02.03.1945
Sameinað þing: 99. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í D-deild Alþingistíðinda. (5835)

286. mál, listasafn o.fl.

Frsm. (Jónas Jónsson):

N. hefur rætt þetta mál innbyrðis og við hæstv. fjmrh. og gert það stutta álit, að hún væri með því, að till. næði fram að ganga með einni nýrri orðabreytingu, sem er, að í stað þess, að áður var sagt „að fela ríkisstjórninni að framkvæma“ þetta, þá er hér talað um „að heimila“.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, vegna þess að þau tvö höfuðatriði, sem hér koma til greina, falla í sama farveg. Annars vegar er það einlæg ósk, að ég hygg, alls þorra manna í landinu og sérstaklega þeirra, sem hér búa í Reykjavík og mest þekkja til vinnu þessa manns, að hann fái nokkra aðstoð ríkisins, eins og fleiri af okkar listamönnum, myndhöggvarar og málarar, hafa haft, til að koma upp vinnustofu og íbúð og einnig safni. Nú þarf ekki annað en benda á það, sem réttilega var tekið fram í sambandi við þessa sýningu, að ekki væri úr vegi að gefa fólki, sem kom á sýninguna svo að segja á hverjum degi og ekki á neinar myndir eftir listamanninn, kost á því að sjá myndir hans við og við, með því að hafa sýningarsal hér í Reykjavík, þar sem ? hluti þjóðarinnar býr og margir koma. Ég hygg, að sé tvímælalaust, að þjóðin ann þessum manni þess að geta haft betri vinnuskilyrði og ann sjálfri sér að geta séð meira til verka hans en annars mundi vera. Hitt hefur úrslitaþýðingu fyrir þetta mál, og það þó að það sé svona seint fram komið af eðlilegum ástæðum og erfitt að fá fjármálastjórnina til að sætta sig við ný útgjöld, að hæstv. fjmrh. hefur sagt við okkur nefndarmenn, að hann mælti með, að þessi till. væri samþykkt, og gerir hann það ekki af léttúð, heldur af því, að hann er á sama máli og meginhluti þjóðarinnar, og vænti ég því þess, að þessu máli muni vel farnast, þegar bæði fer saman velvild þeirra, sem stjórna erfiðum fjármálum, og þeirra, sem borga skattana.

Ég vona þess vegna, að þetta verði samþykkt og verði til ánægju og gagns fyrir þjóðina í bráð og lengd.