16.02.1945
Sameinað þing: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í D-deild Alþingistíðinda. (5779)

284. mál, leiga á færeyskum skipum o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umr. nú. En tvö atriði í ræðu hæstv. atvmrh. gerðu það að verkum, að ég finn ástæðu til að segja nokkur orð, þótt þau hafi verið rædd að nokkru leyti af þeim ræðumönnum, sem töluðu á undan mér.

Hæstv. atvmrh. upplýsti það hér áðan, að á þessu ári ætti að greiða í styrkveitingar til bænda hvorki meira né minna en 27 millj. kr. Ég verð að segja það, að ef treysta má þessum upplýsingum, þá vil ég þakka ríkisstj. og ráðh. fyrir þá miklu fjárhæð, sem hún ætlar að veita til bændastéttarinnar á þessu ári. En mér er ekki kunnugt um, hvort fjárveitingarvaldið ætlast til þess, og ekki, hvort féð verður greitt. Mér þykir miklu líklegra, að eitthvað annað búi undir. Enda mun það sanna vera, að hér sé um blekkingar að ræða í sambandi við það fé, sem greitt er úr ríkissjóði til að halda niðri verðlagi á innlendum markaði. Og það er fyrst og fremst gert fyrir aðra atvinnuvegi í landinu heldur en landbúnaðinn. Eins og kunnugt er, mun mest af kjötinu seljast innanlands á þessu ári, svo að útflutningsuppbæturnar verða litlar, sem greiða þarf. En það er vitað, að allmikið fé mun fara til þess að greiða niður dýrtíðina, sem hæstv. atvmrh. og hans fylgismenn hafa unnið mest að að skapa á undanförnum árum. Ég vil segja það, að það er óviðurkvæmilegt að hafa þann mann í ráðherrastóli, sem leyfir sér að bera fram eins villandi upplýsingar og að telja þá fjármuni styrkveitingar til bænda, sem greiddir eru til að halda niðri dýrtíðinni í landinu. Þessi niðurfærsla á afurðum bænda er þeim til baga, og þeir mundu kjósa að fá greitt fyrir afurðir sínar jafnóðum og þær seljast heldur en bíða eftir fjármunum, sem ríkissjóður greiðir til þess að halda dýrtíðinni niðri. Og það er vitað, að það er ekki gert til þess að hjálpa bændastéttinni, heldur fyrst og fremst til hjálpar öðrum atvinnuvegum, einkum þeim, sem þurfa að keppa á erlendum markaði. Með þessum greiðslum er verið að halda niðri framleiðslukostnaðinum í landinu.

Og ég verð að segja það, að ef það er óvinátta við Færeyinga, að við ræðum um þessi mál, hvað á þá að telja, að þetta tal sé í garð bændastéttarinnar, þar sem þeim eru eignaðar tugmilljónir króna, sem vitað er, að fyrst og fremst er þeim til óþæginda? En þessi málfærsla er ekki ný úr þessari átt, sérstaklega frá þeim mönnum, sem mesta sök eiga á því með hækkun dýrtíðarinnar, að það skuli þurfa að gera þessar greiðslur.

