16.02.1945
Sameinað þing: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í D-deild Alþingistíðinda. (5780)

284. mál, leiga á færeyskum skipum o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Það er sennilega nauðsynlegt að taka það fram vegna þeirrar ræðu, sem nú var flutt, að það mál, sem hér liggur fyrir, er leiga á færeyskum fiskiskipum, því að það gæti vel farið svo, að menn héldu, að sú ræða, sem ég mun halda, væri alveg út í hött, ef menn hafa haldið, að sú ræða, sem hv. þm. V.-Sk. var að enda við að flytja, hafi verið um það mál, sem hér liggur fyrir. En þegar menn, sem sagt, taka það með í reikninginn, að hér er til umr. þáltill. um leigu á færeyskum fiskiskipum, taka menn eftir því, að ræða sú, er síðast var flutt, dæmir sig alveg sjálf, svo að yfir hana má alveg hlaupa.

Í þeim umr., sem hér hafa fram farið um þessa þáltill., hefur þess sérstaklega gætt, að nokkrir þm. leggja á það kapp, að þessi þáltill. verði ekki afgr. strax, heldur vísað til n., og n. fái sem sagt að fjalla um málið.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Borgf., að mínum dómi, að hann hélt, að til þess væri nokkur ástæða að vísa málinu til n., og benti sérstaklega á það, að ekki væri farið fram á sams konar heimild fyrir ríkisstj. til leigu á brezkum skipum, sem tekin hafa verið til fiskflutninga, og ekki heldur fyrir leigu á 2-3 skipum Eimskipafél.

Það er ofur eðlilegt, finnst mér, að hv. þm. líti svo á þetta mál fyrst í stað, en þegar betur er að gáð, þá er í rauninni reginmunur á leigu brezku skipanna og þessara tveggja skipa Eimskipafél. og svo þeim færeysku, sem hér liggur fyrir till. um. Leigan á færeysku skipunum er þess eðlis, að þar gerir ríkisstj. samkvæmt áður fengnu, í eigin umboði Alþ., þó ekki að öllu leyti formlegu, samning um leigu á 60 skipum til fiskflutninga, en hins vegar viðvíkjandi leigu brezku skipanna, þá snýr það mál þannig við, að ákveðin ríkisstofnun, fiskimálanefnd, tekur á leigu rúm í nokkrum brezkum skipum fyrir mjög hagstætt flutningsgjald, að allra dómi. Það er því í rauninni engin ástæða til þess, að þ. geri um það nokkra samþ., það mun ábyggilega verða viðurkennt af öllum, að sú fragt, sem tekin er í fiskflutningi í brezku skipunum, er mjög hagstæð, miklu hagstæðari en við höfum þekkt fyrr, svo að enginn þarf að kvarta undan því, að um óhagstæða samninga sé að ræða, og því full ástæða til þess, að fiskimálanefnd tæki þennan samning, þegar hægt reyndist að gera hann, og sem sagt, að ekki þurfi til þess að grípa á nokkurn hátt að fá samþ. Alþ. til þess. Það er ekki hægt að setja dæmið upp á þá lund: Brezku skipin eru erlend skip. Færeysku skipin eru líka erlend skip, og þess vegna hljóta þessir samningar að vera í eðli sínu eins og báðir þurfi að sæta sömu meðferð hér. Þannig er ekki hægt að setja þetta upp. Á þessu er meginmunur, sem ég tel alveg fullvíst, að hv. þm. Borgf. viðurkennir, þegar hann gætir betur að málinu.

