16.02.1945
Sameinað þing: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í D-deild Alþingistíðinda. (5777)

284. mál, leiga á færeyskum skipum o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Ég minntist áðan á það, að ég teldi sjálfsagt að vísa þessu máli til n. og færðí fyrir því gild rök. Af hendi eins af þeim þm., sem styðja ríkisstj., hafa þegar komið fram ákveðnar till. um breyt. á orðalagi þáltill. Það er ófrávíkjanleg krafa, að þm., sem ekki hefur gefizt tækifæri til að fylgjast með samningagerðinni, sé nú veitt tóm og tækifæri til að athuga málið. Afgreiðsla sú, er hv. þm. Barð. stakk upp á, að ríkisstj. væri heimilað að gera þennan samning, en hann ekki samþ. af Alþ., væri að öllu leyti betur viðeigandi. Þetta var þó ekki aðalatriðið í sambandi við þessa hógværu og rökstuddu ósk og ábendingu mína, heldur hitt, að Alþ. getur ekki látið bjóða sér að samþ. þessa till. nú þegar án athugunar. Það hljóta stuðningsmenn stj. að skilja jafnt og aðrir. Menn styðja kannske stj. þennan mánuðinn og þetta árið, en ekki hitt, og dagamunur á því má ekki ráða afstöðu þeirra til þess, hvað sé sæmileg meðferð þingmála og hvað ósæmileg.

Ég vil stinga upp á því til miðlunar, að skilin verði sundur þau tvö atriði, sem ríkisstj. hefur talið sér henta að blanda saman í till. Annað er færeyski samningurinn, sem er gerður hlutur, og mundi samþ. hans e. t. v. ganga mjög greiðlega út af fyrir sig. Hitt er notkun skipanna í þágu flutninga okkar, og það er mál, sem engu getur skipt, hvort afgreitt er í dag eða á morgun eða á mánudagþriðjudag, en þarf rækilega athugun í n. Vill ekki hv. allshn. undirgangast að gera þessa skiptingu í tvær þáltill., ef málinu verður vísað til hennar?

Hæstv. atvmrh. hefur mótmælt því á mjög óþinglegan hátt, að málið færi til n. Hann heldur því fram, að umr. séu mjög móðgandi fyrir Færeyinga. Erum við að móðga Færeyinga með því að óska eftir, að það verði athugað í n., hvernig skipunum verði ráðstafað til flutninga o. s. frv.? Það hlýtur að vera eitthvað undarlega ástatt í heilabúi hæstv. ráðh., að hann skuli koma fram með slíkar firrur. Tilgangur ríkisstj. með því að hespa þetta svona af hlýtur að vera sá að koma í veg fyrir, að n. eða einstakir þm. geti athugað málið og gert sínar till. í sambandi við þetta og fiskimálin. Sama viðleitni kom fram hjá ríkisstj. fyrr í vetur í sambandi við fisksölumálin. Ekkert mátti segja svo, að það væri ekki talið mundu spilla fyrir samníngum við aðra þjóð. Slíkt er fjarstæða í sambandi við þetta mál, en framkoma ráðh. er móðgun við Alþingi.

Það vita allir, að ríkisstj. hefur haft þessi mál lengi til meðferðar. Það er einnig augljóst, að ráðstafanir hennar hafa rekizt nokkuð hver á aðra. Fiskimenn og útflytjendur hafa orðið að búa við mikla óvissu. Nú hefur sú óvissa mikið minnkað, og sakar engan, þó að samþ. þessarar þál. dragist nokkra daga.

Ég skal nú víkja að málinu sjálfu, þó að ég hugsi mér að ræða það nánar við 2. umr. Hæstv. atvmrh. sagði, að ég hefði talið þetta eitt af allra stærstu fjárhagsmálum, sem hér hefðu þekkzt. En ég sagði aðeins, að það væri stórt og þýðingarmikið fjárhagsmál, sem hefði áhrif á afkomu mikils fjölda landsmanna, og ég sný ekki aftur með það. Hann benti á, að brúttófjárhæð leigunnar væri ekki nema fáar milljónir króna og hærri tölur hefðu þekkzt. En við vitum, að þetta er miklu stærra mál en leigan ein segir til um. Ekki er hægt að segja fyrir, hve mikla fjárhagsáhættu um er að ræða fyrir ríkið — og fyrir aðra aðila. — Það er ekkert smámál, hvernig verðjöfnuninni skuli háttað, hvernig varið skuli ágóða, sem verða kann af flutningi með öðrum skipum en þessum o. fl. o. fl. Það er óhæfa, að slíkt mál fái ekki þinglega meðferð. En annars virtist gæta, þegar hæstv. atvmrh. talaði um uppbæturnar. Hann sagði, að ég ætti ekki að tala um stórar fjárhæðir, þar sem svo stórum fjárhæðum væri varið úr ríkissjóði til þess að greiða uppbætur á landbúnaðarafurðir. Þessi tónn í ræðu hæstv. ráðh. gefur mér tilefni til að benda ráðh. á, að minnstur hluti þeirra uppbóta, sem hann talar um, er greiddur vegna landbúnaðarins eða bænda. Mestur hluti þeirra greiðslna, er hafa verið greiddar af ríkinu, hefur verið inntur af hendi til þess að halda niðri verðlagi og framleiðslukostnaði í landinu. Og það er fyrst og fremst gert vegna þeirra atvinnugreina, sem þurfa að keppa á erlendum markaði, einkum vegna sjávarútvegsins.

