16.02.1945
Sameinað þing: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í D-deild Alþingistíðinda. (5772)

284. mál, leiga á færeyskum skipum o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Þessi till. fjallar um samning þann, sem gerður hefur verið um skipaleigu við Færeyinga. En l. þessi standa í þannig sambandi við fiskflutning og fiskverzlun, að það er óhugsandi annað en hæstv. Alþ. verði að athuga þau mál í sambandi við þessa till. og sérstaklega vegna þess, að um þau málefni hefur ekkert verið lagt fyrir þingið annað en þetta, þó að margir hafi búizt við, að svo hlyti að verða gert.

Um þennan samning, eins og hann liggur fyrir, get ég ekki mikið fjölyrt, þar sem ég hef ekki haft neina aðstöðu til að fylgjast með þeirri niðurstöðu, sem hér hefur orðið í einstökum atriðum, og læt ég hann því að þessu sinni liggja á milli hluta.

Þó finnst mér ég hljóti að óska eftir því, að haestv. ráðh. sá, sem talaði hér fyrir málinu, gefi hv. þm. upplýsingar um það, hve mörg skip það eru, sem hér hafa verið leigð, því að það kemur ekki fram í þskj. því, er fyrir liggur, og þá hve mörg þeirra hafa verið leigð til 1. júní 1945 og hve mörg til 15. okt. s. á. Þá væri einnig gaman að heyra frá hæstv. ráðh. samanburð á þeim leigukjörum, sem hér eru ákveðin og eru mjög flókin, við þau leigukjör, sem tíðkazt hafa á færeyskum skipum undanfarið, og enn fremur þau leigukjör, sem Færeyingar með frjálsum samningum höfðu ýmist ákveðið eða fyrirhugað, áður en afskipti lögþingsins og ríkisstj. Íslands komu til. Enn fremur væri mjög fróðlegt að heyra álit hæstv. ráðh. um það, hvað hann álítur um horfur fyrir því, að þessi skip leigist til samlaga og annarra aðila hér í landí með sömu kjörum og þau eru leigð af Færeyingum, og í því sambandi, ef hann heldur, að það verði ekki um allan þennan flota, hvaða skoðun hann hefur um það, hvernig takast muni að notfæra fyrir ríkið þau skip, sem ekki leigjast með því móti, og hvernig takast muni að fá það verð, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú ákveðið fyrst um sinn út úr þeim flutningum. — Væri gott að heyra um það frá hæstv. ráðh., því að hér er um stórt fyrirtæki að ræða, hve miklar tölur hér er um að ræða brúttó, t. d. leigu allra skipanna samtals fyrir tímann, því að þá geta menn fengið hugmynd um þá áhættu, sem hér er um að ræða mesta.

Það er því ekki hægt á þessu stigi málsins að ræða samninginn í einstökum atriðum. Þetta mál hlýtur að fara til n. í þinginu, því að það er ekki hægt að ætlast til, að nokkur þm. geti í raun réttri tekið afstöðu til þessa máls, án þess að kynna sér það nokkru nánar. Það er raunar rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að búið er að gera þennan samning og verður ekki aftur snúið með það. En það er eigi að síður sjálfsögð kurteisi gagnvart hv. þm., að þeir fái tækifæri til að athuga þetta mál í einstökum atriðum, áður en þeir eru til þess kvaddir að taka afstöðu til þess, og það er ekki hægt nema í n.

Ég tel því víst, að þingheimur muni telja rétt að vísa þessu máli til athugunar í n. og þá þess heldur, sem ekkert rekur nú á eftir því, að þessu msli sé svo mjög hraðað. Það er búið að gera þennan samning, og þingið á eftir að starfa enn góða stund, svo að engin hætta er á, að þetta mál verði látið daga uppi.