Mjög svipað er að segja um leiguna á skipum Eimskipafél. Þar er einnig um það að ræða, að þessi ríkisstofnun, fiskimálanefnd, hefur tekið skipin á leigu til þriggja mánaða fyrir mjög sómasamlega leigu að mínum dómi, og ég sé ekki ástæðu til þess, að þeir leigumálar séu lagðir fyrir þ. til samþ., en fyndist mönnum nauðsynlegt að gera það, hygg ég, að menn gætu orðið á það sáttir, að sjálfsagt væri að flytja þá samþykktarbeiðni alveg óviðkomandi þeirri leigu á færeyskum skipum, sem hér liggur fyrir til samþ. En það kom mjög greinilega fram í ræðu hv. 2. þm. S-M., að hjá honum lágu í rauninni allt aðrar ástæður til þess að orðlengja hér um þessa till. og óska eftir því, að samþ. hennar yrði frestað. Það lá greinilega allt annar tilgangur á bak við hjá honum heldur en hv. þm. Borgf. Meginhluti ræðu hv. 2. þm. S-M. snerist í raun réttri um það, að sú leiga á færeysku skipunum, sem nú hefði verið gerð, væri óhagstæð, að hér væri um neyðarkosti að ræða, eins og bann orðaði það, geysileg áhætta fyrir ríkissjóð, ekki aðeins fyrir ríkissjóð, heldur líka aðalatvinnuveg landsmanna, útgerðina, og af þeim ástæðum væri alveg nauðsynlegt að vísa þessu máli til n. og gera alveg sérstakar breytingar á þeim hluta till., sem varðar fyrirkomulagið á rekstri skipanna og dreifingu þeirra.

Þá margendurtók þessi sami hv. þm. það, að þær ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. hefði gert nú að undanförnu í fisksölu- og fiskflutningamálum, svo sem eins og verðjöfnunarsjóðsgjaldið, sem lagt er á útfluttan fisk, hafi orðið til stórtjóns fyrir hinar smærri verstöðvar og gæfi þeim nú „móralska“ kröfu, eins og hann orðaði það, á hendur ríkissjóði, um að ríkið annaðist fiskflutninga frá þessum smærri verstöðvum. Það leyndi sér ekki, að grunntónninn í ræðu hans var, sem sagt, sá, að hann er á móti þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið í fisksölumálunum, og hann er andvígur þeim samningum, er þegar hafa verið gerðir um leigu á færeyskum skipum, og hann óskar eftir að fresta sem lengst, að mér skildist, nauðsynlegum ráðstöfunum á þessum skipum, og ég neyðist til þess að halda því fram, eftir að hafa hlustað á ræðu hans, að það sé beinlínis tilgangur hans að fá eins óhagstæða útkomu út úr rekstri þessara skipa og frekast er hægt að fá. Þannig kom það fram, að hann óskaði eftir yfirlýsingu frá ríkisstj. um það, að þessi skip verði rekin þannig, að þau verði látin kaupa fisk þar á landinu, sem erfiðast er um að taka fiskinn, og ríkið tryggi, að fyrir þann fisk verði greitt það hæsta verð, sem greitt er nú fyrir útfluttan fisk, og ríkið fylgi kalli þessara staða í öllum tilfellum, jafnvel þótt hann viti, að í mjög mörgum tilfellum er óframkvæmanlegt að ætla að tína upp fisk um allt land, hvenær sem kallað kann að verða eftir skipum frá einhverjum smástöðum.

Það mál, sem hér liggur fyrir, er hv. þm. ekkert ókunnugt, og vil ég segja, að sízt ætti það að vera hv. 2. þm. S-M. ókunnugt, því að hann hefur tekið fyrr en nú þátt í umr. um þetta mál. Hann er búinn að vita um það í allmarga daga, hvaða kjör voru á þessum skipum, sem hér eru leigð, og hann mátti fullvel vita, hver þörf lá til þess að leigja þessi skip. Í rauninni hefur hann þegar gefið fullt samþ. sitt til þess, að sá samningur væri gerður, sem nú hefur verið gerður við fulltrúa Færeyinga um leigu á þessum skipum, svo að það er alveg hreinn fyrirsláttur að koma nú hér fram og afsaka sig með því, að hér eigi að knýja fram samþ. á stóru máli, sem þm. hafi ekki fengið tök á að kynna sér, og nú eigi að skrúfa það í gegn á einum degi. Þetta er mál, sem honum ætti að vera fullkunnugt um og hefur verið upplýst hér, sem tök voru á fyrir nokkrum dögum, allrækilega að ég hygg, og þær dylgjur, sem fram komu, bæði hjá hv. 2. þm. S-M. og nokkrum fleiri viðvíkjandi leigu færeysku skipanna, að hún sé svo óhagstæð, að hún sé nokkurs konar gustukaverk, sem við séum að gera á Færeyingum, falla um sig sjálfar, þegar menn gæta að því, að þeir útvegsmenn, sem sérstaklega óskuðu eftir því að fá færeysku skipin leigð til fiskflutninga og hafa áður staðið í samningaumleitunum við Færeyinga um leigu á þessum skipum, viðurkenna allir, að þeir samningar, sem nú hafa verið gerðir á skipunum, séu síður en svo óhagstæðari en hinir fyrri samningar. Þeir hafa nú þegar samþ. að taka á leigu af þessum skipum jafnmörg og þeir ætluðu sér áður að leigja milliliðalaust, og það eru góðar horfur á því, að það takist að leigja öll þessi skip, jafnvel þótt maður verði daglega var við, að mjög ákveðið og skipulega er unnið að því að torvelda slíka framleigu, eftir því sem aðstaða þeirra gefur tilefni til.