Ég get ekki stillt mig um í þessu sambandi að minnast á það, að ráðh. var að tala um, að verið væri að vekja upp deilur um þetta mál. En hver er það, sem er að vekja upp deilur um þetta mál? Það er enginn annar en hæstv. ráðh. sjálfur með þeim gorgeir, sem fram kom í ræðu hans, og með hnútukasti að mér fyrir það, sem ég hef leyft mér að drepa á í sambandi við þetta mál.

Ég gerði fyrirspurn til hæstv. ráðh. um það, hvernig ríkisstj. hefði hugsað sér að leysa vandkvæði þeirra útgerðarstaða í landinu, sem ekki treysta sér til að taka færeysku skipin á leigu, vegna þess að þeir staðir geta orðið fyrir þungum búsifjum af því. Ég hélt, að það væri eðlilegast, eins og nú er komið, að ríkisstj. tæki fisk í skipin á þessum stöðum. Ég spurði, hvað ríkisstj. hefði ákveðið í þessu efni. Þetta er ákaflega þýðingarmikið mál og nauðsynlegt, að það sé tekið til athugunar í sambandi við afgreiðslu þeirrar till., sem hér liggur fyrir.

Hæstv. ráðh. talaði mikið um, að ríkisstj. hefði ekki tekið skipin á leigu, heldur bara rúm í skipunum. Á þessu er auðvitað sáralítill munur, en þó nokkur.

Ég gerði fyrirspurn í fyrri ræðu minni um, hvort ekki væri ætlazt til þess, að ágóðinn af þessum flutningum rynni í þann sjóð, sem ætlaður er til verðjöfnunar á fiski. Ég sagði, að það væri skoðun mín, að slík tilhögun væri höfð, og því ætti landið að vera eitt verðlagssvæði. Hæstv. ráðh. vék ekkert að þessu í ræðu sinni. En þetta er þýðingarmikið mál fyrir útveginn og stendur í beinu sambandi við notkun færeyska skipaflotans. Í stað þess að skýra þetta fyrir mönnum og láta í ljós fyrirætlanir ríkisstj., var ekkert frá ráðh. að hafa nema skæting og endnrteknar kröfur um, að málið yrði afgreitt samstundis, áður en menn hefðu möguleika til að athuga það og koma við eðlilegum brtt.

Í ræðu hv. þm. Barð. og hæstv. ráðh. kom fram eitt atriði, sem tilefni er til að minnast á með örfáum orðum í þessu sambandi. Það er ráðstöfun færeysku skipanna. Hv. þm. Barð. lýsir ráðstöfun skipanna þannig, að minnstu og lélegustu skipin eigi að sigla á þá staði, sem næstir eru markaðslöndnnum, en stærri skipin á þá staði, sem fjær eru. Ég gat ekki betur heyrt en hæstv. ráðh. tæki undir þetta í ræðu sinni. Ég fyrir mitt leyti mótmæli því, að þessi stefna sé tekin upp, og tel það fyllsta ranglæti gegn þeim, sem búa nærri markaðssvæðunum, ef þessi háttur er við hafður. Það nær ekki nokkurri átt, að þessi útgerðarpláss séu kúguð til að taka á leigu minnstu og lélegustu skipin, sem óvíst er, að geti borið sig. Hingað til hefur það verið svo, að stærri verstöðvarnar, sem vel liggja við markaðssvæðunum, hafa fengið að taka á leigu mjög heppileg skip. Og ekki hefur verið farið eftir þessari reglu enn, og ég mótmæli því, að þessi háttur sé upp tekinn. Út yfir tekur þó, ef þessi regla er upp tekin og verðlagsskipulagið þá látið halda sér. Þá væru t. d. þeim, sem búa á Austurlandi, allar bjargir bannaðar til þess að sjá málum sínum farborða. Þeir yrðu kúgaðir til að taka minnstu og verstu skipin á leigu, og ef skipin gætu ekki borið sig og ekki fengist hámarksverð fyrir aflann, þá yrði heldur engin verðjöfnun. Því að nú er Austurland verðjöfnunarsvæði út af fyrir sig. Af þessu, sem ég hef þegar drepið á, má það öllum vera ljóst, að mjög vandasöm mál koma til úrlausnar í sambandi við þessi mál. Þess vegna er ástæða til þess, að þingið hafi tóm til þess að ræða þessi mál í næði og n. úr þinginu fái tækifæri til að fjalla um það. Þótt þingið gæti ekki ákveðið nákvæmlega í einstökum atriðum, hvernig þessum málum skuli vera fyrir komið, gæti ríkisstjórninni að sjálfsögðu orðið mikið gagn af þeim umræðum, sem fram færu um þau.

Ég mótmæli þeim einræðis- og ofbeldisanda, sem lýsir sér í því að fara með málið eins og hæstv. ráðh. leggur til, þannig að þinginu gefist ekki tækifæri til að athuga málið. Með því að fallast á þá uppástungu, sem ég hef borið fram, fær ráðh. allt, sem hann óskar, þar sem lýst hefur verið yfir, að n. skuli taka málið fyrir strax, svo að málið fengi áreiðanlega afgreiðslu nægilega snemma.