Svo er það annað atriði, sem ég get ekki látið hjá líða að minnast á nánar. Það eru þau ummæli hæstv. atvmrh., að það v æri óvinátta í garð Færeyinga, ef menn ræddu samninginn og það, sem þeir teldu, að miður hefði farið í honum af hálfu fulltrúa okkar og ríkisstj. Þetta er ekkert nýtt úr þessari átt. Ég sé ekki, að nokkur hreyfi svo andmælum í garð hæstv. ríkisstj. varðandi viðskipti og samskipti við aðrar þjóðir, að ekki sé hrópað, að það stafi af fjandskap við hlutaðeigandi þjóðir. Ég vil benda á það, að ég fæ ekki séð, hvar það muni lenda, ef ekki má nokkurn skapaðan hlut deila á ríkisstj. í okkar mikilvægustu málum. Það er eins og henni finnist hún eigi að vera hafin yfir alla gagnrýni, vera „stikkfrí“ og gera hvað, sem henni sýnist, í þessum efnum. Ég veit, að svona er það úti í Rússlandi, og þaðan er sá andi, sem ríkir í þessum málum hjá ríkisstj. og þó sérstaklega hjá atvmrh. En ég vil segja það, að þótt ég treysti ríkisstj. ekki vel til neinna hluta, þá treysti ég henni í engu verr en í utanríkismálum. Og ég tel, að þörfin sé mest fyrir þjóðina að fylgjast vel með í þeim málum og vita jafnan, hvaða stefnu ríkisstj. tekur í utanríkismálum. Við höfum séð það við svo að segja hvert mál, sem ríkisstj. hefur haft með höndum, að það eru talin hin mestu landráð, ef einhver leyfir sér að hafa aðra skoðun en ríkisstj. Þetta er svo einræðiskennt, að ég álít, að þjóðinni sé búinn háski, ef ekki eru kveðin niður á Alþ. slík ummæli sem þau, er fram komu hjá hæstv. atvmrh. Ég veit vel, að í einræðisríkjum leyfist ekki að deila á utanríkisstefnu stj., en ég vissi ekki, að slíkt bann væri hér í gildi.

Hvernig er ekki með Englendinga og Bandaríkin? Hafa ekki enskir þm. deilt á ensku ríkisstj. fyrir afstöðu hennar í utanríkismálum? Ég hef hvergi séð, að þeir hafi verið kallaðir landráðamenn. Hvernig hefur ekki verið með Grikklandsmálin eða Póllandsmálin? Er ekki deilt á stj. brezku um jafnviðkvæmt mál, án þess að þeir, sem það hafa gert, hafi verið kallaðir landráðamenn eða svikarar? Og hvernig var með Belgíu? Ég veit ekki betur en brezka þingið hafi rætt þessi mál. En allir þeir, sem hér leyfa sér að gagnrýna ríkisstj. fyrir stefnu hennar í utanríkismálum, eru landráðamenn og svikarar! Er einræðið virkilega orðið svo sterkt á Íslandi, að það megi ekki tala um utanríkismál öðruvísi en þeir vilja, sem stjórna? Er öll hæstv. ríkisstj. orðin svo undirlögð þessari stjórnarstefnu, sem hún hefur tekið í faðm sinn? Ég álít fullkomlega ástæðu fyrir þjóðina að fara að athuga þetta. Ég verð að segja það líka og skal gjarnan á það benda, að það kvað einu sinni við annan tón hér á hv. Alþ., og eru ekki mörg ár síðan.

Mig minnir, að árið 1942 hafi verið rætt hér á lokuðum fundi um utanríkisviðskipti og þess óskað, að þm. ræddu það ekki annars staðar. Það voru ekki talin landráð af vissum aðilum að hlaupa í blöðin næsta dag! En það er skammt öfganna á milli, og ég held, að hv. Alþ. hafi gott af að læra hinn gullna meðalveg í þessu efni, að geta rætt þessi mál, án þess að farið sé í þær öfgar að kalla það landráð, ef nokkur leyfir sér að hafa aðra skoðun en sú ríkisstj., sem situr við völd, eða að hlaupa í hinar öfgarnar, að ekkert megi ræða, án þess að það sé strax orðið að blaðamáli, en að hvorum tveggja öfgunum hafa þeir menn, sem núv. ríkisstj. skipa, staðið. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti, að ég skil satt að segja ekki, til hvers verið er að leggja þessa samninga fyrir hv. Alþ. til samþ., ef Alþ. má ekki ræða það og það má ekki fara til n. og menn mega ekki gera annað en rétta upp höndina og helzt að þegja. Til hvers er verið að koma með slík mál inn á hv. Alþ.? Það er vitanlegt, að okkar ræður skuli aðeins vera annaðhvort já eða nei, og þó aðeins já. En það hefur ekki mátt ræða um vandamálið, án þess að talað væri um fjandskap við óþekktan aðila, sem enginn hefur minnzt á nema gott eítt. Ég hef ekki heyrt eitt einasta orð falla illa í garð Færeyinga, þegar rætt er um þessa samninga á opinberum vettvangi eða á Alþ. Þegar rætt var um fisksölumálin áður á opinberum vettvangi, sást ekki eitt einasta óvinveitt orð í garð Breta frá stjórnarandstæðingum, en ég hef séð það annars staðar og á öðrum vettvangi, þar sem talað er um innanlandsmál og deilt á erlenda ríkisstj. fyrir það, og það þekkjum við í blaði hæstv. atvmrh. Ég hygg, að það komi varla nokkurt blað út án þess að í því séu harðvítugar árásir á forstöðumenn vinnuveitendaþjóðanna í kringum okkur. Þess vegna held ég, að hæstv. atvmrh. væri nær að líta sér nær, ef hann ætlar að bæta um samskipti okkar við aðrar þjóðir í kringum okkur, og ætti hann þá að snúa sér í sínar eigin herbúðir, því að hvergi hefur úlfúðin komið eins greinilega fram og í málgagni hans.