Það er virkilega þörf á því að ganga frá þessu máli sem allra fyrst í þ., vegna þess að framleiga á skipunum til útvegsmanna byggist að miklu leyti á því, að framleigan geti farið fram sem allra fyrst. Sum skipin eru þegar komin upp og búin að tak fisk í sig. Útvegsmönnum leikur skiljanlega hugur á því að fá þessi skip strax viðurkennd undir það að verða leiguskip þeirra, en ekki verði eytt, vegna óþarfrar tímaeyðslu Alþ., heilli ferð af tíma skipanna í það nú, að þau verði rekin sem kaupskip einmitt nú, meðan hagstætt verð er á fiskinum í Englandi, og ég er alveg sannfærður um það, ef svo færi, að þ. væri að velta þessu fyrir sér í marga daga, hvort ríkið ætti að reka skipin eða gefa útvegsmönnum þau í hendur, getur vel farið svo, að ríkið neyðist til að reka öll skipin, og ég er alveg sannfærður um það, að útkoman á slíkum rekstri verður óhagstæðari með því móti. Sannleikurinn er sá, að fiskimálanefnd hefur leitazt fyrir um það, eftir því sem hún hefur getað, að fá þessi skip framleigð. Hins vegar kom það fram í ræðu hv. 2. þm. S-M., að hann vildi, að ríkið hefði þessi skip á sinni hendi og síðan gætu einstakir smástaðir kallað á skipin, en ríkið bæri hallann, sem hlyti að verða undir slíkum kringumstæðum. Það er líka í fullu samræmi við þetta, sem það dynur á fiskimálanefnd nú, t. d. þegar kaupfélagsstjóri á Austurlandi krefst þess, að fiskimálanefnd kaupi og flytji út fisk frá sínum stað nú þegar á hinu hækkaða verði, en svo þegar betur er að gáð og farið er að tala við þennan kaupfélagsstjóra, kemur í ljós, sem allir kunnugir menn máttu vita, að á þessum stað er alls ekki róið á sjó á þessum tíma árs, en hins vegar unnið mjög skipulega að því að spana menn fram með kröfum um, að ríkið yrði skyldað til þess að senda til þeirra skip og taka fisk til flutnings, jafnvel þótt fiskurinn sé ekki til.

Það er vitanlega hin mesta fjarstæða að halda því fram, að sú fiskverðhækkun, sem nú hefur verið ákveðin, sé hinum smærri útvegsstöðvum til tjóns. Ég segi aðeins, að ég hefði gaman af því að fara með hv. 2. þm. S-M. um kjördæmi hans á Austurlandi og láta hann leggja þá spurningu fyrir fiskimenn á þeim slóðum, hvort þeir séu á móti því, að fiskverðið var hækkað um 15%, sem hann var svo mjög að óskapast yfir. Sannleikurinn er sá, að fiskimenn una því vel, að fiskurinn var hækkaður í verði og framkvæmanlegt var að hækka verð á þeim hluta aflans, sem út er fluttur. Kemur þessi hækkun þeim áreiðanlega að góðu, en er þeim alls ekki til tjóns, og er ég viss um það, að hv. 2. þm. S.-M. getur ekki komið með eitt einasta dæmi um, að þessi verðhækkun hafi orðið nokkrum hinna smærri útvegsstöðva til tjóns.

