16.02.1945
Sameinað þing: 95. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í D-deild Alþingistíðinda. (5825)

284. mál, leiga á færeyskum skipum o.fl.

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. — Það eru aðeins örfá orð. Það, sem gaf mér tilefni til að standa á fætur, voru þau orð hæstv. forsrh., sem hann hafði áðan, að honum fyndist, að ég hefði dregið fram nokkuð einstrengingslega rétt eigenda íslenzkra fiskflutningaskipa. Ég get ekki fallizt á þetta, því að ég hef ekki flutt mitt mál öðruvísi en svo að reyna að tryggja, að þessir aðilar eigi fullan rétt á sér í þjóðfélaginu, sem hingað til hefur verið viðurkennt, að hafi starfað fyrir þjóðfélagið að nauðsynjamáli. Ég hef aðeins farið fram á, að þessir aðilar megi starfa á sama grundvelli og áður. Ég veit, að hæstv. forsrh. veit það, að hér starfa og eru að verki, — ég veit ekki, hve margir tugir eða hundruð skipa —, sem á undanförnum árum hafa flutt út fisk til Englands fyrir marga tugi milljóna kr. Þau hafa borið misjafnt úr býtum, en enginn hefur til þessa dregið í efa þeirra réttmæta starf. Og ég hafði ekki farið fram á annað en þessir aðilar hefðu jafnan rétt til starfs síns og aðrir. Þetta var ekki sagt af vantrausti á hæstv. ríkisstj., heldur að því gefna tilefni, að það var ekki vitað almenningi, þegar brezku skipin voru tekin á leigu, að þau hefðu forkaupsrétt að fiski, og var ekki vitað fyrr en það kom síðar á daginn. Það var sjálfsagt nauðsynlegt, og ég get fallizt á það. En samt sem áður var það ekki vitað fyrr eins og ég sagði. Og þegar svo stendur í þáltill., sem hér kemur til atkv., að það eigi að heimila ríkisstj. að leigja út þessi færeysku skip, þá gat manni dottið í hug, að það sama ætti að koma í samninga um þau skip eins og um brezku skipin, að leigutaki fengi rétt til þess að láta þau ganga fyrir íslenzkum skipum um rétt til kaupa á fiski. Og þetta vildi ég vita. Og ég vildi hafa það tryggt, að réttur þeirra íslenzkra aðila, sem staðið hafa fyrir fiskflutningum á undanförnum árum, væri ekki með þessum samningum borinn fyrir borð. — Og ég hef nú fengið þær upplýsingar í þessu efni hjá hæstv. ríkisstj., sem ég mun láta mér nægja. Og ég trúi því, að hún muni gagnvart þessum aðilum sjá svo til, að þeirra réttur verði sem jafnastur á við rétt þeirra aðila, sem hér koma inn í, sem sé þeirra, sem hafa færeysku skipin á leigu. Ég mun sætta mig við þetta og ekki bera fram þá brtt., sem ég og hv. þm. Borgf. vorum áðan að boða. Það, sem ég þess vegna er ekki alveg ásáttur með, eru þau ummæli hæstv. atvmrh., að það sé skoðað þannig, að í mínum ummælum, að því er snertir fiskflutningana, felist einhver ágengni gagnvart fiskimönnum. Ég held, þvert á móti, að interessa þessara tveggja aðila, fiskimanna og flutningaskipaeigenda, hljóti að fara saman. Ég hef vitanlega ekkert á móti því, að fisksölusamlög í verstöðvum taki flutningaskip á leigu. En ég veit samt sem áður dæmi þess, að þau hafa ekki alltaf farið með hagnaði frá því. Og ég er líka, því miður, sannfærður um það, að svo kynni að fara fyrir þeim verstöðvum a. m. k., sem taka minni skip á leigu, að þau hafi ekki alltaf hagnað af því. Og ég er ekki viss um nema hagsmuna verstöðvanna sé fyllilega vel gætt með því, að þær selji sinn fisk fyrir markaðsverð til þeirra manna, sem taka á sína ábyrgð að sér að selja fiskinn til útlanda. Það er því rangt og út í bláinn sagt, að fiskútflytjandinn sé að starfa á kostnað fiskimannanna.

Ég skal svo ljúka þessum orðum með því að segja, að það tel ég aðalatriðið, sem nú síðast kom fram í ræðu hv. þm. Barð., frsm. allshn., þar sem hann lýsir yfir því, að ríkisstj. hafi sagt, eða að hann hafi skilið hana þannig, að þessir aðilar hafi sama rétt og hinir, sem hafa færeysku skipin á leigu. Og um annað hef ég ekki beðið, og ég vænti þess líka, að við það verði staðið.