Annars skilst mér, að ekki þurfi mikinn kunnugleika á þessum málum til að vita, að það hefur verið og er neyðarkostur fyrir Íslendinga að leigja jafnstóran flota og þegar hefur verið gert af smáskipum til fiskflutninga, því að það mun hart á því undir núverandi kringumstæðum, að hægt sé að fleyta sumum þessum skipum og fá úr flutningunum það verð, sem menn höfðu ætlað sér að ná, og svo vita menn vel, að framundan geta verið breyt. í þessum efnum og þá náttúrlega mjög erfitt að koma þessum flutningum við þannig, að það hafi ekki áhrif á brúttó-fiskverðið. En það hefur víst ekki verið um annað að gera en leigja mikið af færeyskum skipum og því hafi orðið að taka þennan neyðarkost. Hitt getur svo verið álitamál, hvernig á þessum samningum hefur verið haldið og hvernig þá hefur borið að, hvort hægt .hefði verið að láta þá bera að á heppilegri hátt en orðið hefur. Skal ég ekki fara út í það hér, en mikið af skipum til flutninga þurfti að tryggja með beztu fáanlegum kjörum. Hefur það verið í hendi hæstv. ríkisstj., hvernig á málum þessum hefur verið haldið í upphafi, og ber hún því ein ábyrgð á því.

Mér sýnist því sjálfsagt, að þetta mál, eins og það er, fari til athugunar í n. í þinginu, því að þótt samningurinn hafi verið gerður, þá er þess að gæta, að hér er ekki aðeins um það að ræða, hvort þingið vill samþ. samninginn, sem gerður hefur verið. við Færeyinga, heldur og hitt, hvernig ríkið á nú að ráðstafa öllum þessum mikla flota, sem tekinn hefur verið á leigu, og má segja, að það sé aðallega það, sem liggur fyrir hæstv. Alþ. að gera sína samþ. um. Samninginn er búið að gera, en eftir er að ákveða, hvernig koma skuli þessum flota fyrir við fiskflutningana, og inn í það blandast æðimörg og mikil vandamál. Í því sambandi vil ég spyrja haestv. ráðh. um eitt eða tvö atriði. Nú geri ég ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. hugsi sér að leigja sem mest af þessum skipum út aftur, til framleigu, helzt með sömu kjörum og hún hefur leigt þau af Færeyingum. Nú er í sumum smástöðvum í landinu nokkur áhugi ríkjandi í mönnum að taka smáskip á leigu í þessu skyni á sína áhættu. Þá er augljóst, að ef nokkuð ber út af á slíkum stöðum og halli verður á rekstri skipanna, þá er áður búið að taka svo mikið af fiskverðinu, að ekki er viðunandi, og fiskverðið máske farið með öllu, ef illa fer. Það eru því mjög sterkar líkur fyrir því, að menn hiki við að taka skip á leigu með sömu kjörum og þau höfðu verið leigð með heildarsamningnum. Og hvað á þá að gera við þau skip, sem ekki framleigjast? Í þessu sambandi vildi ég því spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort hæstv. ríkisstj. hefur ekki athugað þetta mál alveg sérstaklega og hvort hún muni þá ekki taka til þess ráðs, úr því sem komið er, að láta þessi skip, sem ekki kunna að leigjast, taka fisk fyrir reikning fiskimálanefndar á hinum smærri höfnum, sem ekki treysta sér til að taka þau á leigu, og taka fisk í skipin þannig, að það verð verði borgað út, sem hæstv. ríkisstj. hefur áskilið á fiskinum.

Nú mætti mörgum sýnast, að það væri nokkuð mikil frekja að halda því fram, að þetta væri eðlilegt. En í því sambandi vil ég sérstaklega minna á það, að núv. hæstv. ríkisstj. hækkaði verð á fiski í vetur. Það er vitanlega alveg óséð, hvaða gagn verður af þessari ráðstöfun í heild. Það sýnir reynslan, og ég efast ekki um, að hæstv. ríkisstj. hefur ætlazt til, að að þessu yrði gagn fyrir ríkið í heild sinni. En hitt er augljóst mál, að smáhafnir víðs vegar um landið eiga mjög erfitt með að fá til sín fisk, og getur það jafnvel orðið til þess, að þessir staðir geti alls ekki fengið til sín fiskikaupaskip og þar af leiðandi ekki losnað við ísfisk sinn, nema á móti komi af hálfu hæstv. ríkisstj., að færeysku skipín yrðu látin taka þeirra fisk með því verði, sem hæstv. ríkisstj. hefur tilskilið.

Ég get því ekki betur séð en að það sé eðlilegt, að þessi leið verði farin, og vildi leyfa mér að spyrja um það, hvort hæstv. ráðh. eða hæstv. ríkisstj. hafi ekki einmitt hugsað sér, að þessi leið yrði valin. Ég þykist raunar sjá þess nokkur merki í þáltill., að þessum mðguleika sé haldið opnum, því að í henni stendur, að Alþ. heimili ríkisstj. ekki aðeins að samþ. færeyska samninginn, heldur og að framleigja skipin og annast rekstur þeirra, ef þörf krefur. Þar er átt við, að ríkisstj. reki skipin og komi þeim í einhvern starfa, ef hún getur ekki framleigt þau.

