10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2048 í B-deild Alþingistíðinda. (5794)

Þormóðsslysið

Finnur Jónsson:

Ég mun á engan hátt misnota leyfi hæstv. forseta til að segja hér nokkur orð til viðbótar. Ég skil afstöðu hv. þm. Barð. vel. Honum er vorkunn. Orð mín koma illa við hann, þótt það réttlæti hins vegar ekki það óþinglega orðbragð, sem hann viðhafði. En menn eru nú öllu vanir hér af því tagi frá hans hendi, svo að ekki kippi ég mér upp við það.

Hv. þm. Barð. sagði, að ég hefði vaðið inn til borgardómara og fengið upplýsingar, sem hefði verið haldið leyndum fyrir öðrum. Ég vil leyfa mér að vitna til viðtals þess, er ég átti við borgardómara. Þar er hvorki farið í skýrslur né réttarpróf, heldur aðeins spurt um það, hvort skýrsla sú, sem birt hafði verið, væri skýrsla sjódómsins. Um réttarhöldin voru engar upplýsingar gefnar. Það, sem ég hef sagt og skrifað, hef ég byggt á upplýsingum, sem öllum voru heimilar, nú siðast á skýrslu sjódómsins sjálfs, sem birt hefur verið. Hv. þm. gæti eins kvartað um, að skýrsla sjódómsins væri röng eins og kvarta um það, sem ég hef sagt.

Ég er ekki maður til að leggja dóm á það, en á meðan ég veit ekki annað sannara, þá trúi ég hlutlausri rannsókn betur en ummælum hv. þm. Barð., sem er aðili í málinu, og ég vildi skora á hann að taka undir þau tilmæli mín til ríkisstj., að hún láti skýrslu sjódómsins fara fyrir æðri dóm, að því loknu getum við betur talazt við.

Forsætisráðherra kveðst ekki hafa lesið skýrslu þá, er birtist í „Vísi“ í dag, en ég vildi mælast til, að hann léti sig þetta mál nokkru varða, enda þótt það heyri öllu fremur undir annan ráðherra. Ég tel, að vegna almenningsálitsins sé nauðsynlegt, að allt hið sanna og rétta verði ljóst í þessu máli. Sömuleiðis er það bezt fyrir alla aðra aðila.

Ég hefði ekki óskað, að stofnað yrði t il þessara umræðna hér að nóttu, en forseti taldi, að ekki yrði unnt að ræða þetta mál næsta dag. Hins vegar kom skýrslan í „Vísi“ ekki fyrr en í dag, svo að ég gat ekki komið hér fram með þetta fyrr.

Hv. þm. Barð. bar ýmislegt á mig í sambandi við þetta mál. Ég svara því nú ekki, en sumt af því, sem hann hefur talað í þessu máli, væri honum sjálfum án efa fyrir beztu, að hann hefði aldrei talað.