefnu, eins og nú er komið málum.