Mér er það ljóst, að þessu er máske samfara nokkur áhætta, en fæ ekki séð, að hjá því verði komizt að taka pessa áhættu, úr því að byrjað er að skipta sér af fisksölumálunum eins og gert hefur verið, og verður því hæstv. ríkisstj. að gera í framhaldi þær ráðstafanir, sem beint leiðir af því. En það leiðir beint af þessari ráðstöfun, að það verður að gera eitthvað til þess að sjá borgið hagsmunum þeirra, sem eiga erfiðast með að koma fiski sínum í verð, fyrir þessar almennu ráðstafanir, sem á að gera til gagns fyrir heildina.

Af þessu, sem ég nú hef tekið fram, hvernig á að reka þau skip, sem ekki framleigjast nú þegar, og hvernig krafa hlýtur að koma upp um það, að fiskurinn sé tekinn af því opinbera á ýmsum stöðum, sem hafa orðið fyrir erfiðleikum, vegna almennra ráðstafana, sjá menn, að þessi þáltill. fjallar ekki aðeins um samþykkt færeyska samningsins, heldur einnig og engu síður um það vandamál, hvernig á að reka allan þennan stóra flota. Og þó að segja megi, að samningsins vegna sé ekki ástæða til að athuga málið í n., þá held ég, að till. hæstv. ráðh. um, að málið fari ekki til n., hljóti að vera byggð á misskilningi, þar sem ekki getur komið til álita, að það verði ekki tekið til meðferðar í n., hvernig eigi að fara með þann skipaflota, sem hefur verið tekinn til leigu af ríkinu, og þau höfuðatriði sjávarútvegsins, sem koma til athugunar í því sambandi.

Þá vil ég minnast á það, að eftir því sem tilkynnt hefur verið af hæstv. ríkisstj., hefur hún leigt fleiri skip en færeysku skipin. Hæstv. ríkisstj. hefur skýrt frá því, að hún hafi einnig leigt brezk skip til flutninga, og ég sé ekki annað en hæstv. ríkisstj. ætti að leita á sama hátt heimildar Alþ. fyrir þeirri skipaleigu og um það, hvernig þau verða notuð, eins og með færeysku skipin. Tel ég því, að inn í þessa till. eigi að koma heimild Alþ. til þeirrar skipaleigu, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú samið um við Breta, og enn fremur ákvörðun eða heimild til ríkisstj., hvernig þau skip verði rekin. Ég skal taka það fram, að mér finnst áhætta við leigu á færeysku skipunum vera allveruleg, ekki sízt, þegar gætt er þeirrar siðferðilegu kröfu, sem margir eiga nú á hendur því opinbera, til að fiskurinn sé tekinn með föstu verði.

Þá hefur komið fram af hálfu hæstv. ráðh., að hæstv. ríkisstj. hafi tekið til umráða skip frá Eimskipafélagi Íslands. Ég veit ekki, með hverjum hætti, — hvort Eimskipafélagið hefur fallizt á samninga að taka fisk til flutninga gegn ákveðnu flutningsgjaldi eða hæstv. ríkisstj. hefur leigt þessi skip af Eimskipafélaginu og þá með hvaða kjörum. En ef þessu er þannig farið, að hæstv. ríkisstj. hefur leigt skip af Eimskipafélaginu í því skyni að taka í þau fisk fyrir sinn reikning, þá sýnist mér, að það þurfi líka að koma inn í þetta heimild fyrir þeirri skipaleigu og ákvæði um það, hverníg rekstri þeirra skipa skuli komið inn í þetta fjárhagslega.

