16.02.1945
Sameinað þing: 95. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í D-deild Alþingistíðinda. (5822)

284. mál, leiga á færeyskum skipum o.fl.

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. — Út af ummælum hv. 7. þm. Reykv. vildi ég taka fram, að ekkert af því, sem ég sagði áðan í ræðu minni á þessum fundi, var ekki áður komið fram á fundi í dag. Það er ekki komið neitt nýtt nú á þessum fundi fram í þessu máli. Og að gefnu tilefni vil ég taka fram, að ég hef enga ástæðu til þess að reka hornin í fiskiskipaeigendur. En þó er ég þeirrar skoðunar, að fiskimaðurinn, sem á fiskinn, sé rétthærri heldur en þeir til þess að ákveða um, hvernig hann skuli fluttur. Þetta er mín persónulega skoðun. Og ég álít, að það sé ekki hægt að ganga inn á þær brautir, sem boðað er í brtt. þeirri, sem hv. þm. Borgf. las hér upp áðan, af þeirri einföldu ástæðu, að þá væri ríkisvaldið beinlínis að taka upp sjónarmið fiskiskipaeigendanna gegn sjónarmiði fiskimannanna, sem ég þó tel það, sem þýðingarmest sé og eigi því meiri rétt á sér. Og allur okkar útvegur er kominn undir því, að fiskveiðarnar séu reknar með nægilegum krafti. Ég vil ekki, að hv. þm. Borgf. og hv. 7. þm. Reykv. séu neitt í vafa um það, hvað ég legg mikla áherzlu á, að fiskimaðurinn fái sem mest fyrir sinn fisk, og að ég tel hans rétt að því leyti meiri heldur en fiskflutningaskipaeigendanna. Og þau tilvitnuðu orð, sem hv. þm. Borgf. hafði eftir mér, voru að því leyti rétt, að ég sagði, að ef vertíð yrði skapleg, væri ekki annað fyrirsjáanlegt heldur en allur fiskiskipafloti okkar yrði hagnýttur að fullu, ef maður dregur ályktanir frá þeim tölum, sem fyrir liggja um fiskútflutning á s. l. ári. — Ég vil enn taka það fram, að þegar við erum að tala um rétt fiskiskipaeigenda, þann rétt, að þeir eigi rétt á því að fá að taka fisk hvar, sem þeir koma í höfn, og að ríkisstj. skyldi smáútvegsmenn, sem hafa fisksölusamlög, ti1 þess að gefa frá sér sín skip, en selja fisk til fiskkaupaskipa... (PO: Heyrði ekki hæstv. ráðh. það, sem ég sagði?) Ég heyrði það vel, en ég vil þó ekki, að hv. þm. sé neitt í vafa um þetta, — ég vil þá frekar, að hann flytji sína brtt. en að hann haldi það, að ég vilji ganga einhliða inn á sjónarmið fiskkaupmanna. Hitt undirstrika ég, að mjög mikil nauðsyn er á því, að íslenzk fiskflutningaskip séu í þessum flutningum, miðað við, að vertíð verði ekki lakari nú heldur en í fyrra. Og ríkisstj. mun gera allt, sem hún getur, til þess að sameina svo þessi andstæðu sjónarmið, sem þarna eiga sér stað, annars vegar sjónarmið eigenda fiskiskipanna og sjónarmið fiskimannanna hins vegar, þannig að engin vandræði hljótist af, svo að úrlausnin verði sú, að íslenzku skipin verði hagnýtt svo sem bezt má verða. Og ég býst við, að vertíðin verði tæplega svo, að skiprúm þeirra hagnýtist ekki. — En það er alger misskilningur, ef hv. þm. Borgf. hefur álitið, að ég væri búinn að taka upp þá stefnu eða meiningu, sem kemur fram í hans till. Ég vil heldur, að hann beri fram sína brtt. en hann misskilji orð mín þannig.