Ég verð að segja, að það er dálítið einkennilegt að skipa samninganefnd og gera langa og margbrotna samninga við fulltrúa erlendra stjórnarvalda og koma síðan og heimta samþ. þingfulltrúanna, án þess að þeim gefist tækifæri til þess að athuga málið.

Hér liggur fyrir samningur í 28 gr., og mér þætti gaman að sjá þann hv. þm., sem búinn er að athuga til fulls hvert einstakt atriði í þeim samningi og hve hagstæður hann er okkur á ýmsan veg. Nú er að vísu búið að gera þennan samning, og hæstv. ríkisstj. tekur sjálfsagt á sig ábyrgðina á því. Þess vegna er rétt, eins og hv. þm. Barð. kom með, að ríkisstj. sé gefin heimild til þess að gera samninginn og hún beri svo ábyrgðina á honum, en það er fráleitt að fara að samþ. hann, án þess að fá tíma til þess að athuga hann í n., enda fá þm. ekki einu sinni tíma til þess að athuga einstök atriði, heldur verða þeir að rétta upp höndina þegar í stað. Það er á fleira en einu sviði, sem þessi einræðiskennd er komin á í stjórnarfarinu. Það er í fleira en utanríkismálum, að menn mega ekki minnast á gerðir stj. Vinnubrögðin við þetta mál eru þannig, að þm. mega ekki athuga það, áður en þeir segja já eða nei. Ræðuháttur þeirra er já, já, eða nei, nei, eins og hv. þm. Vestm. kallar það. (BÁ: Ekki nei, bara já!) Hæstv. ríkisstj. þykist vera svo örugg um, að hún hafi nógu marga til að segja já, svo að henni er sama, þótt einhverjir séu utan við, sem segi nei.

Ég sé svo enga ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Það voru þessi tvö atriði, sem ég vildi víkja að, og ég mótmæli algerlega fjandskap af ríkisstj. hálfu í garð bændastéttarinnar, með því að núa henni um nasir, að hún fái tugi millj. kr. í styrki, þar sem henni eru þessir styrkir ekki greiddir, heldur öðrum stéttum í landinu og öðrum atvinnuvegum, svo að þeir geti haldizt uppi.

Ég tel þetta fullan fjandskap, og því oftar, sem hann er fram borinn, því berari verður hæstv. ríkisstj. að fjandskap sínum í garð bænda, og ég mótmæli einnig, að það eigi að múlbinda þm. í utanríkismálum og þeir megi ekkert segja um það, sem þeir aðhafast, án þess að það sé talinn fjandskapur við viðkomandi þjóð, þótt ekkert sé sagt í því sambandi nema gott eitt.

Ef slík vinnubrögð eru tekin upp hér á Alþ., sé ég ekki neina þörf á því, að það sitji, enda mun hæstv. ríkisstj. óska þess helzt, að hún ráði ein í þessu efni, enda kom það fram í ræðu hæstv. forsrh. fyrir nokkru, að til þess væri ríkisstj., að hún ætti að stjórna í landinu. Ég hef haldið hingað til, að þar, sem væri þingbundin ríkisstj., ætti þ. að fjalla um málin, en stjórnin framkvæmdi svo vilja Alþ.