Þá vil ég í þessu sambandi minna á mál, sem er þessu svo náskylt, að ekki er hægt annað en að minnast á það um leið. Það er verðjöfnunarvandamálið, hvernig eigi að koma fyrir verðjöfnun á fiskinum. Hæstv. ríkisstj. hefur sett á sérstakt verðjöfnunargjald og telur sig hafa haft til þess heimild samkv. útflutningsl. frá 1940. Tel ég mjög hæpið, að hæstv. ríkisstj. hafi haft heimild ti1 að setja á það gjald, samkv. eðli málsins, hvað þá heldur, að hún hafi haft heimild til að ráðstafa slíkri fjárhæð með tilskipun eða auglýsingum eftir sínum geðþótta. Ég hafði alltaf búizt við því, að hæstv. ríkisstj. mundi leggja þessa ákvörðun fyrir Alþ., a. m. k. kveðja Alþ. til að vera í ráðum með sér, hvernig verðjöfnuninni skyldi komið fyrir, því að það er auðvitað mikið hagsmunamál, sem snertir alla, er sjávarútveg stunda í þessu landi. Og ég fullyrði, að þegar l. um útflutning afurða voru sett, vakti ekki fyrir neinum manni, að eftir þeirri löggjöf mætti gera óendanlega verðjöfnun manna á milli í sambandi við útflutning. En þetta hefur hæstv. ríkisstj. ekki gert, og ég tel það miður farið og ekki rétt. Nú hefur hæstv. ríkisstj. eftir langa umhugsun ákveðið að skipta landinu í verðjöfnunarsvæði. Um þetta má mjög mikið deila, en eitt er víst, að með því að skipta landinu þannig í verðjöfnunarsvæði í stað þess að hafa allt landið eitt verðjöfnunarsvæði, getur svo farið, að þessi verðjöfnun komi að litlu eða engu haldi í sumum landshlutum. Þetta er mönnum svo kunnugt, að ekki skal farið út í það nánar. En það getur hæglega farið svo, að verðjöfnunarsjóður verði svo sem enginn til í sumum landshlutum og einmitt þeim, sem helzt þyrftu á honum að halda og ættu mest tilkall til verðjöfnunargjalds, en það eru einmitt þeir menn, sem samkv. till. hæstv. ríkisstj. eru verr settir en illa til að koma fiski sínum í verð.

Ég tel því margt mæla með því, að landið verði allt gert að eínu verðjöfnunarsvæði í þessu sambandi, og liggja til þess nokkuð sömu rök og ég áður færði fyrir þeirri kröfu, sem útvegsmenn ættu víðs vegar um landið á hendur því opinbera, að fiskurinn væri tekinn með því verði í skipaflota ríkisstjórnarinnar, sem hún hefur sett sem lágmarksverð.

Ég er undrandi yfir því, að verðjöfnunin skuli ekki vera víðtækari að því leyti, að ekki skuli allur ísfiskur koma undir verðjöfnunargjaldið, til þess að það gæti orðið að einhverju liði, ef út af ber. Og þó hef ég veitt því athygli í sambandi við þa~r auglýsingar, sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið út um þetta mál, að hún hefur enn ekki tekið ákvörðun um það, að sá hagnaður, sem hún kann að hafa af fiskflutningunum í heild sinni, gangi til verðjófnunar á fiski í landinu, sem ég tel þó alveg sjálfsagt, en skal ekki fara lengra út í það við þessa umr.

Ég vildi aðeins drepa á þessi atriði. Ég hef gengið út frá því sem sjálfsögðu, að mál þetta færi annaðhvort til allshn. eða fjvn., og býst ég við, að fáum muni þykja fært að afgreiða mál sem þetta frá þinginu, án þess að það fari til n., því að hér er ekki aðeins verið að samþ. færeyska samninginn, heldur einnig verið að ákveða eitt hið stærsta fjárhagsmál, sem fyrir þingið hefur komið, sem sé það, hvernig ríkið á að ráðstafa þeim stóra skipaflota, sem þegar hefur verið leigður, og önnur vandamál í sambandi við það. Og það er náttúrlega allt annað atriði heldur en sjálfur fær eyski samningurinn. Ég vil því óska eftir, að það gæti orðið samkomulag um það, að þetta mál færi til annarrar hvorrar þeirrar n., eftir því sem hæstv. ríkisstj. þætti betur við eiga. Ríkisstj. getur samt sem áður haft málið algerlega í hendi sinni, þótt það fengi slíka athugun. Hæstv. ríkisstj. hefur það alveg á valdi sínu, hvenær þingið hættir, og þingið á nú að þessu sinni enn eftir að sitja nokkra stund vegna afgr. annarra mála, sem engum dettur í hug, að alþm. hlaupi frá óafgreiddum.