Það er fyrirbrigði, sem allir vita um, að hinar einstöku smærri útvegsstöðvar hafa á undanförnum árum ekki getað losað sig við allan afla sinn. Þetta var þannig lagað, meðan lægra verð var á fiskinum, og þó að fiskverðið yrði stórkostlega lækkað á ýmsum hinna smæstu útvegsstöðva, hefði engin breyting orðið á því að fá skip til þess að taka aflann, ef um þá nokkurn afla hefði verið að ræða. Hins vegar er það nú svo, að þeir menn, sem hafa allt á hornum sér gagnvart þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið í fisksölumálunum, nota nú tækifærið til þess að halda því fram, að þeir smástaðir, sem aldrei hafa getað fyllt fiskiskip til útflutnings, hafi nú orðið mjög hart úti vegna fiskverðhækkunarinnar. Þetta er algerlega rangt. Enginn þeirra staða, sem hafa flutt út fisk, hefur orðið útundan það, sem af er þessu ári, því að frá ýmsum þessara staða hefur jafnvel verið fluttur út meiri fiskur en nokkru sinni áður, enda er það ein af ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. í þessum málum, að nú hefur hún veitt þessum stöðum réttindi til þess að kaupa skip, þannig að þau geta tekið þar fisk, sem hægt er að fá sæmilegan markað fyrir hann, en áður var þessu hins vegar ekki til að dreifa.

Ég heyrði, að hv. 2. þm. S-M. komst þannig að orði, er hann gerði eina tilraunina til þess að gera lítið úr færeysku skipunum, sem nú hafa verið leigð, og þeim samningum, sem gerðir hafa verð í þessum efnum, að ýmsar af hinum smáu útgerðarstöðvum mundu ekki treysta sér til þess að taka svona lítil og óhagstæð skip til fiskflutninga. En dettur þessum hv. þm. í hug, að þessar litlu útgerðarstöðvar hefðu frekar treyst sér til að leigja stór og dýr skip í þessum tilgangi? Ég fullyrði, að hin smáu færeysku skip eru einu skipin, sem nokkur tök eru á að reka þannig, að það geti borgað sig að reka þau frá hinum smæstu útgerðarstöðvum landsins, því að á þessum stöðum þurfa þessi skip að vera lítil, og launakjörin á færeysku skipunum eru þannig, að helzt er hægt að reka þau frá slíkum stöðvum; þetta er alger frágangssök fyrir smáu útgerðarstaðina, en hins vegar ótækt fyrir þá að reka hin stærri færeysku skip eða hin stærri íslenzku skip.

Ég veit í raun og veru ekki, til hvers þeir hv. þm., sem á annað borð hafa verið með því, að samningarnir um færeysku fiskiskipin voru gerðir, vilja vísa þessu máli til n. — Engum getur komið til hugar að vísa þeim hluta þessarar þáltill. til n., sem fjallar um að viðurkenna samning þann um leigu á fær eyskum skipum, sem þegar hefur verið gerður; því að ekki er hægt að breyta ákvæðum samningsins. Hitt atriðið fjallar um að veita hæstv. ríkisstj. heimild til þess að framleigja skipin. Það hefur áður verið tekið fram, að það eigi að framleigja skipin til samlaga útvegsmanna, og komu þá engar raddir gegn þessu, og ég hélt, að allir hv. þm. mundu viðurkenna það, að það er sjálfsagða og rétta leiðin að framleigja þessi skip til þessara aðila. Þarf þá að vísa málinu til n. til þess að veita hæstv. ríkisstj. heimild til þess að framleigja skipin? Og þegar menn tala um það, að þeir samningar, sem hér um ræðir, séu óhagstæðir og okkur stafi mjög mikil fjárhagsleg hætta af þeim, eru þessir menn þá á móti því, að nú megi framleigja þessi skip til sjálfra útgerðarmannanna? Ég hygg, að menn sjái það við nánari athugun, að það getur ekkert gagn gert að vísa þessu máli til n., en frekar spillt fyrir framleigu skipanna og framkvæmd þessa máls. Ég segi því fyrir mitt leyti, að ég álít, að þess sé engin þörf að vísa þeirri þáltill. til n., og mæli eindregið með því, að hún verði afgr. þegar í dag.