16.02.1945
Sameinað þing: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í D-deild Alþingistíðinda. (5773)

284. mál, leiga á færeyskum skipum o.fl.

Pétur Ottesen:

Herra forseti. — Út af því, sem hér hefur verið sagt um það, hvort vísa ætti þessari þáltill. til n. eða þó öllu heldur, til hvaða n. þá ætti að vísa henni, vildi ég segja nokkur orð. — Eins og hæstv. atvmrh. hefur tekið fram, er búið að gera þennan samning, og öllu er slegið föstu um efni þessa samnings. Samþ. eða synjun Alþ. hefur þess vegna engin áhrif á það, að við þennan samning verður að standa, hvort sem að samningnum verður hagur eða að hið opinbera, ríkið, bíður eitthvert fjárhagslegt tjón í sambandi við samninginn. Hitt er svo annað mál, sem hv. 2. þm. S-M. hefur bent hér á, að það eru önnur atriði, sem eru í þessari þáltill., sem e. t. v. væri fullkomin ástæða til að taka til athugunar af n., svo sem, hvernig ráðstafa skyldi þeim skipum, sem samningurinn hljóðar um. Þar er náttúrlega um tvær leiðir að ræða eftir þessari þáltill., sem sé, að ríkisstj. leigi skipin öðrum, og að hinu leytinu sú leiðin, að ríkissti. annist rekstur þeirra. Að vísu bendir endir till. til þess, að að því verði stefnt af hæstv. ríkisstj. að leigja skipin, því að þar er aðeins talað um það, að ríkisstj. annist rekstur þeirra, ef þörf krefur, og skil ég það þannig, að ef ekki tekst að 1eigja skipin einstökum mönnum eða félögum til fiskflutninga, þá annist ríkisstj. um rekstur skipanna. Þetta er náttúrlega atriði út af fyrir sig, sem er alveg á valdi Alþ., hvaða till. það vill gera til ríkisstj. um. Og það get ég tekið undir með hv. 2. þm. S-M., að e. t. v. væri ástæða til að taka þetta til athugunar.

Hv. 2. þm. S-M. benti á tvö önnur atriði í þessu máli. Annað þeirra er þeir leigusamningar, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert um þau skip í eigu Englendinga, sem sigla hér á milli og ríkisstj. er búin að semja um, að hafi á hendi fiskflutninga, og að hinu leytinu þau tvö skip, sem upplýst hefur verið, að hæstv. ríkisstj. hafi tekið á leigu af Eimskipafélagi Íslands til fiskflutninga. Og ég verð að segja það, að úr því að hæstv. ríkisstj. fer að leita samþ. Alþ. á leigusamningum um færeysk skip, þá virðist mér það liggja í hlutarins eðli, að eðlilegt væri, að einnig væri leitað samþ. Alþ. á þeim samningum, sem gerðir hafa verið um ensku skipin til þessara sömu nota, og á þeim samningi, sem gerður hefur verið við Eimskipafélag Íslands. Ég veit náttúrlega ekkert um það, til hve langs tíma samningurinn hljóðar um ensku skipin og ekki heldur um skip Eimskipafélagsins. En ég sé ekki eðlismun á því, a. m. k. að því er snertir ensku skipin annars vegar og þau færeysku hins vegar, þannig að það hefði eins átt gagnvart leigu ensku skipanna að leita um samþ. Alþ. á samningum um þau á sama hátt og hér er gert viðkomandi færeysku skipunum. — Það, sem þá gæti verið hlutverk n., ef málinu væri vísað til n., er því eingöngu að athuga um það atriði málsins, hvernig ætti að ráðstafa skipunum. Og þá leiðir af sjálfu sér, að það er hlutverk hv. allshn. Alþ. að fjalla um málið að því er snertir almenn fyrirkomulagsatriði og framkvæmd málsins. Náttúrlega gæti sú athugun leitt til þess, að það yrði að verja nokkrum tíma til þess að leita ýmissa upplýsinga í sambandi við málið, svo sem um afstöðu fiskimanna til þess, hvort ríkið ætti að leigja út þessi flutningaskip eða hvort ríkið ætti að annast rekstur þeirra sjálft, sem mér skilst, að því er snertir hið síðarnefnda, að eftir till. sé því aðeins gert ráð fyrir, að ríkisstj. takist ekki að leigja skipin aftur út frá sér. — Og með tilliti til þessa vil ég enn fremur láta það koma hér fram, að því er fjvn. snertir, að auk þess, sem mér finnst, að eftir efni og eðli þessa máls eigi málið að fara til allshn., þá er fjvn. svo störfum hlaðin og hefur verið það um langt skeið, af því að búið er að vísa til hennar nú á þessu þingi, fyrir utan fjárlagaafgreiðsluna með öllum skjölum þar að lútandi, fjölda af þáltill. og öðrum erindum, sem n. hefur orðið að leggja mikið verk í að gera till. um. Það hefur verið vísað til fjvn. upp undir 40 málum, fyrir utan fjárlagaafgreiðsluna, nú á þessu þingi. Og mér er kunnugt um, að einu máli var vísað til fjvn. í dag í viðbót, og ein eða tvær þáltill. eru hér á ferð í þinginu, sem samkv. eðli sínu eiga að fara til fjvn., svo framarlega sem þeim verði vísað til n. Af þessum ástæðum öllum geri ég ekki ráð fyrir, að það komi til, að þessu máli verði vísað til fjvn.